Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Hátíðisdagur í Tungukoti

 

Bríet

Í dag er annar dagur desembermánaðar. Aðventan gengin í garð. Eftirlætis árstíminn minn. Ég fyllist alltaf taumlausri ást, rómantík og þörf fyrir nánd við fólkið mitt á þessum árstíma – enn meira en vanalega og er þó nóg samt. Að sama skapi er þetta sá tími sem ég sakna þeirra ástvina sem ég hef ekki tækifæri til þess að vera nálægt alveg óskaplega…

Bríetin mín á afmæli í dag, átta ára skoffín. Átta ár eru síðan hún kom í heiminn, nánast á rauðu ljósi. Hún gaf sér aðeins tæpa tvo tíma í til verksins, frá upphafi til enda. Hún hefur frá fyrstu tíð gengið rösklega til verks og, kvenskörungur mikill og ber nafnið sitt vel. Þarna var hún komin, jólastelpan okkar. Agnarsmá, undurfögur, dökkhærð og með grísnef –að sögn stóra bróður hennar…

Afmæli eru í hugum barna merkilegasta stund ársins. Mikil spenna er því á bænum og Bríetin mín veit alveg hvernig hún vill hafa þetta. Í kvöld eigum við að panta pizzu og hafa huggó. Á sunnudaginn bjóðum við fólkinu okkar í veislu. Þar mun meðal annars verða framreidd jólasveinakaka að ósk afmælisbarnsins. Ég er enn að hugsa hvernig best sé að haga hönnun hennar. Held þó að gestgjafinn sé með það allt á hreinu og svei mér þá ef hún gæti ekki bara klárað sig frá því, enda hefur verið liðtækur smákökuaðstoðarbakari síðustu daga…

Elsku flottasti og besti töffarinn okkar, innilega til hamingju með daginn þinn. Megi níunda aldursárið vera þér farsælt og gott.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband