Hæ litli!

Var það ekki kveðjan sem hljómaði oftar en ekki í Heilsubælinu á sínum tíma. Það held ég bara. Mánagötu-efri hæð er ekki hægt að kalla neitt annað en Heilsu(leysis)bæli þessa dagana. Svei attan. Unglingur hefur bæst í hóp annars afar tuskulegra sjúklinga, en það gerði hann síðdegis í gær. Ég er þó verst haldin- enda bráðum löggilt gamalmenni og tekur gamla fólkið þetta ekki verst af öllum?!

Semsagt. Ég var farin að gera mér sterkar vonir að smella mér í vinnuna á morgun og auk þess var ég búin að panta far fyrir börn og buru í borg óttans á föstudaginn. Já, helgarferð "á heimaslóðir" skyldi það vera! En nei!

Gafst upp fyrir eigin þrjósku í dag og gekk á læknisfund síðdegis þegar ég áttaði mig á því að ég veigraði mér við því að hósta. Jú var það ekki. Slæmt inflúensutilfelli, kinnholusýking auk lungnabólgu! Fari það í norður og niðurfallið! Læknir sagði kerlu að senda ættingja fyrir sig í apótek til þess að leysa út dóp á dóp ofan en sjálf ætti hún að liggja hreyfingarlaus undir sæng og láta á það reyna að koma fram úr á mánudaginn! Arrrg!

...þannig að, engin suðurferð með tilheyrandi stuði og heimsóknum. Ef þið fréttið af því að á árshátíð Alcoa Fjarðaáls hafi aðeins verið borið fram þurrt kornflex og gestum úthlutað krossgátublaði þá vitið þið af hverju. Forkvinnan var lítt starfhæf og eyddi öllum sínum tíma á undirbúningstímabilinu undir þremur sængum og sautján flísteppum!

______________________

Alla síðustu helgi var aukabarn á heimilinu. Kippti mer svosem ekkert upp við það þar sem vinir barnanna koma oft í heimsókn og finnst mér varla muna um eitt til eða frá...

En aukabarn það dúkkaði upp á föstudagsseinnipart og er hér enn. Verð nú að segja að ég er orðin pínu þreytt á því. Barnið kemur frá Reykjavík og er ofdekrað með eindæmum! Vill bara pylsur og kókópuffs. Það þarf að halda á því daginn út og inn. Auk þess er það svo feimið að aðeins Bríet getur talað það til...

Barnið vill ekki fyrir nokkra muni taka þátt í daglegu lífi, svo sem því að fara á leikskóla. Nei, frekar hangir það í bílnum daglangt og bíður eftir að dagurinn líði og vinkonan komi heim. Hann heitir Árni og er þriggja ára. Árni er ósýnilegui vinur hennar Bríetar!

Bríet, Þór og vinurinn Árni úti í snjónumBríet og Árni skelltu í lummur!Árni er þvílíkur bakaradrengur!Takið sérstaklega eftir kakóskegginu á Árna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vona að flensufaraldurinn fari að hypja sig í burtu af Mánagötunni.  Bið að heilsa Árna.

Hlín (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Verður maður löggilt gamalmenni fyrir þrjátíuogfimmára aldurinn  í þinni sveit?  Bara spyr, því þá hlýt ég að vera á grafarbakkanum.

Látið ykkur batna! 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 3.4.2008 kl. 16:05

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Vesalings þú og vesalings fjölskyldan!

Ég hef verið í kvefi og ómennsku en er að koma til.

Láttu svo sjá þig stelpa næst þegar þú kemur til byggða. Nú er ég á 2. hæðinni í vellystingum pragtuglega með útsýni yfir Esjuna!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 4.4.2008 kl. 16:51

4 Smámynd: Solveig Friðriksdóttir

Gangi þér vel að safna kröftum á ný

Solveig Friðriksdóttir, 5.4.2008 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband