Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Þorraþrællinn hann Þór

Þrumuguðinn minn sér mér og öðrum heimilismeðlimum algerlega fyrir þorralögum þessa dagana. Syngur og syngur og syngur. Hvert versið á fætur öðru. Hástöfum...

Annars skellti frökenin sér að sjálfsögðu á þorrablót Reyðfirðinga um helgina. Dansaði frá mér allt vit, frammistaða mín á dansgólfinu jafnaðist líklega á við einn tíma í ræktinni hjá Kristínu- sem eru BARA killer!


Bleikar tvíbökur

Í dag rigndi eldi og brennisteini. Allavega rigndi mikið. ROSAmikið. Bríet fór af því tilefni í pollagalla í skólann. Móðir og Þórs-barn sóttu hana síðdegis. Fengu Hafdísi vinkonu í kaupbæti, sem okkur finnst alltaf voðalega notalegt. Þær stöllur gegnu á móti okkur eins og gaurarnir í Dressman auglýsingunum, í skærbleikri "sjetteríngu", alveg eins pollagöllum...

Þór: Koma þær- tvíbökurnar. Neih, ég meina- tvíburasysturnar!


Alveg dragúldin...

Móðir greiddi dóttur. Nei. Byrjum aftur. Móðir gerði heiðarlega tilraun til þess að greiða í gegnum tröllslega úfið hár dóttur:

Bríet: "Ái! Áááái mamma"

Móðir; "Við verðum að greiða í gegnum þennan flóka. Þú ert alveg eins og Argentæta"

Bríet: "Áááááiiii!!!"

...Þór hefur haldið sig til hlés, staðið hjá og horft á...

Þór: "Bríet. Þá verður þú bara að vera úldin um hárið"

...úfin, úldin. Kemur kannski út á það sama?


Stærðin skiptir ekki máli! Eða hvað?

Allir kúldrast á náttfötunum hér í Tungu rétt í þessu. Eins og svo oft nú um jólin. Ég ákvað þó að klæða mig í fyrra fallinu, svona ef einhverjir afmælisgestir velta inn úr dyrunum hjá mér í dag...

Bríet og Þór eru að horfa á barnaefnið í stofunni. Þar er myndband milli teiknimynda. Með gaurunum úr Botnleðju, þar sem þeir syngja frumsamið barnalag. Heita Heiðar og Halli að ég held...

Þór ærist úr hlátri. Stekkur að sjónvarpinu og bendir....

Þór; "Hann er með skegg, þessi- samt er hann ekki kall!"

Bríet; "Víst er hann kall Þór."

Þór; "Nei, ég er ekki að meina þessi," (segir hann og bendir á Heiðar) "Ég er að meina ÞESSI," segir hann og bendir á Halla. "Hann er EKKI kall Bríet!"

Bríet; "Þór. Hann er víst kall. Hann er bara smá lágvaxinn!"

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband