Færsluflokkur: Bloggar
Tíu ár liðin frá samruna A-bekkjarfélaga!
7.6.2009 | 18:52
Er í borginni. Alltaf næs, finnst mér. Hanga með vinkonum og leika túrista í miðbænum. Gerði hvorutveggja í gær, en stemmningin var "útlandaleg." Í fyrsta lagi var veðrið alveg magnað, í öðru lagi var Hátíð hafsins og í þriðja lagi var landsleikur í fótbolta við Hollendinga. Allt þetta gerði það að verkum að stuðið í bænum var sem aldrei fyrr...
Hitti svo stelpurnar mínar í Kennó í dag. Áttuðum okkur á því að í haust eru heil tíu ár frá því við kynntumst, en við hófum okkar skólagöngu haustið 1999. Svo langt er síðan að ég átti bara eitt þriggja ára gamalt barn og ekki gsm-síma! Hvernig fúnkeraði það?
Allavega. Þá erum við að hugsa um að hafa "hitting" fyrir allan bekkinn í haust sem væri algerlega magnað. Margt hefur breyst á þeim tíu árum sem liðin eru, börnin okkar teljast í tugum en fæstir eru að kenna. Það verður ótrúlega gaman að rifja upp gamla tíma og rifja upp óborganlegan þriggja ára tima sem einkenndist af endalausri samveru í hópverkefnum, miklu djammi og öðrum skemmtilegheitum. Vona svo sannarlega að af gleðskapnum geti orðið, áfram A-bekkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Alla sína ævi
2.5.2009 | 11:01
Staður: Litla gatan okkar
Stund: Fyrir nokkru
Persónur og leikendur: Ég sjálf- heimsins fráskildasta kona og í þessu atriði pönnukökubakari fyrir öll börn hverfisins, Þór, Bríet og þrjá vinkonur hennar.
Sögusvið: Sunnudagur í Tungukoti. Ausandi rigning. Bríet með Þór í eftirdragi lék sér af hjartans list við þrjár bekkjasystur sínar. Um miðjan dag þótti mér nóg komið af hamagangi innanhúss og mútaði liðinu út að hjóla gegn því að ég gerðist Lína langsokkur og bakaði stafla að pönnukökum. Díll...
...aumingja vesalings Bríet getur orðið ansi þreytt á því að vera með Þrumuguðinn í rassinum alla daga. Hann hjólar eins og vindurinn á tvíhjóli með hjálparadekkjum en það er oft þrautin þyngri að koma sér af stað. Bríet þarf því að fara af sínu hjóli og ýta honum af stað en það getur verið þreytandi til lengdar. Skiljanlega!
Ahhh. Mátti heyra saumnál detta, kannski ekki í heystakk- en allavega á eldhúsgólfið þegar herliðið var farið út. Púff. Þá var það pönnukökubaksturinn, nú mátti láta hendur standa fram úr ermum. Þegar ég er rétt byrjuð að baka heyri ég; "Mamma. Maaaammmmmmmmmmaaa!" Ég eins og sönn hverfismóðir, rak nefið út um eldhúsgluggann og gólaði; "Hvað er að?"
Bríet; "Þú verður að koma, Þór er fastur."
Ég; "Ýtt'onum bar'essgan" (Nennti engan vegin út í vatnsveðrið auk þess sem takturinn í pönnubakstrinum var þá í stakri hættu)
Bríet; "Ég get það ekkert, hann er FASTUR"
Ég; "Hvað er þetta!" (En mat stöðuna þannig að ég yrði að fara út og athuga málið)
Fór út. Í kringum fasta fórnarlambið stóðu Bríet og vinkonurnar þrjár. Ráðalausar...
Bríet; "Sko. Hann er fastur. Buxurnar hans eru flæktar í pedalanum!"
Já, það var nefnilega það. Snjóbuxurnar tættar og flæktar utan um padalann og Þrumuguðinn pikkfastur á hjólinu. Ég bisaði. Og brasaði. Ekkert gekk. Hann var fastur. Fórnarlambið tók að ókyrrast. Augu áhorfendana stækkuðu þegar húsmóðirin sjálf virtist ekkert geta gert í þessu háalvarlega máli. Bríet ráðskona hvessti augun, setti hendur á mjaðmir og sagði;
Bríet; "Uhumm. Á hann semsagt að sitja hérna alla sína ævi?"
Já- hvað á maður að halda þegar maður er bara sex ára og allir hafa reynt sitt. Án árangurs? Bríet sá bróður sinn líklega upplifa alla sína helstu atburði líf síns, sitjandi á hjólinu út á miðri götu. Afmæli, ferming, útskrift úr háskóla, feðrahlutverkið og hvað sem er, pikkfastur á eigin hjóli í allt of litlum snjóbuxum. Þrautin leystist þegar Bríet sótti skæri og barnið klippt af hjólinu. Þór mun því ganga frjáls, alla sína ævi...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kostningadagur
25.4.2009 | 09:16
Átti hálf súra viku. Ætla því að sparka hressilega í rassinn á sjálfri mér og fara í fjallgöngu nú í morgunsárið í góðum félagsskap. Sat í gærkvöldi með vinkonu þar sem við ákváðum að leggja leið okkar á hina ýmsu tinda í sumar. Þannig að okkur er lítt að vanbúnaði að taka netta æfingu í dag...
Kostningadagur. Stemming í lofti. Nýtt upphaf.
Á leið á Keili forðum daga. Í sumar munu fjöllin fá að finna fyrir því...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Misrétti!
18.4.2009 | 14:42
Eftir annasamn vinnudag í gær, föstudag sótti ég afkvæmi mín sem ég hafði ekki séð síðastliðna vikuna. Við rétt fórum heim, pökkuðum okkur niður í sundtösku og héldum á Eskifjörð í laugina. Komum að vísu við og gripum Hafdísi vinkonu Bríetar með í buslið...
Þegar í sundlaugina var komið hlupu þau léttfættu að sjálfsögðu á undan mér að klefunum. Eins og gerist og gengur. Stelpurnar fóru beina leið í kvennaklefann en þegar ég kom þar að stóð Þór þar, horfði á skiltið og sagði;
Þór; "Er þetta strákaklefinn?"
Ég; "Nei, þetta er stelpuklefinn, komdu"
Þór; "Nei, vil vil fara í strákaklefann" (af augljósum ástæðum að sjálfsögðu!)
Ég; "Mamma má ekki fara í strákaklefann- og þú verður að koma með mér, ég þarf ennþá að hjálpa þér"
Þór; "Já en ég má ekki heldur fara í STELPUklefann!!!"
...já hvernig á maður að skilja þetta endalausa misrétti!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Loksins
16.4.2009 | 00:05
Ég held að minn langþráði vinur hafi loks mætt á svæðið í dag. Vorið sjálft. Ji minn einasti eini hvað ég er orðin ÓGEÐSLEGA þreytt á þessum vetri og eeeeeeeeeendalausa snjó! Púff. Það er einhvervegin sérstök stemmning og lykt í loftinu þegar vorið tekur við keflinu af vetrinum. Dásemdin ein...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kristborg Bóel frá Uppsölum hefur loks gefið sig fram á allan hátt...
13.4.2009 | 17:54
Heimsins fráskildasta konan er augljóslega ekki heimsins duglegasti bloggarinn!
Undarleg páskahelgi að baki hjá mér. Ég var ekki með börnin mín og tók því þá ákvörðun- sem fólki fannst almennt undarleg- að fara og vera ALein í sumarbústað á Einarsstöðum. Fannst það vera eitthvað sem ég þurfti á þessum tímapunkti. Eftir viku sótthita og hálsbólgu, með öll börnin mín hjá mér var ég alveg búin með hvert einasta batterí!
Pakkaði niður tölvunni minni, vinkonum mínum frá New York, páskaeggi númer fimm, náttfötum og rauðvínsflösku og hélt í útlegð. Kom í skóginn á skírdag og kom ekki til baka fyrr en nú um hádegi. Dvölin var hin ánægjulegasta. Mesta hvíldin á amstri hversdagsins þykir mér fólgin í því að komast út úr þeirri rútínu sem fjögurra manna heimili fylgir. Að dagurinn klárist ekki með góðu nema 47 verk klárist, og það í hárréttri röð!
Félgasfríkin Kristborg Bóel Steindórsdóttir tróð sér því í gatslitna prjónapeysu Gísla á Uppsölum og hitti hvorki kóng, prins eða prest frá fimmtudegi til mánudags. Má vera að það sé saga til allavega þarnæsta bæjar en konan sú er þekkt fyrir að una sér best í góðra vina hópi. Eini maðurinn sem ég talaði við "feis tú feis" þennan tíma var maðurinn í Hraðbúðinni þegar ég spurði hann hvort hann ætti tómata...
Ansi mörgum Sex and the city þáttum síðar, páskaeggi í maga númer fimm, páskamáltíð sem var AB-mjólk með púðursykri, fjölmörgum hugmyndum og æðisgengnum hugljómunum síðar er ég komin til byggða. Hvet alla til þess að vera einir um stund. En ég er búin að fá mig fullsadda af því í bili og er að verða allt of sein í páskakjúklinginn hjá Jóhönnu minni Seljan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Inntökupróf í helvíti!
25.2.2009 | 17:16
10 kílómertrar? Nei
Maraþon? Nei
Maraþon í 37 stiga hita? Nei
Fjallganga með 6 vikna vistir á bakinu? Nei
Að keyra blindandi aftur á bak hringferð um landið? Nei
Nákvæmlega. Held að það sé EKKERT erfiðara, ógerlegra eða viðbjóðslegra en að vera einn á barnavaktinni í eigin veikindum. Það er beinlínis ekki hægt. Nú ligg ég- gersamlega bakk í mínum árlegu marz-veikindum. Kinn- ennisholu "tannpínu" verkjum, sem fylgir krónískur svimi vegna þrýstings í höfði. Það lekur stanslaust úr augunum á mér, ég er með hita, beinverki og ljósfælni. Enda líklega á penesilíni eins og alltaf. Er þó hálf smeik við doksa þar sem hann hótar mér alltaf "aðgerð" því vandinn er krónískur- hótar mér að skola eða bora vandann út. Hljómar illa!
En það væri eitt og sér gerlegt að yfirstíga eigin veikindi ef ekki væri einstæða barnavikan samfarandi. Það segir sig sjálft að þegar maður stendur, og varla liggur undir sjálfum sér þá er eftirfarandi rútína með öllu ógerleg:
Klukkan slær fjögur- en frá þeim tíma og fram til hálf níu þarf eftirfarandi að gerast til þess að málin gangi upp:
- Börnin sótt út um allan bæ (amma Jórunn bjargaði mér þar sem bíllinn minn er fastur í stæðinu, og nota bene, það er líkelga verkefni klukkutímans að troða stíl í rassinn á sér og fara út og moka)
- Gefa að borða, allavega tvisvar fram að kvöldmat
- Taka á móti vinkonum í heimsókn til dóttlunnar
- Hugsa fyrir kvöldmat
- Leysa deilur milli barnaskara ca einu sinni á hálftímafresti
- Skeina þrumuguðnum reglulega
- Setja í þvottavél
- Taka úr þvottavél
- Elda
- Baða
- Láta læra heima
- Hátta
- Bursta
- Koma börnum í ból
- Líklega 37 önnur atriði sem ég man ekki núna í ó-gleði minni!
Þessi listi er ærinn fyrir fullfrískan einstakling. En prófraun fyrir inngöngu í helvíti fyrir þann sem er mun nær dauða en lífi af flensu! Í ofanálag er frí í skólanum á morgun og einnig í leikskólanum á föstudaginn, fjandinn megi eiga það! Verkefni morgundagsins er að heyra í Guði almáttugum og biðja hann um að stofna stuðningsklúbb einstæðra mæðra í allskyns þrengingum! Vona svo sannarlega að það virki...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Viltu setja Bríeti á pásu!
23.2.2009 | 20:34
Ekki er óalgengt að heyra Þór segja: "Mamma- viltu setja á pásu, ég er að fara á klósettið" þegar hann og Bríet horfa á DVD seinnipartinn. Í kvöld var Bríet að lesa heimalesturinn fyrir mig og Þór sat hjá okkur. Hann skipuleggur mig enn inn í sínar klósettferðir þó svo hann gæti vel farið sjálfur að pissa. Ég sá útundan mér að hann var farinn að iða í stólnum og svo sagði hann:
"Mamma- viltu setja Bríeti á pásu, ég þarf að pissa!"
...pása og sælent, það væru kostir sem stundum væri gott að geta beitt á náungann!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Glitnir á hvolf!
20.2.2009 | 20:58
Fór í bankann í dag. Glitni að ég hélt- hef greinilega dottið út úr fréttum síðustu daga. Fór til þess að ná í bauka fyrir krakkana, Latabæjarbauka sem mikil spenna var yfir að fá á heimilið. Kom heim með boltabauka því þeir tilheyra Íslandsbanka sem Glitnir er í dag! Bríet var ekki ánægð með afrakstur minn- vildi Latabæ. Ég reyndi að skýra þetta af fremsta megni...
Síðdegis í óðalsbýlinu Tungu:
Bríet: "Brósi. Veistu hvað?!"
Almar Blær: "Nei, hvað?"
Bríet: "Glitnir er farinn á hvolf og orðinn að einhverjum íslenskum banka í staðinn!"
...jú, svona er Ísland í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)