Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Kostningadagur

Átti hálf súra viku. Ætla því að sparka hressilega í rassinn á sjálfri mér og fara í fjallgöngu nú í morgunsárið í góðum félagsskap. Sat í gærkvöldi með vinkonu þar sem við ákváðum að leggja leið okkar á hina ýmsu tinda í sumar. Þannig að okkur er lítt að vanbúnaði að taka netta æfingu í dag...

Kostningadagur. Stemming í lofti. Nýtt upphaf.

Krissa fjallageit!

Á leið á Keili forðum daga. Í sumar munu fjöllin fá að finna fyrir því...


Misrétti!

Eftir annasamn vinnudag í gær, föstudag sótti ég afkvæmi mín sem ég hafði ekki séð síðastliðna vikuna. Við rétt fórum heim, pökkuðum okkur niður í sundtösku og héldum á Eskifjörð í laugina. Komum að vísu við og gripum Hafdísi vinkonu Bríetar með í buslið...

Þegar í sundlaugina var komið hlupu þau léttfættu að sjálfsögðu á undan mér að klefunum. Eins og gerist og gengur. Stelpurnar fóru beina leið í kvennaklefann en þegar ég kom þar að stóð Þór þar, horfði á skiltið og sagði;

Þór; "Er þetta strákaklefinn?"

Ég; "Nei, þetta er stelpuklefinn, komdu"

Þór; "Nei, vil vil fara í strákaklefann" (af augljósum ástæðum að sjálfsögðu!)

Ég; "Mamma má ekki fara í strákaklefann- og þú verður að koma með mér, ég þarf ennþá að hjálpa þér"

Þór; "Já en ég má ekki heldur fara í STELPUklefann!!!"

...já hvernig á maður að skilja þetta endalausa misrétti!

Þór


Loksins

Ég held að minn langþráði vinur hafi loks mætt á svæðið í dag. Vorið sjálft. Ji minn einasti eini hvað ég er orðin ÓGEÐSLEGA þreytt á þessum vetri og eeeeeeeeeendalausa snjó! Púff. Það er einhvervegin sérstök stemmning og lykt í loftinu þegar vorið tekur við keflinu af vetrinum. Dásemdin ein...

Bríetin mín besta


Kristborg Bóel frá Uppsölum hefur loks gefið sig fram á allan hátt...

Heimsins fráskildasta konan er augljóslega ekki heimsins duglegasti bloggarinn!

Undarleg páskahelgi að baki hjá mér. Ég var ekki með börnin mín og tók því þá ákvörðun- sem fólki fannst almennt undarleg- að fara og vera ALein í sumarbústað á Einarsstöðum. Fannst það vera eitthvað sem ég þurfti á þessum tímapunkti. Eftir viku sótthita og hálsbólgu, með öll börnin mín hjá mér var ég alveg búin með hvert einasta batterí!

Pakkaði niður tölvunni minni, vinkonum mínum frá New York, páskaeggi númer fimm, náttfötum og rauðvínsflösku og hélt í útlegð. Kom í skóginn á skírdag og kom ekki til baka fyrr en nú um hádegi. Dvölin var hin ánægjulegasta. Mesta hvíldin á amstri hversdagsins þykir mér fólgin í því að komast út úr þeirri rútínu sem fjögurra manna heimili fylgir. Að dagurinn klárist ekki með góðu nema 47 verk klárist, og það í hárréttri röð!

Félgasfríkin Kristborg Bóel Steindórsdóttir tróð sér því í gatslitna prjónapeysu Gísla á Uppsölum og hitti hvorki kóng, prins eða prest frá fimmtudegi til mánudags. Má vera að það sé saga til allavega þarnæsta bæjar en konan sú er þekkt fyrir að una sér best í góðra vina hópi. Eini maðurinn sem ég talaði við "feis tú feis" þennan tíma var maðurinn í Hraðbúðinni  þegar ég spurði hann hvort hann ætti tómata...

Ansi mörgum Sex and the city þáttum síðar, páskaeggi í maga númer fimm, páskamáltíð sem var AB-mjólk með púðursykri, fjölmörgum hugmyndum og æðisgengnum hugljómunum síðar er ég komin til byggða. Hvet alla til þess að vera einir um stund. En ég er búin að fá mig fullsadda af því í bili og er að verða allt of sein í páskakjúklinginn hjá Jóhönnu minni Seljan!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband