Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Uppljóstrun um skósýki í skólastofu fyrsta bekkings!
7.9.2008 | 21:01
Heimanám er hluti af lífi fyrsta bekkings. Ég gat ekki annað en brosað þegar ég las fyrsta stærðfræðiverkefnið þeirrar stuttu sem hún kom með heim á föstudaginn. Í Bríetartilfelli er það ekkert grín, en nánast þyrfti doktorspróf í stæðrfræði til þess að ráða við það! Verkefnið er svo hljóðandi:
Fáðu leyfi til þess að skoða skó heima hjá þér...
- Hvað finnur þú marga skó?
- Hvað eru það mörg pör?
- Hver á stærstu skóna?
- Númer hvað eru þeir?
Taldi lauslega- bara mín pör! Niðurstaða: 31
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Knús og kless
5.9.2008 | 08:05
Fer austur í dag, eftir að hafa verið í borginni að vinna alla vikuna. Gerði að vanda aðeins 1/13 af því sem var á "stússlistanum" mínum- þ.e.a.s. atriði sem ekki voru vinnutengd. Náði þó að hitta sex vinkonur og kaupa mér skó- en annað getur líka bara beðið, það fyrrgreinda er ætíð á forgangslista!
Er að fara inn í barnaviku. Þeinks god! Er farin að bíða eftir því að knúsa þetta litla lið í klessu, elda fyrir þau, læra heima með þeim, leika skurðgröfu eða úlf og taka rokk með Bríeti- ji minn hvað þetta verður allt næs!
Erum með stór áform fyrir helgina. Langar að heimsækja vini sem eru á leið í sveitina, fara í berjamó, kannski á hestbak og veiða. Hvernig sem það fer skiptir þó ekki máli- knús og kless er einnig á forgangslista!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hætta að drekka kaffi? Æi nei takk
4.9.2008 | 10:36
Fyrst að mamma er ekki að lesa þá ætla ég að koma með játningu. Reyndi ítrekað að byrja að reykja í 10. bekk í Alþýðuskólanum á Eiðum. Fékk námskeið ball eftir ball. Ekkert gekk. Þakka Guði fyrir í dag að það tókst ekki, en reykingar eru eitt það mesta "off" sem ég veit...
En að drekka kaffi, þar var ég námsfús. Ég og Harpa vinkona byrjuðum að drekka kaffi 14 ára þegar ég vorum að vinna í frystihúsinu á Stöðvarfirði. Byrjuðum að vinna klukkan 6 á morgnana-vorum alltaf að drepast úr kulda við ormahreinsun og pökkun hráefnisins og því var drykkurinn tilvalinn til þess að fá hita í kroppinn. Það var reyndar ekkert "byrjendakaffi" á boðstólnum þar því það var svo viðbjóðslega sterkt að nánast þurfti hníf og gaffal!
Síðan þá hef ég drukkið kaffi, svart og sykurlaust! Það eru ófáir bollarnir sem, ég hef drukkið með Hörpunni minni sem og öðrum vinkonum. Veit hreinlega ekkert betra en að ræða málin yfir því bleksterka og hugmynirnar sem hafa komið út úr umræðunum eru oft á tíðum magnaðar!
Lenti í skemmtilegum umræðum hér á Suðurlandsbrautinni rétt áðan...
Starfsmaður 1: Hvað á ég nú að gera. Ég hætti að drekka kaffi í fríinu, en á svona dögum vildi ég að ég væri ekki hættur því.
Starfsmaður 2: Af hverju hættir þú að drekka kaffi?
Starfsmaður 1: Æi bara. Fór meira að segja að trúa á galdra, fór til galdrakonu sem sagði að mér myndi líða mun betur ef ég hætti því. Ég finn það líka, mér líður miklu betur
Starfsmaður 2: Og var þetta ekkert mál. Engin fráhvörf?
Starfmaður 1: Á svona dögum jú, en það líður strax hjá. Þess vegna geng ég núna um gólf og snýst í hringi, af því ég veit ekki hvað ég á að gera í staðinn fyrir að fá mér kaffibolla! Kannski ég hætti bara líka að vera sköllóttur við þetta!
...tók ákvörðun. Ætla alls ekki að hætta að drekka kaffi. Þori því ekki. Kannski missi ég bara hárið! Ekki ætla ég að taka áhættuna á því!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bakaradrengur í morgunmat...
2.9.2008 | 09:17
Er í höfuðstaðnum. Margt nýtt að læra þessa dagana, sem er bara skemmtilegt. Mér finnst alltaf gaman í vinnunni. Lærimeistarinn minn er þó staddur á Suðurlandsbrautinni, Anna Heiða mín sem allt kann...
Var að hugsa það í morgun þegar ég var að gera mig klára út í daginn. Það er hálf undarlegt að þykja það ekki lengur undarlegt að vera á hóteli innanlands. Grand-hótel er að verða mitt annað heimili, svo oft er ég búin að gista þar síðasta árið. Alltaf jafn notalegt, að koma að brakandi hreinum og hvítum rúmfötum sem búið er að búa um þegar maður kemur aftur "heim" eftir vinnu...
Borða ekki morgunmat svona alla jafna. En það geri ég þó alltaf þegar ég er á Grand. Allt sem maður getur hugsað sér í morgunsárið er í boði. Í morgun gat ég ekki annað en brosað. Kannski er haustprógrammið bara dottið á, ég man greinilega ekki svona langt- en ég var oft á Grand síðasta haust...
Við hlaðborðið stóð "bakaradrengur" og bakaði vöfflur. Bara sísvona- beint ofan í svanga gesti. Vöfflur með sírópi fyrir klukkan átta- ég veit það ekki alveg! Allavega ekki oft í viku...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriggja ára þrumuguð
1.9.2008 | 00:04
Upp er runninn 1. september. Í þriðja sinn- ef tímatalið hófst eftir fæðingu þrumuguðsins Þórs. Hann á afmæli í dag, litli gullmolinn minn. Ég get ekki ákveðið mig hvort mér þykir stutt eða langt síðan sami mánaðardagur rann upp þegar ártalið sýndi 2005. Kannski langt af því mikið hefur gerst í lífi okkar allra á þessum tíma. Að sama skapi stutt af því ég man þetta allt eins og það hafi gerst í gær...
Ég er að spá í að bjóða ykkur í örstutt ferðalag- aftur til ársins 2005...
Þar sem ég gekk nú með mitt síðasta barn- samkvæmt öllum áætlanagerðum tók ég þá ákvörðun að fara í svokallaða "bumbu-myndatöku". Um er að ræða myndatöku hjá ljósmyndara sem fangar "ástandið" á filmu á faglegan hátt. Mér þykja óléttar konur fallegasti þjóðfélagshópurinn og þess utan líður mér aldrei betur en í þessa níu mánuði sem ég er með laumufarþega innvortis. Nema hvað. ég hringi og pantaði tökuna. Pantaði hana í tíma- líklega í júlí og í samráði við ljósmyndara ákváðum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur og vera tímalega- en þó að ég væri nánast kasólétt. Já, 1. september var fínn dagur fyrir myndatöku, enda snáðinn ekki væntanlegur í heiminn fyrr en 26. september. Flott plan...
Mér líður undursamlega meðan á meðgöngu stendur. Alltaf. Í þessa 27 mánuði sem ég hef gengið með börnin mín hefur mér ekki orðið óglatt einn einasta dag. Ekki fundið fyrir grindarveseni, þreytu eða öðrum kvillum. Því síður veit ég ekki hvað orðið fyrirvaraverkir merkir, en það veit ég hins vegar að ef ég fæ verk þá er ég að fara að eiga barn, og það fljótlega!
Þvert á móti, þá verð ég aldrei hressari en þegar verulega líður á mánuðina níu. Hættulega hress myndi barnsfaðir minn líklega segja. Hann kom oftar en ekki að mér upp á eða inn í eldhúsinnréttingunni á 39 viku- þá fann ég mig einstaklega knúna til þess að taka aðeins í gegn. Ég engist einnig af þörf til þess að baka og bjóða vinkonum mínum í kaffi og ræða heimsmálin en tvö slík voru einmitt fyrirhuguð þann 1. september...
Einhverntíman þegar á áttunda mánuð var komið hafði sú hugsun flogið í gegn um huga mér að gaman væri ef prinsinn myndi láta sjá sig 14. september því þá hefði pabbi átt afmæli. Henti hugsuninni hins vegar fljótlega út og skammaði sjálfa mig fyrir að óska mér fyrirbura til þess að ná í einhvern sérstakan afmælisdag...
Ég fór salíróleg að sofa aðfaranótt þess fyrsta. Búin að baka, græja og gera fyrir morgunkaffið. Hlakkaði til að hitta Elísabetu með Bergdísina sína sem aðeins var þriggja mánaða- já og Hlín eftir hádegið...
Í gegn um drauminn fann ég eitthvað. Hvað í andskotanum hugsaði ég með mér þegar ég vaknaði við herlegheitin. Það er tæpur mánuður í ásettan dag. Ég þekki sjálfa mig þó það vel og vissi vel að ég fæ ekki svona verki upp á grín- þeir merkja það eitt að ég verð komin með kraftaverkið í fangið innan þriggja tíma! Dem, dem, dem- BUMBUMYNDATAKAN!
...ég ákvað að vekja Sigurjón ekki strax. Rúmlega þrjú hringdi ég á Landspítalann:
Ég: Góðan daginn- já eða góða nótt frekar. Ég ákvað nú að hringja, en ég er með einhvern seiðing en er ekki nema á 36 viku
Móðir ljóssins: Eru þetta bara ekki einhverjir fyrirvaraverkir?
Ég: Veistu ég fæ aldrei svoleiðis
Móðir ljóssins: Humm. Gætir þú talað við manninn þinn í þessum verkjum?
Ég: Já já
Móðir ljóssins: Ertu búin að taka tímann? Hvað er langt á milli þessara verkja?
Ég: Svona tvær mínútur
Móðir ljóssins: Nú já. Viltu þá ekki koma og við kíkjum allavega á þig...
Ég vakti Sigurjón þegar klukkan var að nálgast fimm. Hringdum í barnapíuna en sögðum henni að við yrðum líklega komin aftur heim áður en langt um liði, kannski bara áður en krakkarnir færu af stað út í daginn...
Það er svo mögnuð upplifun að eignast barn. Því er ekki hægt ða lýsa fyrir þeim sem ekki hafa upplifað. Dagurinn var bjartur og fagur. Septembermorgun milli klukkan sex og sjö. Man alltaf þegar við keyrðum Miklubrautina og fram hjá manni sem var úti að skokka. Man ég hugsaði: "Bíddu, bíddu- er maðurinn úti að skokka! Bara sí svona og ég er að fara að eiga barn!" Manni finnst heimurinn snúast algerlega um sig og það væntanlega- að öðrum detti hversdagslegar athafnir í hug á slíkum degi eins og morgunskokk- hvað er nú það?
Sú sama og ég talaði við í símann tók á móti okkur. Gaf aftur í skyn að líklega væri um gabb hjá prinsi að ræða. Einhverntíman væru fyrirvaraverkir fyrstir! Skemmst er frá því að segja að hún hætti að tala um aprílgabb þegar hún mældi útvíkkunina- "Já, hún er átta! Við hættum klárlega ekki við úr þessu!"
Fæðingin gekk hratt og vel. Að vísu kom "slæmi kaflinn" hjá mér, en ég tak hann alltaf- svona rétt eins og strákarnir okkar. Kaflinn þegar ég íhuga frekar að kasta mér út um gluggann á Lansanum í stað þess að klára dæmið...
Ég: Ég er hætt við!
Móðir ljóssins: Svona góða mín. Þú vinnur bara á móti þér. Slakaðu á í rassinum og láttu lærin síga...
...guð minn, guð minn, guð minn almáttugur. Konan hefur augljóslega aldrei átt barn. Að koma höfði á barni út úr líkama sínum er líklega eins og ef það allra heilagasta væri skorið undan karlmönnum með bitlausum flökunarhníf! Myndu þeir á meðan brosa, slaka á í rassinum og láta lærin síííííííííííííga? Ja maður spyr sig...
En í heiminn kom hann. Rétt um klukkan átta. Svarthærður og agnarsmár. Aðeins tíu merkur og 50 cm. Þrumuguðinn Þór. Bjartur og fagur- rétt eins og dagurinn hans!
Auk þess að hringja í fjölskylduna og tilkynna um prinsinn sem þjófstartaði afboðum við myndatökuna og kaffiboðin. Hringdum svo í Eygló frænku og sögðum henni að við kæmumst því miður ekki í afmæliskaffi til hennar- hvort henni væri ekki sama þar sem hún hefði fengið óvænta afmælisgjöf...
Elsku karlinn okkar. Innilega til hamingju með daginn þinn. Megi góðar vættir fylgja þér hvert skref- og þú halda áfram að fegra líf okkar allra með þinn nærveru. Endalaus ást til þín...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)