Færsluflokkur: Bloggar

Af sláturkeppum og sveppum

Enn bólar ekkert á lausn myndamála hér á þessari guðsvoluðu síðu!

En nú skal fara að huga að haustverkum, en þá er ég alveg sýnd hratt. Í fyrsta falli þá er ég að prjóna mér lopapeysu! Bara skemmtilegt- en nú fer heldur að styttast í ógæfuhliðina, held að ég verði að fá einhverja hjálp til þess að "setja niður" bekkinn- sér í lagi þar sem ég þurfti að minnka ermarnar til muna frá uppskriftinni...

Búið að bjóða mér í sveppatýnslu í Hallormsstað í vikunni og ég ætla ekki að láta segja mér það tvisvar, að fara með vanri sveppatýnslumanneskju í leiðangur. Laufey er alger gúrú í þessu sem og allskonar jurtatýnslu og nú ætla ég að læra sem aldrei fyrr. Burn, bura og plastpokar fara í bíl í vikunni og bruna í héraðið, ef viðrar...

Þá eru það blessuð berin. Sá viðtal við konu í fréttunum á dögunum sem ætlaði að týna 300 kíló í ár. Veit nú ekki alveg með það en ég ætla einnig að ferja heim í lítravís. Er hér með hætt að kaupa fokdýr ber í Bónus til þess að setja út í "skyrbústið" mitt- nei, nú er það bara sjálfsþurftarbúskapurinn sem gildir!

Svo ekki sé nú talað um slátrið maður lifandi! Ég ætla að taka slátur í haust. Krakkagormarnir eru brjáluð í það þannig að mér er ekkert að vanbúnaði. Blóðsúthellingar og bringusundshandtök í balanum á haustdögum...

Á haustin gerum við okkur líka tonn af fiskibollum og kleinum. Það finnst ungviðinu einnig afar athyglsvert og skemmtilegur viðburður...

Kreppunni er hér með sagt stríð á hendur!


Aftur til vinnu

Mikið agalega leiðist mér að ég geti ekki með nokkru móti sett inn myndir á þessa síðu lengur. Í það minnsta ekki um þessar mundir, en hér bíða sumarleyfismyndirnar okkar í bunkum!

En, hvað um það. Nú er mitt fjögurra vikna sumarfrí að lokum komið en ég fer í vinnuna mína aftur á morgun. Mikið verður það nú gott. Misskiljið mig ekki, það er ljúft að vera í fríi en alltaf best að detta í rútínuna á nýjan leik...

...haustið er minn uppáhalds tími, nýtt upphaf. Kertaljósin tendruð og seríurnar mínar fara aftur upp eftir aðeins þriggja mánaða hvíld. Kósíheit og klæðin rauð. Hreint og kalt loft úti. Bjartir haustmorgnar á leið til vinnu, ummm...

 


Bræðslan, árviss viðburður upp frá þessu

Frábær helgi að baki. Ákvað á elleftu, já eða jafnvel á tólftu stundu að fara á Bræðslutónleikana á Borgarfirði eystra í gærkvöldi, en átti jafnframt að vera í stórmerku "100 ára afmæli", þ.e.a.s. tvöföldu fimmtugsafmæli. Dauðlangaði á tónleikana og fór að lokum við annan mann, eða vinkonu mína Jóhönnu Seljan...

Dauðskammast mín og vona að þið segið ENGUM frá, en þó svo að ég sé fædd og uppalin á Austurlandi, þó svo ég hafi alið mannin flest mín fullorðinsár á höfuðborgarsvæðinu, þá var þetta mitt fyrsta skipi á Borgarfirði!

Við svísurnar ákváðum að gera þetta að alvöru ferð og gista. Humm, gista já. Eigum við tjald? Nei. Er gistiherbergi laust um Bræðsluhelgina með nokkurra klukkutíma fyrirvara? Nei. Hugs, hugs...

En af stað héldum við vinkonurnar. Vopnaðar; Lopapeysum, sólgleraugum, bjór, frábærlega góðu skapi og tilhlökkun! Af stað! Keyrðum sem leið lá. Rokkuðum feitt og sungum hástöfum. Vorum búnar að fá helstu útskýringar á því hvert við ættum að fara til þess að rata á réttan stað. Keyrðum fram hjá Eiðum, mínum gamla skóla. Ummm, skemmtilegar minningar. Svo þegar við vorum komnar aðeins út í óvissuna urðum við dolfallnar! Vá! Ég er alveg heilluð. Get líklega sagt starfi mínu lausu hjá Alcoa og gerst trúboði, til þess að krúsa um landið og boða boðskapinn; Borgarfjörður eystri og nágrenni er líklega fallegasta svæðið á landinu...

Á leiðarneda komumst við að lokum. Lögðum Volvónum sem að lokum varð okkar næturstaður, gistum í bílnum eins og sannir rokkarar, þá stuttu stund sem við sváfum í nótt...

Tónleikarnir voru alveg frábærir. Magni byrjaði, því næst Páll Óskar og Monika en þau voru alveg frábær. Stemmningin í bræðslunni gömlu var engu lík þegar þau spiluðu sín bestu lög. Því næst steig Jónas Sigurðsson, gamall skólafélagi minn á svið við mikinn fögnuð nærstaddra. Áður en Þursarnir komu fram tóku svo tvær sveitir sem ég þekki ekki lagið og þá var komið að stóru stundinni- þeir eru alveg magnaðir, Þursaflokksmenn. Tóku öll sín lög og stemmingin var frábær...

Frábært kvöld. Hitti fullt af skemmtilegu fólki, bæði gömlum skólafélögum sem og öðrum. Það er alveg klárt að Bræðslan verður árviss viðburður hjá mér hér eftir og að ári rata ég klárlega á staðinn!


Bræðslan, ekki Bræðslan- Bræðslan, ekki Bræðslan...

Umhugsunarefni mitt er afar ófjölbreytt í dag...

Bræðslan, ekki Bræðslan...

Bræðslan, ekki Bræðslan...

Bræðslan, ekki Bræðslan...

Bræðslan, ekki Bræðslan...

...á að vera í frábæru 2*5o ára afmæli á laugardaginn. En langar sjúklega á tónleikana á Borgarfirði eystra. Hvern langar ekki að sjá Þursaflokkinn á sviði? Stundum eru einfaldlega of fáir dagar í hverju ári!


Skiptum einstæð út fyrir sjálfstæð!

Nú er húsmóðirin í Tungu hálfnuð með sitt sumarfrí með öllum sínum fjölmörgu börnum...

Við gerðum víðreist á dögunum. Lögðum land undir fót fyrstu dagana í júlí og brunuðum til Reykjavíkur til þess að knúsast með vinum og ættingjum. Pakkaði börnum, buru og töluverðu magni af fötum í "löggubílinn" og hélt af stað. Suðurfyrir. Dem. Maginn á Bríeti er augljóslega ekki gerður fyrir langferðir og vorum við komin á þriðja dress á Höfn í Hornafirði...

Suður komumst við og kepptumst við að heimsækja alla þá sem við söknum lon og don meðan við erum heima hjá okkur. Auk þess að dvelja í höfuðstaðnum vorum við í sumarbústað í Efstadalsskógi og í Borgarfirði. Fyrir viku héldum við svo heim á leið. Norðurfyrir...

Stoppuðum á Akureyri og fengum inni hjá Möggu vinkonu eina nótt. Þór upplifði sitt stærsta móment hingað til þar sem húsbóndinn Rolf er svo ALVÖRU slökkvuliðsmaður og bauð okkur í einkatúr á slökkvustöðina! Vó, vóh og hólímóli! Þór og Bríet fengu að setjast upp í alla bruna- og sjúkrabílana sem til eru á Akureyri og eru þeir þónokkrir, og BARA flottir!

En heima er best. Það er þó alltaf niðurstaðan...

...það er eitt sem ég átta mig þó ekki alveg á og veit ekki hvort ég á að kaupa. Hugsa að ég geri það ekki. Það er allt það endalausa hrós sem ég hef fengið fyrir "dugnaðinn." Fólki finnst ég alveg makalaust dugleg að hafa farið tíu daga hringferð ein með börnin mín. Humm. Hugs, hugs. Veit ekki alveg...

...bara alls ekki. Ég hugsa mig ekki sem "einstæða" móðir. Ég vil hugsa mig sem "sjálfstæða" móðir sem hika ekki við neitt og geri bæði það sem gera þarf og nákvæmlega það sem mig og okkur langar. Fannst þetta allavega ekkert tiltökumál eða sérstakur dugnaður. Bara gaman og ekkkkkert mál!

ÞrumuguðBríet gengur undir nafninu Skögultönn um þessar mundir!Únglíngur


Sundgagnrýnendur

Við stóra smáfjölskyldan íhugum nú heilshugar að gerast sjálfskipaðir sundstaðagagnrýnendur. Ætli við getum sótt um styrk úr kreppusjóði? Er ekki gagnlegt fyrir landann að geta sótt allar helstu upplýsingar á einn stað?

Höfum svo sannarlega gert víðreist síðustu daga. Sundlaug Hafnar í Hornafirði á laugardag, heiti potturinn í Hólabrekku á sunnudag, hin glænýja sundlaug Álftaness í dag og Árbæjarlaug á morgun. Bóka má formlega í allar skruddur að við erum bæði tandurhrein og með gígantísk sundfataför nú í sumarfríisbyrjun...

 


Ferfættir alvöru hestar

Þór var ánægður með 17. júní hátíðahöldin á Reyðarfirði. Sagði móður sinni undan og ofan af þessu öllu saman, en hann var þar með pabba sínum...

"Það voru hestar þarna. Alvöru hestar með fjóra fætur og allt!"

...já hólí mólí. Hestarnir voru alveg'meða!

Bjútí


Frænkustuð

Var víst búin að lofa eftirfarandi frænkuseríu hér inn. Annars merkilegt nokk. Finnst eins og ég hafi verið að skipta á þessum bróðurdætrum mínum í fyrradag en þær eru orðnar 21 árs og báðar töluvert hærri í loftinu í dvergurinn ég! Það þykir sjálfsagt ekkert merkilegt þar sem sonur minn verður orðinn jafnstór og ég eftir korter...

En allavega- þessar voru teknar á dögunum...

Svo næs þessar elskur!Bríetin mín í góðum höndum...BjútíbollurÓjá, þarna upphófst stuðið...007SkvísurÚnglíngurinn minnLitlu krakkapakkarnirSætasti Þór-inn í bransanum!

...læt skíðamyndir fljóta með, sem ekki eru teknar alveg á síðustu dögum, heldur snemma í vor...

Þriggja ára Þrumuguð á fúllsvíng!Rokkarinn minn BríetSkíðamæðgur


Skærbleikt kaffiboð skal það vera!

Var að koma úr vinnunni minni. Það væri nú vart í frásögur færandi nema að í dag er 19. júní- baráttudagur okkar kvenna. Líkt og í fyrra héldum við Alcoakonur upp á daginn með því að bjóða okkar konum, sem og öðrum konum úr samfélaginu...

Gúðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri öryggis-og heilsu og Þuríður Sigurjónsdóttir rafvirki ávörpuðu samkomuna og stóðu sig með prýði. Bergey Stefánsdóttir ein úr okkar glæsilega sumarstarfsmannahópi söng þrjú undurfögur lög meðan rúmlega 100 konur gæddu sér á ljúffengum veitingum frá Lostæti...

Mætingin var líklega í við meiri en í fyrra sem fór þá fram úr okkar björtustu vonum. Að dagskránni lokinni var konunum boðið upp á skoðunarferð um álverslóðina í rútu. Við sem að skipulagningunni stóðum í fyrra og nú í ár erum himinlifandi. Við erum stoltar af því að sjá hve mikinn áhuga konur hafa á álverinu og sjáum að þessi viðburður er eitthvað sem koma skal og verður hefð á kvennadaginn 19. júní um ókomna tíð!

Áfram stelpur!


Meiri djöfuls' vitleysan

Þetta er nú meiri andskotans, djöfulsins vitleysan í þér hefði pabbi sagt við mig núna. Var að koma úr sjósundi í annað skipti með Guðnýju Björgu sjógúrú og hinum stelpunum. Það var ÓGEÐSLEGT, ÓGEÐSLEGT, ÓGEÐSLEGT!! Fannst það milklu skárra síðast, en núna- ji minn einasti eini...

Það er auðvitað eins og það sé október-veður hér á austurhjara veraldar þessa dagana, rok og ekki mikill lofthiti. En út í fórum við og kræktum meira að segja með okkur nýjum kandídat!

Það er viðbjóður að vaða út í en herlegheitin byrja samt ekki fyrr en maður er komin upp fyrir mitti. Það verður ekki mögulegt að anda eðlilega og maður hálf missir andann. Ég næ hvorki að venjast kuldanum eða normal öndun. Vorum ekki lengi útí í þetta skiptið og skelltum okkur beint í vaðlaugina á Mjóeyri að "sundi" loknu. Með naglakul á tánum og sumar hverjar með blóðlausa putta...

En þetta ku jú vera allra meina bót, sogæðakerfið mun blómstra sem aldrei fyrr og appelsínuhúð- hvað er nú það???


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband