Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Skotin í Húsavík...

Brá undir mig betri fætinum í gær. Ja eða svoleiðis. Fór á fund á Húsavík, fór þangað í gær og kom ekki heim fyrr en í morgun...

Keyrði með Hilmari samstarfsfélaga mínum norður. Lentum í sandstormi og rokkuðum alla leiðina. Feitt. Ég skammast mín að segja frá því en ég hafði aðeins einu sinni komið til Húsavíkur áður og þá var ég fimm ára. Það eina sem ég man úr þeirri ferð er að ég buslaði berrössuð í vaðlaug frænda míns daglangt. Kannski man ég það bara af því ég hef oft skoðað myndir af þeim herlegheitum!

HúsavíkEn hvað um það. Á Húsavík lentum við Hilmar um hádegisbil. Um leið og við fukum inn í bæinn sagði ég vil Hilmar- "Ég er viss um að ég á eftir að eiga heima hérna einhverntíman." Undarleg hugljómun! Sat svo góðan fund allan daginn og átti svo frábært "deit" með Erlu Dögg stórfrænku minni og vinkonu í gærkvöldi en hún er búsett á staðnum. Fékk því útsýnisrúnt um allan bæinn með orðskýringum. Varð skotin í bænum eftir það. Ef að Alcoa byggir álver þar förum við kannski öll þangað til þess að starta herlegheitunum? Fór einu sinni til miðils og það eina sem ég man að hann sagði við mig var- "Þú átt eftir að búa á Norðurlandi og tala mikið. Miðla einhverju." Ja, hvur veit?

Keyrði svo til baka í morgun. Ekki með Hilmari heldur með Önnu Heiðu samstarfskonu minni. Rokkuðum heldur minna en töluðum því meira. Kvenlegt. Hef aldrei séð svona eftir að gleyma myndavélinni minni heima- en það var kannski ágætt því í stað þess að koma í vinnu um hádegi eins og við gerðum hefðum við kannski verið að lenda núna! Þvílík fegurð umhverfisins á leiðinni í dag. Haustlirir mynduðu frábæra andstæðu við sandinn og auðnina, sólin hafði betur í baráttu sinni við skýin og stráin hálf lágu niður vegna roksins- bara fallegt! Fallegt en engin mynd. Bara mín hug-mynd!

 


Í dag...

Eins og aðrir foreldrar leiði ég hugann að því margoft á dag hversu óendanlega rík ég er að eiga þrjú yndisleg börn. Var að koma inn af mínum þriðja foreldrafundi, þriðja kvöldið í röð. Finnst alltaf jafn skemmtilegt að sitja slíka fundi og drekka í mig upplýsingar um það sem börnin mín eru að gera í "sinni vinnu" daglangt. Það er frábært og innihaldsríkt starf sem fer fram í skólum og leikskólum í dag...

Fyrsti bekkingurinnByrjaði á því á mánudagskvöldið að sitja fund um hvað skólastúlkan mín mun gera í fyrsta bekk í vetur. Var kosin bekkjafulltrúi þar ásamt foreldrum þriggja annarra barna. Hlutverkið er mér ljúft, en ég kannast orðið vel við það en ég hef tekið það að mér tvisvar sinnum í Almars Blæs bekkjum, bæði í Ártúnsskóla og hér á Reyðarfirði síðasta vetur...

Stóri strákurinn minnÍ gærkvöldi var samskonar fundur í tengslum við sjöunda bekkinn. Eins og á mánudagskvöldið var farið yfir áherslur vetrarins ásamt því að kynna eineltisáætlun skólans kynnt, líkt og í fyrsta bekk. Lét af störum sem bekkjafulltrúi þar...

Þrumuguðinn minnÍ kvöld var svo haustfundur leikskólans. Það er afar fjölbreytt og spennandi starf sem fram fer í Lyngholti og ég er afar sátt. Samkvæmt lögum var stofnað foreldraráð fyrir leikskólann- auk þess sem foreldrafélag er starfandi. Munurinn á foreldraráði og foreldrafélagi er sá að foreldrafélagið snýr meira að uppákomum sem komið er á fót, s.s. vorferð, piparkökumálun og slíku. Væntanlegt foreldraráð mun funda með leikskólastjórn og ræða mál sem snýr að skipulagi starfsins, námsskrá o.fl. Ég var kosin í þetta nýstofnaða foreldraráð og er ég afar ánægð með það, en mér finnst mikilvægt að vera eins mikið inn í málefnum barna minna og ég get...

Viðurkenni það fúslega að mér reynist þetta viku-viku fyrirkomulag með krakkana erfitt. Er með hjartverk af söknuði þegar "barnlausa helgin" er liðin og heil vinnuvika framundan án þeirra. Ætla að enda annars væmin pistil á afar fallegri hugsleiðingu sem ég fékk senda frá leikskólanum í vetur og eflaust margir hafa séð. Lestur hennar snertir mig alltaf og sér í lagi núna þegar ég er ekki eins mikið með gullmolunum mínum og ég vildi...

Góð samanLitlu krúttin mínHin heilaga þrenningGaman á höfninni

Í dag

  • Í dag ætla ég að stíga yfir óhreina tauið, taka þig í fangið og fara með þig út að leika
  • Í dag ætla ég að skilja diskana eftir í vaskinum og láta þig kenna mér að setja saman nýja púslið
  • Í dag ætla ég að taka símann úr sambandi og hafa slökkt á tölvunni og sitja með  þér úti í garði og blása sápukúlur
  • Í dag ætla ég ekki að skammast neitt þótt þú suðir um að fá ís, heldur ætla ég að kaupa hann handa þér
  • Í dag ætla ég ekki að hafa áhyggjur af þvi hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór eða efast um ákvarðirnar sem ég hef tekið varðandi þig.
  • Í dag ætla ég að leyfa þér að baka smákökur sem mega vera allavega í laginu.
  • Í dag ætla ég að bjóða þér á skyndibitastað og kaupa barnabox handa okkur báðum svo þú getir fengið bæði leikföngin.
  • Í dag ætla ég að halda á þér í fanginu og segja þér frá því þegar þú fæddist og hversu mikið ég elska þig.
  • Í dag ætla ég að leyfa þér að sulla í baðinu og ekki vera reið yfir bleytunni.
  • Í dag ætla ég að leyfa þér að vaka lengur og sitja úti á svölum og telja stjörnurnar.
  • Í dag ætla ég að kúra hjá þér og lesa bók þó að ég missi af uppáhalds sjónvarpsþættinum mínum.
  • Í dag þegar ég renni fingrunum í gegnum hárið á þér, þegar þú ferð að sofa, þá ætla ég að þakka Guði fyrir þessa stórkostlegustu gjöf sem nokkur getur hlotið.
  • Í dag mun ég hugsa til allra þeirra foreldra sem standa yfir gröfum barna sinna, en ekki yfir rúmum þeirra, og allra þeirra foreldra sem eru á sjúkrastofnunum og horfa á börnin sín kveljast og þjást í hljóði vegna þess að þau geta ekkert gert, og biðja fyrir þeim.
 Og þegar ég kyssi þig góða nótt mun ég þakka Guði fyrir að hafa gefið mér þig, bið hann ekki um neitt nema einn dag í viðbót.

 

 

 


Halldóra segir að ég sé með fullorðinsaugu!

Í dag...

Bríetaraugu

Bríet: Mamma. Finnst þér ég vera með fullorðinsaugu?

Ég: Ha?

Bríet: Horfðu á mig- finnst þér það?

Ég: Hvað ertu að meina ástin mín?

Bríet: Halldóra Birta er alltaf að segja það við mig, að henni finnist ég vera með fullorðinsaugu. Þú sérð að ég er með barnaaugu.

Ég: Ha, já- en augun þín eru mjög stór. Ætli það sé ekki það sem hún er að meina?

Bríet: Örugglega


Flottur- flottari- flottastur!

FlotturÞessi strákur hér var kosinn fulltrúi 7. bekkjar í nemendaráð grunnskóla Reyðarfjarðar. Hlaut flest atkvæði í sínum bekk- enda töluvert flottur!

Afmæliskveðja til Himnaríkis

Pabbi og Nanna Jóns á góðri stundu í Til hamingju með daginn elsku pabbi minn. Mikið hefði ég nú frekað viljað bruna á Stöðvarfjörð í afmæliskaffi til þín í dag heldur en að skrifa þér opna afmæliskveðju til himnaríkis. En svona er þetta- þetta er áttundi afmælisdagurinn þinn þarna uppi, og að sama skapi í áttunda skipti sem ég sest niður og kasta á þig skriflegri kveðju...

Tíminn líður ótrúlega hratt eitthvað. Að það skuli virkilega vera átta ár síðan þó fórst, þá aðeins 61 árs. Finnst svo óréttlátt gagnvart Bríeti og Þór að þau þurfi bara að gera sér í hugarlund hvernig þú varst. Almar Blær ber þér vel söguna, þó svo hann hafi bara verið fjögurra ára þegar við misstum þig. Hann hefur alltaf verið svo gömul sál, mér finnst hann hafa verið miklu eldri. Man hann spáði eðlilega mikið í þetta allt saman, eftir slysið. Teiknaði fólk með brotið höfuð í hálft ár á eftir, það voru allir á sjúkrahúsi. Allir PLAYMO leikir gegnu út á það sama, það lágu allir meðvitundarlausir á sjúkrahúsi. Sérfræingar söguð ferlið eðlilegt, krakkar myndu vinna úr svona á sinn hátt...

Fór inn í kirkjugarð um síðustu helgi. Bríeti þykir þetta einstaklega merkilegt, að þú "sofir" þarna einhversstaðar undir grasinu og öllum blómunum. Þór hafi mestan áhuga á kirkjugarðshliðinu og hafði orð á því að það þyrfti að laga það, mætir líklega verð verkfæratöskuna næst- hefur líklega fengið það frá þér, humm...

Mamma, Jóna Hall, pabbi og Kjartan á hjónaballiVona að dagurinn þinn hafi verið ánægjulegur. Amma Jóhanna hefur líklega hrært í nokkrar pönnukökur ef ég þekki hana rétt og gefið þér rjóma með. 

Héðan biðja allir að heilsa, knúsaðu ömmu og alla hina frá okkur!

Krissa, Almar Blær, Bríet og Þór

 


Það var ýmist klukk eða stikk!

Það var ekki ósjaldan sem maður sagði "klukk" eða "stikk" í þá gömlu góðu. Var í útileikjum endalaust. Klukkaði þegar maður var'ann og smellti sér í stikk þegar hlaupastingurinn gerði vart við sig. Þó maður sé 30+ þá er maður ekki sloppinn, en ég var klukkuð í gær. Takk Adda mín, stend í varandi þakkarskuld við þig Wink...

 

Fjögur störf sem ég hef unnið við

Vinnustaðurinn minn- Alcoa FjarðaálNohh! Það er bara pass á fyrstu spurningu. Nánast. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég er nánast í minni fyrstu "fullorðins vinnu" núna hjá Alcoa Fjarðaáli. Það gekk nefnilega þannig til að ég skiptist á að vera vera í skóla og ganga með börn. Sniðugt ekki satt, klára það bara hvort tveggja og fara svo að vinna! Stúdent- Almar Blær, Kennaraháskóli Íslands- Bríet og Náms-og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands og Þór. Þori ekki fyrir mitt litla líf í frekarar mastersnám þar sem ég fagna alltaf svona rosalega!

UmferdarstofaEn jú jú. Næst síðasta vinnan mín var eins árs afleysingastaða fræðslufulltrúa á Umferðarstofu. Það var bæði mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Var á þeim tíma sem verið var að endurskoða fræðsluefni fyrir börn, þegar Innipúkinn var að fæðast! Á þessu tímabili var Umferðarstofa einnig að keyra í gegn fyrstu áróðursauglýsingarnar. Man að ég átti að mæta í myndatöku til þess að leika lík- munið ekki eftir þessu, Ragnheiður Gröndal söng Vísur Vatnsendarósu og það voru andlit á malbikinu. Þetta er í eina skiptið í seinni tíð sem mamma sagði- "nei, Kristborg Bóel- þú tekur ekki þátt í þessu". Ég hlýddi mömmu, enda þori ekki annað þegar hún kallar mig fullu nafni!

MýriÞar áður vann ég á leikskólanum Mýri í Skerjafirði í Reykjavík. Ohhh, það var æði! Mýri er 100 ára gamals bárujárnshús og það var leikskóli Almars Blæs alla hans leikskólagöngu. Leikskólinn er að hluta foreldrarekinn og eitt af verkefnum foreldrana á haustin er að koma saman í leikskólanum eitt kvöld og taka slátur- gersamlega frábært fyrirkomulag!

Þar áður var það bara þetta hefðbundna sem sveitastúlku sæmir. Til dæmis harðfrystihúsið á Stöðvarfirði. Er ótrúlega þakklát í dag að hafa prófað að vinna þar, fannst það reyndar aldrei leiðinlegt. Við Harpa mín stóðum saman á "línunni" og höfðum það gaman!

 

Fjórar bíómyndir sem ég held uppá

Æi. Hvurslags leiðindi eru þetta? Ég er ofboðslega lítil bíómyndakona! Uuuuu...

  • Babettes gæstebud- dásamleg dönsk mynd, algert gull!
  • Bangsímon- bara gull. Bangsímon er mesti heimsspekingur sem til er!
  • Englar alheimsins
  • Sex and the city: Bíð eftir henni á DVD. Á eftir að stúdera fötin aðeins betur!

Vinkvennahópurinn í NYBangsimon og co

Fjórir staðir sem ég hef búið á

  • Stöddinn Fædd og uppalin á Stöðvarfirði og bjó þar til 18 ára aldurs

 

  • Borgin mín Flutti þá til Reykjavíkur, þar sem ég bjó í ýmsum hverfum

 

  • Sólsetur við Reyðarfjörð Bjó í borginni þar til fyrir tæpum tveimur árum þegar ég flutti hingað á Reyðarfjörð

 

  • Framtíðarlandið Á semsagt ekki fjórða staðinn til en get alveg sagt frá því að ég ætla að búa á Ítalíu þegar ég verð stór

 

Fjórir sjóvarspsþættir sem mér líkar

  • Fréttir
  • Aðþrengdar eiginkonur (vó en hátíðlegt svona á móðurmálinu)
  • Sex and the city
  • Kompás

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  • Boston
  • Prag
  • Kaupmannahöfn
  • Portúgal

 

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

Er algert matargat. Vinkona mín (Marta Kristjánsdóttir, skammastu þín) kallar mig "svínið"- segir kannski eitthvað, henni finnst ég borða óeðlilega mikið og bókstaflega allt sem að kjafti kemur. Finnst bara allur matur góður þannig að þessi er mjög erfið!

  • Indverskur matur er í uppáhaldi
  • Verð að segja kæst skata, þó svo ég vildi ekki borða hana oft í mánuði þá bíð ég allt árið eftir Þorláksmessunni!
  • Jólarjúpurnar- best í heimi!
  • Hreindýrakjöt- Jói minn, áttu eitthvað?

 

Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:

Humm. Oft lesið. Það eru kannski ekki margar bækur sem ég hef oft lesið, nema jú barnabækur heimilisins- en þær kann ég flestar utanbókar. Þess utan kannski...

  • Meistari LaxnessSjálfstætt fólk-  eftir Halldór Laxness. Man alltaf þegar ég var að lesa hana í fyrsta skipti. Las hana fyrir svefninn og hló svo mikið að ég fékk bæði ristilkrampa og grét lítrum. Sigurjón sem ekki hafði verið talsmaður Laxness sá að hann yrði að brjóta odd af oflæti sínu og hefja lesturinn. Bókin er í tveimur bindum og ég sagði við hann að mér þætti fyrra bindið betra. Þegar hann var búinn að þræla sér í gengum hálfa fyrri bókina lagði hann hana á náttborðið og sagði; "Nei, fyrst að fyrra bindið var betra þá ætla ég að sleppa því síðara!" Já, svona er smekkur manna misjafn!
  • Birtingur- eftir Voltare. Frábær bók!
  • Jóhann IngiMeð lífið að láni- frábær bók eftir Inga Jóhann Gunnarsson vin minn. Er alltaf með hana á náttborðinu og glugga í valda kafla reglulega. Gott að pikka í sig annað slagið til þess að minnast þess að maður er jú bara með þetta líf að láni- sem líður allt of fljótt og því er betra að nýta það sem best og njóta!
  • Barnabókmenntir Astrid Lindgren og Ole Lund Kirkegord- ómótstæðilegir barnabókmenntahöfundar sem hafa skilað ótrúlega skemmtilegum og innihaldsríkum barnabókum fyrir börn- já og fullorðna. Allavega hef ég alltaf jafn gaman af lestrinum og krakkarnir. Vildi óska að ég gæti skrifað bækur eins og Astrid!

 

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

  • Hlín mín Hlín mín
  • Gunnar R. Jónsson Guðfræðineminn í guðdómlegu buxunum MÍNUM- Gunnar Ragnar
  • Bloggvinur - konukind Kristín Björg- samstarfskona mín frá Umferðarstofu
  • Bloggvinur - hannabbHanna Björk mágkona

...þið þarna fjögur. Ég bara óska ykkur til hamingju með þetta. Held að það sé reyndar ekki gert ráð fyrir doktorsritgerð við hverja spurningu, en þið vitið að þetta er "bara ég"- er ekki góð nema ég nái að skrifa 7000 orð á dag!


Haka og haus- það er ekki það sama!

Leikskólakennari: "Ææ, varstu að detta á hausinn þinn Þór?"

Þór: "Nei, é datt á höku mína"

Þór hökutoppur


Hjólað í pollum...

Var ég búin að viðurkenna ást mína á rigningu. Jú líklega. Kannski bara í annarri hverri færslu. Í dag er einn slíkur hér austantjalds. Eins og hellt væri úr fötu, en alveg logn. Ég hef greinilega smitað afkvæmin af rigningaránægju minni því þau skutluðu sér út að hjóla í pollunum klukkan hálf átta í morgun...

...verst að eiga ekki mynd af því en þar sem morgunin er ekki lognmollutími kaus ég frekar að koma mér í kjól og setja á mig maskara áður en ég en að laumast út með vélina, þó svo mig langaði það mun frekar!

Menn verða að hvíla sig fyrir átök dagsins!


Andoxunarefni og jólalög!

Mikið að gera í vinnunni. Þess vegna sit ég á þessu blauta og kalda mánudagskvöldi og vinn. Og vinn. Og vinn. Sit alein við kertaljós, krakkarnir löngu sofnaðir. Skrifa greinar um fallvarnir, humarsölu og barnsfæðingar. Hakka í mig andoxunarefni sem ég aflaði mér í Stöðfirskum brekkum um helgina. Kem líklega berjablá í vinnuna á morgun. Ekki segja neinum, en ég er með jólalög í spilaranum, ég var þannig stemmd í kvöld...

 


Tvær lausar og eitt hökuskarð!

Síðunni hefur borist mikilvæg tilkynning...

Berjablá og brátt tannlaus Bríet!Bríet er með tvær lausar tennur. Loksins- loksins að eigin mati! Eftirfarandi samtal átti sér stað í gær milli "brátt-tannlausu" og Helgu mágkonu minnar:

Bríet: Helga, ég er með tvær lausar tennur!

Helga: Nú! Hvar eru þær?

Bríet: Nú, í munninum á mér!

...já, þær eru mis-gáfulegar spurningarnar sem fara í loftið!  Já tönnslurnar tvær, sem mér finnst barnið ný "búið að taka" eru í neðrigóm. Í munninum...

Önnur stórfrétt verður að fá að fljóta með! Þrumuguðinn var saumaður saman í fyrsta skipti í gærkvöldi- en líklega þó ekki í það síðasta!

Við vorum á Breiðdalsvík hjá Jóa og Helgu. Þar sem sjóræingaleikur Þórs stóð sem hæst, sveiflaði hann sér milli stofusófa, flaug eins og sönnum sjóræingja sæmir og lenti á hökunni! Jakk. Það sá í kjöt. Læknir kallaður út frá Djúpavogi og móðir, dóttir og mágkona skröngluðust með blóðugan Þór á heilsugæsluna...

Útkoman var tvö spor í höku. Tveimur sporum of mikið að aðstandendakvenna mati! Þrumuguðinn lét að sjálfögðu í sér heyra en stóð sig þó eins og sannur sjóræningi! Orðið hökuskarð hefur öðlast nýja merkingu á Búðarmelnum. Heldur betur. Meðfylgjandi mynd sýnir hökuplástur sem kallað er "jólasveinaskegg" innanhúss!

Flottust á haustdegi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband