Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Bíddu...geta flugfreyjur ekki allt!

Bríet er alveg ótrúleg. Er búin að fljúga fram og til baka frá Egilsstöðum til Reykjavíkur um helgina. Ég- súperklúðrarinn sjálfur tókst í þreytu og þynnku í dag að læsa bíllyklana inni í bíl. Hvernig í dauðanum sem ég fór nú að því þar sem bílnum verður að samlæsa utanfrá. En allavega, það borgar sig að hafa hæfileika sem aðrir hafa ekki...

Verkefnið beið Sigurjóns þegar hann kom heim með krakkaskarann síðdegis;

Bríet: Hvar varstu pabbi

Sigurjón: Ég var að opna bílinn

Bríet: Hver gerði það?

Sigurjón: Ég byrjaði á því að hringja í lögguna og hún vísaði mér á mann sem opnar læsta bíla

Bríet: Bíddu...af hverju geta flugfreyjur það ekki!


Úti er alltaf að snjóa...en nú er nóg komið!

Vá hvað ég er orðin leið á þessum vetri. Hvað er málið með þennan eeeeeeeeeeeeeeendalausa snjó. Nú legg ég til að honum verði skutlað upp í Oddskarð þar sem hann má vel vera fyrir mér en hér niður í mannabyggðum finnst mér hann algerlega óþarfur! Langar að fara að spranga um á öllum sumarskónum mínum og leggja bombsunum!

Annars var fyrri árshátíðin haldin hátíðleg í gærkvödli. Allt tókst mjög vel en auðvitað verður fundað á morgun, farið yfir þá litlu hnökra sem voru og þeir lagaðir fyrir næstu helgi, þannig að þetta var nánast risavaxin generalprufa í gær...

Höfuðborgarfararnir voru að detta í hús eftir helgarferðina. Allir sælir og glaðir, Almar Blær hitti vini sína og allir heimsótu frændfólk stórt sem smátt! Set inn myndir af ferðinni um leið og þær verða losaðar af vélinni...

 


Spenna... oll óver!

Já spennan magnast. Faðir og börn munu halda í höfuðstaðinn á föstudaginn og dvelja alla helgina. Ég verð ein í kotinu og kemst ekki með vegna árshátíða-anna!

Bríet ætlar að pakka öllu sem ekki er naglfast úr innbúinu niður í splunkunýju bleiku ferðatöskuna sína og fara með. Hún er frekar spennt yfir þessu öllu saman, enda ansi langt síðan hún hefur hitt vini sína í holtinu...

Ég er líka að verða ógeðslega spennt fyrir helginni. Stúdíóupptökur og generalprufur eru að verða daglegt brauð. Fer alveg að útskrifast sem stjarna!


Upprisa

Ég er upprisin! Úr veikindunum. Hef ekki lent í öðru eins á mínum fullorðinsárum, svei mér. Lyfti ekki höfði frá kodda í rúma fimm daga. Ekki nema rétt til þess að koma mér á klósettið, taka verkjalyf og penesilín og borða! Já, það gat ég. Borðaði sem aldrei fyrr, alla veikindadagana- enda fór púlsinn ekki undir 115 slög á mínútu þannig að ég var í betri brennslu heldur en í meðal eróbikktíma...

Fannst tíminn samt hálf afstæður. Upplifði í morgun þegar ég var að keyra í vinnuna sem að ég væri búin að vera í burtu í hálft ár. Ekki nóg með það, heldur voru allir breyttir þegar ég mætti á svæðið! Þeir sem vanalega voru með slétt hár voru nú komnir með krullur, þeir sem alltaf voru með skegg voru skegglausir og þeir sem voru skegglausir áður voru nú fúlskeggaðir!

En ji minn einasti hvað var gott og gaman að komast aftur í vinnuna- og það bara ***hviss, bamm, búmm*** bara beint í suðupott árshátíðaundirbúnings. Held enn forkonutitlinum þrátt fyrir allt!

Mæðginpínulítill þrumuguð og mamma með sítt hár!Fann þessar í myndasafninu áðan. Svo langt síðan en samt ekki. Tvö og hálft ár. Æi, þarna var þrumuguðinn agnarsmár! Og ég með sítt hár. Ja há. Ohhh, langar í það aftur. Núna- strax! Alltaf þegar ég er með stutt hár langar mig í sítt en þegar ég er búin að berjast við að safna þá dettur mér í hug að klippa á mig hanakamb! 

Alltaf þegar fer að vora, þá dettur mér í hug að gera eitthvað fönkí. En hvað nú? Hvernig myndi vorlínan verða?  Hlín, eða einhver- eru hugmyndir? Er búin að taka hamakambinn tvö sumur í röð- ekki get ég sagt sama brandarann þrisvar, er það...

 

 


Mamma "gava"

Grafa? Eða kannski Krissa?Oft á tíðum líður mér eins og Barbamömmu! Þarf iðulega að bregða mér í allra kvikinda líki. Í dag- sem svo oft áður var ég grafa! Já já...

Þór: Vera gava* mín mamma (orðskýring neðst*)

Ég: Já, allt í lagi- á ég að sitja í sófanum?

Þór:

...grafan kom sér fyrir í sófanum! Þór brasaði og brasaði. Gerði varla annað en að losa og festa beltið til skiptis því bilanatíðni græjunnar var óvenju há! Uss, uss! Gröfukarlinn var þó óvenju töff, með sólgleraugu og allan pakkann! Grafan gleymdi sér um stund og kyssti kröfukarlinn á bakið þar sem hann var eitthvað að brasa í mælaborðinu...

Þór: Hættu!

Ég: Já, fyrirgefðu

...gröfukarlinn hélt áfram að brasa og baksa. Boraði þessi ósköp og skipti um dekk. Allt í fári. Kom að lokum aftur í gröfuna. Enn og aftur missti grafan taktinn, steingleymdi sér og kyssti gröfukarlinn á bakið. Aftur og nýbúin! Ófyrirgefanlegt, greinilega...

Þór: Hættu sessu! Gövan ekki gissa gövugallinn!

Orðskýring: Þegar ég er grafan hans Þórs þá sit ég í stofusófanum með bognar fætur. Hann situr ofan á mér og stýrir gröfunni. Þór er "gröfukarlinn". Grafan er oftar en ekki biluð og mestur tími gröfukarlsins fer í að bora í hana, saga eða smíða eða brasa eitthvað sem við á í hvert skipti!

 


Hæ litli!

Var það ekki kveðjan sem hljómaði oftar en ekki í Heilsubælinu á sínum tíma. Það held ég bara. Mánagötu-efri hæð er ekki hægt að kalla neitt annað en Heilsu(leysis)bæli þessa dagana. Svei attan. Unglingur hefur bæst í hóp annars afar tuskulegra sjúklinga, en það gerði hann síðdegis í gær. Ég er þó verst haldin- enda bráðum löggilt gamalmenni og tekur gamla fólkið þetta ekki verst af öllum?!

Semsagt. Ég var farin að gera mér sterkar vonir að smella mér í vinnuna á morgun og auk þess var ég búin að panta far fyrir börn og buru í borg óttans á föstudaginn. Já, helgarferð "á heimaslóðir" skyldi það vera! En nei!

Gafst upp fyrir eigin þrjósku í dag og gekk á læknisfund síðdegis þegar ég áttaði mig á því að ég veigraði mér við því að hósta. Jú var það ekki. Slæmt inflúensutilfelli, kinnholusýking auk lungnabólgu! Fari það í norður og niðurfallið! Læknir sagði kerlu að senda ættingja fyrir sig í apótek til þess að leysa út dóp á dóp ofan en sjálf ætti hún að liggja hreyfingarlaus undir sæng og láta á það reyna að koma fram úr á mánudaginn! Arrrg!

...þannig að, engin suðurferð með tilheyrandi stuði og heimsóknum. Ef þið fréttið af því að á árshátíð Alcoa Fjarðaáls hafi aðeins verið borið fram þurrt kornflex og gestum úthlutað krossgátublaði þá vitið þið af hverju. Forkvinnan var lítt starfhæf og eyddi öllum sínum tíma á undirbúningstímabilinu undir þremur sængum og sautján flísteppum!

______________________

Alla síðustu helgi var aukabarn á heimilinu. Kippti mer svosem ekkert upp við það þar sem vinir barnanna koma oft í heimsókn og finnst mér varla muna um eitt til eða frá...

En aukabarn það dúkkaði upp á föstudagsseinnipart og er hér enn. Verð nú að segja að ég er orðin pínu þreytt á því. Barnið kemur frá Reykjavík og er ofdekrað með eindæmum! Vill bara pylsur og kókópuffs. Það þarf að halda á því daginn út og inn. Auk þess er það svo feimið að aðeins Bríet getur talað það til...

Barnið vill ekki fyrir nokkra muni taka þátt í daglegu lífi, svo sem því að fara á leikskóla. Nei, frekar hangir það í bílnum daglangt og bíður eftir að dagurinn líði og vinkonan komi heim. Hann heitir Árni og er þriggja ára. Árni er ósýnilegui vinur hennar Bríetar!

Bríet, Þór og vinurinn Árni úti í snjónumBríet og Árni skelltu í lummur!Árni er þvílíkur bakaradrengur!Takið sérstaklega eftir kakóskegginu á Árna!


Ætli Jesú hafi bara ekki verið húðlitaður!

Hef varla áttað mig á því hvort ég er lífs eða liðin síðustu tvo sólarhringa- hvort ég er hér, eða kannski bara þar! Ástæðan er skæð inflúensa að doktors-sögn! Ja, öllu má nú ofgera segi ég nú bara!

Hófst á sunnudag með veikindum Þórs þrumuguðs. Varð hann allur hinn snúnasti og funheitur þess utan og í kjölfarið fylgdi stóra systir. Móðir gat ekki látið sitt eftir liggja og lagðist flöt á sunnudagskvöldið!

Ég man aðeins einu sinni áður eftir því að hafa orðið svona "drullu" veik á mínum fullorðinsárum og var það fyrir nokkrum árum. Veikin lýsir sér nokkurnvegin svona...

  • Hitastig- hangir sífellt í 38,5
  • Háls; alsettur rakvélablöðum
  • Útlimir; alsettir bein og vöðvaverkjum
  • Höfuð; klofið, ef það er þá enn á!
  • Hvíldarpúls; 110-120!
  • Endalaus svimi

Doktorinn sagði mér að búa mig undir vikutímabil af skemmtilegheitunum! Neita að trúa því, þar sem fátt kemur í veg fyrir að íslendingar hafi áhyggur af vinnunni sinni. Það er vægast sagt brálað að gera í henni þessa dagana og ef ég fer ekki að koma mér af stað veit ég ekki hvort ég held titlinum sem Ylfa Mist stakk upp á hér um blogginu um daginn- "forkvinna" árshátíðanefndar!

_____________

En heimsmálin eru yfirleitt leyst á Mánagötu 12.  Ekkert vantar upp á það...

Bríet: Mamma- er Jesú nýdáinn?

Ég: Nei, nei- það er mjög langt síðan hann dó

Bríet: Nú, en af hverju var þá verið að flagga í hálfa stöng fyrir honum um daginn?

Ég: Það er bara alltaf gert um páskana

Bríet: Hvernig var Jesús á litinn

Ég: Uuu. Það eru nú örugglega skiptar skoðanir á því

Bríet: Hvítur, eins og við?

Ég: Kannski. Kannski halda þeir sem eru fæddir í Kína- eins og Dagbjört Lee að hann hafi verið eins á litinn og þau

Bríet: Já, og krakkarnir í Afríku halda kannski að hann hafi verið svartur eins og þau

Ég: Já, einmitt!

Bríet: Æi, segjum bara að hann hafi verið húðlitaður!

...já er það ekki bara fín lending!

Set að lokum inn nokkrar myndir af fannferginu um helgina! Nú má alveg fara að vora held ég...

Snjóstríð!Grýlukertin þóttu afar ljúffeng

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband