Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hjóli, hjóli, hjól...

Hjólreiðar eru málið þessa dagana. Bríet vill helst ekki gera neitt annað. Enda afar klár í faginu- sleppti hjálpardekkjunum í fyrravor og hjólar eins og keppnismanneskja! Stefnir á að fjárfesta í línuskautum í komandi höfuðborgarferð mæðgna! Þór fer alltaf með í hjólatúrana en hann langar í mótorhjól og ekkert múður né klúður!

HjóladrottninginFlottust!Þríhjól er ekki málið fyrir Þrumuguðinn!...nei oj!

 


Ó borg mín borg...

ReykjavikSit á skrifstofu Alcoa Fjarðaáls í Reykjavík og horfi út. Mitt aðsetur er að sjálfsögðu alla jafna fyrir austan en fyrirtækið hefur einnig skrifstofuhúsnæði á Suðurlandsbrautinni. Þar kem ég stundum til þess að funda, taka viðtöl- eða eins og núna, á námskeið í gær og í dag. Er á fimmtu hæð með útsýni yfir laugardalinn. Það er orðið mun sumarlegra hér heldur en fyrir austan en þar ku víst vera vetraríki hið mesta! Jakkkkkk!

Er búin að vera sunnanlands síðan á mánudagskvöld en fer aftur austur í kvöld. Þó svo ég finni hve ljúft það er að ala börnin upp úti á landi þá þykir mér alltaf jafn gott að koma "heim" til Reykjavíkur. Skrapp í Árkvörina í gærkvöldi, en þá finnst mér ég fyrst vera komin heim- þegar ég keyri upp í Ártúnsholtið. Hvað tíminn líður ótrúlega hratt. Fór til Gunnu vinkonu og það sem Ásgeir og Hafdís Lilja hafa stækkað, ji minn einastsi. Eða þá litla skrípið "srænka" mín hún Eygló! Það ætti að banna þessum krílum að vaxa svona hratt þegar maður er svona langt í burtu!

Best verður þó að koma í krakkafaðm í kvöld. Afhenda Þór sláttuvélina sem er búin að vera á óskalistanum síðan síðasta sumar. Það hefði kannski frekar verið ástæða til þess að fjárfesta í snjóblásara!

 


Bara míð'ann...

Bríet: "Ái þarna! Hættu að lemja mig!"

Ég: "Þór, það má ekki lemja!"

Þór: "É ekki lemm'ann, ba-a míð'ann

Ég: "Já, það má ekki"

Þór: "Jú. Dundu dága míða deppu"

Ég: "Nei, nei, það má ekki. Hver segir það?"

Þór: "Leigólinn"

...uss uss uss!


Á sama tíma að ári..

"Eru það ekki bara göngskórnir oss onna?" spurði Hrafnhildur vinkona þegar hún hringdi kvöldið fyrir brottför

"Jú- deffenetlí!" svaraði ég. "Var einmitt að henda þeim í töskuna, ásamt öllu draslinu í tengslum við bókina"

...jú jú. Nú átti að halda í ferð. Og það enga smá. Ég og Hrafnhildur- elskuleg vinkona mín frá því í Kennó hér í denn var á leið austur á land með flugpósti. Ferð var heitið í bústað á Einarsstöðum um helgina...

Opinber ástæða: handritagerð í tengslum við væntanlega barnabók vinkvennanna

Aðalástæða: Aftöppun margra mánaða uppsafnaðs málæðis og uppbæting alvarlegs samveruskorts síðan ég flutti í sveitina!

Eftir hossuflug lenti borgardaman grá á lit á Egilssaðaflugvelli síðdegis á föstudag. Litarhaftið lagaðist þó skjótt og vel. Eftir viðkomu í Bónus og "mjólkurbúðinni" var brunað á næturstað. Dvölin var vægast sagt ein dásemd. Öll plön fóru í norður og niðurfallið. Glæsilegt. Gönguskórnir fengu kærkomna hvíld í töskunum og orð sem fest voru á blað eru líklega 50 talsins. Varla dugar það til þess að tækja jólabókaflóðið!

...þess í stað var helgin ca svona:

Töluð orð: 3500 á mínútu

Hlátursköst: Óteljandi

Kaffimagn: Heill pakki

Át: Óhóflegt

Gönguferðir: Núll

Bæjarferð: Ein. Tískumarkaðurinn kembdur þar sem vinkonur rétt svo stóðust klæðin rauð

Andleg endurnæring: Ómetanleg

Niðurstaða: Einarsstaðir að ári. Alltaf einu sinni á ári!

 

 

 


Staut í stað tannleysis...

Allar tennur alveg pikkfastarBríet er búin að bíða eftir því að missa tönn í mörg ár! Hún er aðeins fimm ára, en þykir þetta orðið frekar ömurlegt að sitja enn upp með allar barnatennurnar! Á dögunum uppgötvaði hún þó þetta, og var þó einhver sárabót;

Bríet: Þó ég missi ekki tennur þá kann ég allavega að lesa!

...jebb, jebb! Bríet uppgötvaði á dögunum alveg sjálf að hún getur lesið stutt orð. Dugleg stelpa með allar tennurnar pikkfastar!


Óskar í nánd...

Almar Blær í hlutverki FlosaJá- ég hef alið af mér snilling. Almar Blær fór með aðalhlutverk í leikriti sjötta bekkjar á árshátíð grunnskólans í síðustu viku. Ég hef tekið við fjölda hrósa fyrir barnsins hönd í vikunni! 

Settu nemendur upp leikrit byggt á bókinni Fólkið í blokkinni. Hann lék Flosa húsvörð sem sá um að halda íbúum góðum og græja málin hér og þar...

...hlutverkið hans var mjög stórt, mikill texti til þess að muna. Við samlásum nokkrum sinnum yfir hérna heima og ég sá að hann var mjög öruggur og pollrólegur. Hálftíma áður en hann átti að mæta á hátíðina spurði ég...

Ég: "Ertu stressaður?"

Almar Blær: "Nei, alls ekki. Ég er bara stressaður yfir því að vera ekki stressaður"

Almar Blær- já og bekkurinn í heild sinni stóð sig stórkostlega. Hann fór með allan textann villulaust og túlkaði hann afar vel. Hann hefur alltaf stefnt á leiklistarskólann eftir stúdentspróf, þrátt fyrir ungan aldur og gerir það enn...

...hann er greinilega með "þetta í sér" en ég vil meina að framkomuuppeldi Ártúnsskóla hafi skilað sínu en hann var þar upp í fimmta bekk. Þar er mikil áhersla lögð á að að krakkarnir komi reglulega fram. Það tel ég ómetanlega reynslu og eitthvað sem þjálfa ber frá fyrsta degi skólagöngu. Að mínu mati er það ekki síður mikilvægt en að læra stærðfræði og íslensku...

...vel getur verið að ég skelli videoinu af leikritinu inn á síðuna fljótlega, en þangað til verða ljósmynd af Flosa nægja. Einnig ætla ég að gerast svo kræf að birta hér texta af heimsíðu "Dodda" (en hann er á kontaktlistanum mínum) en þar að finna umfjöllun um sömu hátíð þar sem hann hrósar snáðanum mínum. Ég sagði við Almar Blæ að þarna væri fyrsta gangrýnin komin í hús!

Umfjöllun af síðu Dodda

Árshátíð Grunnskóla Reyðarfjarða

5011d3dbd0f311aÍ gærkvöldi skellti ég mér á árshátíð Grunnskóla Reyðarfjarðar. Þetta er árleg skemmtun grunnskólans þar sem nemendur í 1-7 bekk koma fram og skemmta áhorfendum. Og ég held að ég ljúgi ekki þegar ég segi að þetta sé alltaf einhver best sótta skemmtun hérna í bænum, enda mjög skemmtileg. Og það var sko enginn undantekning í gær. Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur og gat ég ekki betur heyrt e að allir þeir sem mættu hafi skemmt sér hið besta.

Það er ákaflega gaman að horfa á krakkana leika, enda eru þau búin að leggja á sig mikla vinnu fyrir þetta, semja og æfa alla vikuna. Það sést líka einkar vel hversu gaman þau hafa af þessu, leikgleðin skín úr hverju andlit. Ekki er nú mjög mörg ár síðan maður stóð í þessum sömu sporum sjálfur, og alltaf var þetta jafn skemmtilegt.

Fannst sérstaklega gaman að sjá leikritið sem 6. bekkur setti upp í gær. Það hét "Fólkið í blokkinni" og fjallaði um íbúa í blokk einni, sem voru jafn ólíkir og þeir voru margir. Það lenti svo á húsverðinum að taka við öllum þeim kvörtunum sem bárust og halda öllum góðum. Mér fannst þetta leikrit alveg hreint yndislegt, mikill húmor en samt góður boðskapur. Ekki skemmdi fyrir að það var mjög vel leikið og greinilegt að þarna voru efnilegir leikarar á ferð. Tók ég sérstaklega eftir tveimur Almar Blær, sem lék húsvörðinn og Magnús Magnússon sem lék gamlan mann að nafni Bolli. Þessir tveir voru alveg frábærir í sínum hlutverkum, skiluðu sínu mjög vel, voru skýrmæltir og manni leið eins og þeir hafi bara verið á svið í mörg mörg ár.

En takk krakkar í grunnskólanum fyrir mjög góða skemmtun...

http://doddinn.blog.is/blog/doddinn/


Mál að halda áfram...

Jæja, það er líklega kominn tími til þess að sýna lífsmark hér! Enda fer það að verða möguleiki, árshátíðarnar báðar að baki og smuga að fara að hugsa um eitthvað annað! Sú seinni var haldin með glæsibrag í gærkvöldi- og lukkaðist hún með miklum ágætum...

Get þá einnig farið að sinna "vinnunni" minni, það er mínu starfi í Upplýsinga- og samfélagsteymi Alcoa Fjarðaáls. Við í nefndinni lögðum okkar störf 95% til hliðar síðustu tvær vikur. Því meira sem við gerum og græjuðum fyrir djammið, því meira bættist við fannst okkur! En- það var algerlega þess virði. Set inn myndir þegar þær berast mér- kannski koma þær bara á undan í Séð & Heyrt en það var "paparatsí" frá þeim að snattast þarna í allt gærkvöld...

Hei- ég held að vorið sé komið, svei mér þá! Ef það fer að snjóa aftur þá panta mér pláss á heilsubælinu!

Merkilegt. Gerist alltaf það sama hjá mér á hverju vori, alltaf fyrstu daga vors! Þá hellist yfir mig einhver mögnuð ofvirknibylgja! Svo öflug að hún jafnast NÁNAST á við þá sem ég fer í síðustu þrjá mánuði meðgöngu! Það er svakalegt. Þá er ég með orku á við Kárahnjúkavirkjun- finn ægilega þörf fyrir að skúra allt og skrúbba, fara út að skokka, taka fiskibollur, kleinur og skinkuhorn! Held að ég hafi samtals lagt mig þrisvar sinnum á mínum þremur meðgöngum, herre gud!

En, vorkastið er álíka. Þá langar mig alltaf brjálæðislega til þess að þrífa allt, skipuleggja, komast í betra form en nokkru sinni, skokka, ganga á fjöll og láta yfirleitt verstu látum. Finn að kastið er á leiðinni. Hvernig væri að tappa vororkunni á flöskur og sturta í sig í skammdeginu! Ekki að ég finni fyrir skammdegis-súrheitum, alls ekki- en hitt er bara svo magnað. Veturinn er óneitanlega búinn að vera langur, en jafnframt afar viðburðarríkur og kósí!

 


Mótorhjól óskast...

Þór segir oft á dag: "Má é motohjól"

Þór getur ekki beðið eftir því að eignast mótorhjól! Bara alls ekki. Ég lofaði hálfpartinn upp í ermina á mér um daginn. Fórum í heimsókn til Jónatans Emils "stóra frænda" (hann er ári eldri en Þór) og hann er sko mótorhjólaeigandi! Jebb, jebb, ekkert rugl! Sagði þegar ég sleit Þór bláan af orgum af hjólinu þegar komið var að heimferð að hann fengi slíkt þegar sumarið kæmi...

Hjólið hans frænda er auðvitað sniðið að hans stærð og Þór var einnig hinn vígalegasti á því. Með ljósum og óhljóðum og keyrði sjálft- með því fylgdi hleðslugeymir!

Við semsagt þurfum að eignast slíkan grip fyrir sumarið. Appsalút! Þá getur þrumuguðinn geyst um á mótorfák, með reiðhjólahjálminn sinn og skíðagleraugun...

Væri afar, afar þakklát ef einhver gæti bent mér á hvar í dauðanum ég kemst yfir slíkt tryllitæki!


Kúkasögur...

Þrumuguðinn í stuði...Titilinn er kannski ekki við hæfi á annars fallegu þriðjudagskvöldi. En þannig er mál með vexti að Þór svarar þessu til þegar hann er spurður hvenær hann hafi hugsað sér að leggja bleyjunni og fara að gera þarfir sínar í klósett: "Adrei!"

Neibb, það er nefnilega það, hann ætlar aldrei að hætta með bleyju. Orðinn tveggja og hálfsárs og harðneitar klósettheimsóknum með öllu!

Í dag, að leikskóla loknum var sá stutti að leika sér. Ég kom að honum þar sem hann var að brasa með borvélina, brjálað að gera við að laga hlaupahjólið hennar Bríetar. Var líklega allt í henglum, slíkar voru aðfarirnar í viðgerðunum...

Ég: Úff, hvaða kúkalykt er hérna

Þór: É ekki gúga!

Ég: Nú, nú, það var einkennilegt! Hvaða kúkalykt er þá hérna?

Þór: Sett ekki gúgalitt, sett er pitsulitt!

...jú jú, pitsulykt var það heillin! Frekar slakur lygari drengurinn...

Marta vinkona Bríetar var í heimsókn í dag og gengu þær stöllur inn í mykjuhauginn þegar ég var að skipta á pitsasnúðnum! Marta á bróður sem er nánast alveg jafn gamall og Þór...

Marta: Kúkar Þór enn á sig

Ég: Iss, já-ennþá. Hann fer nú vonandi bráðum að hætta því! Er Sebastían (Mörtu bróðir) hættur með bleyju

Marta: Já, hann er farinn að kúka í klósettið

Ég: Ókei, rosa duglegur

Marta:

Ég: Er langt síðan hann hætti með bleyjuna? 

Marta: Ja há! Það eru mörg ár síðan!

...já, þau eru svo ferlega bráðþroska þarna í innbænum!

 


"Þú ert nú að verða svolítið þybbin, en það er bara huggulegt"

Eins og kom fram í gær er ég alveg að verða snar á þessu vetrarríki. Fari það í norður og niðurfallið. Núna! Held ég hafi aldrei séð vorið í þvílíkum ljóma. Úff! Ætla í tilefni verðandi vorkomu að smella inn fyrstu greininni eftir mig sem kom fyrir almenningssjónir. Hana skrifaði ég fyrir fimm árum og birtist hún sem "Síðasta orðið" í Nýju lífi. Fyrir fimm árum var Almar Blær sjö ára, Bríet hálfs árs og Þór aðeins hugmynd!

__________________________

Eitt einlægasta en jafnframt vafasamasta hrós sem ég hef fengið um dagana var þegar sjö ára sonur minn var þriggja ára. Hann horfði á mig aðdáunaraugum og sagði: "Mamma, hvenær missi ég hvítu barnatennurnar mínar og fæ svona gular og flottar fullorðinstennur eins og þú?" Mér hálf brá því að ég hef alltaf verið talin með nokkurð hvítar tennur og svaraði hálf hvumsa. "Þegar þú ferð í skóla elskan." Þessi sami sonur minn er annars dugleur að hrósa mömmu sinni og sagði um daginn- um leið og hann faðmaði mig. "Mamma, þú ert nú að verða svolítið þybbin- en það er bara huggulegt." Þetta myndi engum öðrum detta í hug að segja, enda gæti það talist særandi. En það er annars notalegt til þess að hugsa að til séu manneskjur sem hugsa ekki einungis um aukakílóin og hvað þurfi að bursta tennurnar lengi upp úr matarsóda til þess að fá þær hvítglærar að lit. Hugsanir af þessu tagi er hins vegar búið að stimpla óþyrmilega inn í kollinn á konum á þrítugsaldri eins og mér. Þess til sönnunar er ég farin að telja mér trú um að sex mánaða gömul dóttir mín sé ekki næg afsökun fyrir því að ég skuli ekki vera þvengmjó og í toppformi!

Fegurðasamkeppnir hafa verið vinsælt sjónvarpsefni upp á síðkastið eins og einatt á vorin. Það er nánast sama á hvaða stöð er stillt, alls staðar spóka sig sig glæsilegar, langleggjaðar og sólbrúnar stúlkur á sviði. Þrátt fyrir að ég sé alls ekki talsmaður keppna af þessu tagi þá sat ég fyrir skömmu sem fastast yfir dýrðinni. Á fyrri keppnina horfði ég frá upphafi til enda og spændi í mig páskaeggið mitt í leiðinni- þar sem mitt persónulega átak átti alls ekki að hefjast fyrr en eftir páska! Á þá seinni horfði ég með öðru auganu þar sem dóttir mín ákvað að við skyldum mun frekar ganga um gólf en sitja aðgerðalausar yfir sjónvarpinu! Hún er strangur einkaþjálfari og sér alfarið um að þjálfa upphaldleggsvöðva mína!

Nokkrum kvöldum síðar var á dagskránni þáttur sem kallaður var "á bak við tjöldin" þar sem farið var baksviðs á meðan fegurðarsamkeppninni stóð. Spyrillinn spjallaði við keppendur á milli þess sem þeir skiptu um dress og límdu brjóstin á rétta staði með teppalímbandi! "Og hvað þarf maður svo að æfa lengi til þess að ná svona glæsilegum árangri eins og þið hafið náð?" varð spyrlinum að orði. "Við erum búnar að vera geðveikt duglegar að æfa í þrjá mánuði", svaraði ein að bragði, lagaði á sér hárið og þaut á svið...

Keppnir af þessu tagi eru ekki beinlínis upplífgandi fyrir nýbakaðar mæður eins og mig! Með lafandi maga, hárlos í sögulegu hámarki, ælu og slef á öxlunum og ganga í gjafabrjóstahaldara alla daga. Það var ekki laust við að ég upplifði mig "örlítið lummó" þar sem ég sat í sófanum en hresstist þó til allra muna við að heyra þetta um þriggja mánaða árangurinn hjá stúlkunum. Ja- það væri þá aldrei að ég yrði bara komin í þursuform fyrir sumarið og muni þar af leiðandi ekki að líta út eins og grásleppa í sundlaugunum. Mér var ekki til setunnar boðið lengur! Dreif mig af stað, kannaði líkamsræktarmarkaðinn og endaði á því að fjárfesta í korti í World Class í spönginni...

Ekki stóð á mér í þetta skiptið! Mætti galvösk í fyrsta tímann. Var búin að panta mér tíma hjá leiðbeinanda sem lofaðist til þess að búa til prógramm, nákvæmlega sniðið af mínum þörfum. Ekki var ég fyrr búin að stilla fyrsta tækið þegar föngulegur flokkur ungra kvenna skokkaði inn á svæðið. Þarna voru þátttakendur í Fegurðarsamkeppni Íslands mættir í öllu sínu veldi. Mér var allri lokið. Hafi samanburðurinn ógnað mér þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið gerði hann það ekki síður undir þessum kringumstæðum. Þarna stóð ég í fimm ára gömlum íþróttaskóm, þvældum bol merktum Baðhúsinu (sem nota bene bar vott um fyrri reynslu) og hreint ekki með hring í naflananum eða "sixpakk"! Í stað þess að bugast sneri ég upp á mig og hugsaði: "Iss svona verð ég semsamt eftir þrjá mánuði, sannaði til."

Nú er ég að verða búin að stunda ræktina af kappi í mánuð en sé svo sem ekki umtalsverðar breytingar. Enn er að vísu ekki liðinn sá tími sem uppgefin var til þess að ná hámarksárangri. En sumarið er komið og ég efast stórlega um að ég fari að reima á mig Nike skóna mína fögru og drífa mig í ræktina seinnipart dags þegar hægt er að sitja úti á palli og drekka kaffi latte og lakka á sér táneglurnar. Æi, já- á ég ekki bara að taka á þessu öllu saman í haust? Er ekki meira virði að eyða tímanum í að veltast úti á flöt í skordýraleit með syninum eða kynna fyrstu sóleyjarnar fyrir dóttlunni en að hlaupa á bretti þar til maður verður ringlaður!

Svei mér þá! Ég ætla bara að vera kærulaus og hætta að hugsa um aukakílóin og gömlu gallabuxurnar inn í skáp sem pössuðu einu sinni svo vel. Ég las hvort sem er í blaði nýlega að skyldudress sumarsins væru mínípils. Það vill líka svo vel til að það kemur sumar eftir þetta sumar og þá getur bara meira en verið að ég verði búin að vera í ræktinni allan veturinn!

Þangað til verð ég bara svolítið þybbin. Það er svo huggulegt!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband