Færsluflokkur: Bloggar

Ein eða tvær myndir...

Bríetin mín með skarðið sitt smartaPlinzinn minnog töffarinn minn!Krissaí mega stuði!Svo var það hin árlega jólamyndataka, tvær mínútur í jól...

...svo á jóladag var svo fallegt veður, að Silja ákvað að viðra ekki hundinn heldur mig og myndavélina. Upp hófst mikill vitleysisgangur eins og okkar frænkum einum er lagið...

Skýin gátu ekki ákveðið sig hvort þau ættu að vera úr gulli eða þrumuský!Mér líkar vel við sjóinn...Útsýni sem getur breytt heimsmyndinni!Létt á sér kerlingin!Kagginn hennar Silju er bara kúl


Rafræn jólakveðja

Það kom þá að því að lífsmark yrði hér á síðunni. Jólasveinarnir runnu á rassinn með bréfaskrif hvað þá annað, allavega náðu þeir ekki samfellu í það eins og undanfarin ár! Svei bara. Verð einnig að játa mig sigraða í jólakortunum í ár, það varð eiginlega ekkert úr því heldur...

Það tekur bara ótrúlega á að aðlagast breyttum aðstæðum og desember, já og fyrstu jól eftir skilnað er líklega erfiðasti tíminn sem farið er í gegnum í slíku ferli. En ég vona að þeir sem áttu von á sínu hefðbundna korti fyrirgefi mér og lesi það hér að neðan í staðinn. Ég set einnig inn myndina sem ég ætlaði að hafa á kortinu. Hver veit nema þið fáið bara júlí eða ágústkort í staðinn! En allavega, gleðileg jól öllsömul og hafið það eins gott og mögulegt er...

Verð að greina frá einu í viðbót fyrir jólakveðjuna. Þór og Bríet eru bæði komin til manns, en það borðuðu bæði skötu í gærkvöldi og það bara vel! Flottust...

Jólakortið 2008

Jólakveðjan okkar úr Tungu:

Þrír litlir grísir, giltan móðir þeirra og úlfur í kattagæru

Einu sinni voru þrír litlir grísir sem bjuggu með móður sinni víðsvegar um Reyðarfjörð.  Í haust útbjó hún nestispakka handa þeim, kyssti þá á kinnina og sendi þá burt til að spila á eigin spýtur og freista gæfunnar.  Þeir lögðu allir af stað saman af stað en þegar þeir komu að vegamótunum kvöddust þeir og óskuðu hver öðrum gæfu og gengis og héldu svo hver sína leiðSá elsti settist á skólabekk í sjöunda skipti. Þar er nóg um að vera,  samræmd próf, Stóra upplestrarkeppnin og seta í nemendaráði skólans. Fótbolti, glíma og hornleikur er á dagskrá sem fyrr ásamt hefðbundnum vinastörfum. Grísinn vex líkt og baunagras og líklegt verður að teljast að á sama tíma að ári hafi hann náð sentimetrafjölda móður sinnar sem þó er töluverður!

Miðjugrísinn hélt stoltur af stað út í haustið, vopnaður glænýrri skólatösku og öllu því sem þarf til þess að takast á við stórverkefnið  1. bekk.  Grísinn hefur beðið eftir áfanganum svo árum skipti og finnur líklega lítið fyrir því að vera yngsti nemandi bekkjarins. Nú á dögunum féllu svo loksins, loksins  tvær tennur úr grísamunni við mikinn fögnuð og húrrahróp hans sjálfs!

Yngsti grísinn sat hins vegar eftir á leikskólanum með sárt ennið og skildi ekki hverslags misrétti hann var beittur, en í grunnskólann ætlaði hann líkt og hinir tveir. Segir sjálfur að þegar hann verði stór- en Bríet lítil á ný muni hann fara í skólann og þá skuli sækja hana í leikskólann! Hann jafnaði sig þó fljótt og unir hag sínum vel í Asparholti þar sem hann vefur kennurunum um fingur sér.

Úlfur sögunnar er í kattagæru, heitir Stúfur og er jólaköttur. Blæs hvorki né hvæs húsið um koll né hefur áhuga á að leggja sögupersónurnar sér til munns.  Þarf hins vegar oft að bíta á jaxlinn og brosa út í annað þegar hann er klæddur í prjónahúfur og náttföt og þröngvað í dúkkukerruna!

Eftir millilendingu í stöðluðum og gráum raðhúsalengjum búa grísirnir og giltan nú í kotinu Tungu og líkar vel. Húsið er eitt af eldri húsum bæjarins og er því í „101 Reyðarfirði“ þar sem menningin er engu lík.  Rósettur eru í loftunum, veggfóður á veggjunum, brakar í hverri fjöl og þess má til gamans geta að móðirin sefur inn í skáp og aðeins er ein innstunga að meðaltali í hverju herbergi. En af sjarma er nóg og við hlökkum til þess að fá ykkur öll í kaffi í sumar og lofumst til þess að bjóða upp á kaffi og með‘í á Línu langsokk-svölunum okkar! 

Jólakveðjur frá Krissu, Almari Blæ, Bríeti og Þór


Pottaskefill kann gott að meta og éta...

Hæ, hæ og hó, hó- Pottaskefill heiti ég.

Þetta er nú meiri leiðinamaskínan, þessi uppþvottagræja sem að er á öllum heimilum í dag. Verður til þess að engir pottar eru óhreinir, hvergi er hægt að lauma sér og fá sér væna innansleikju. Grýla er ekki með slíkt tæki þó svo hún sé alltaf með okkur bræðurna í mat. Hún fer bara og skolar af öllu saman út í læk svona einu sinni í mánuði.

Mamma er mikill kokkur og ég er uppáhalds matargatið hennar. Sumir okkar bræðra erum ekki duglegir að borða matinn okkar, eins og til dæmis Þvörusleikir, þess vegna er hann svo mjór. Sumir eru óskaplega matvandir og eins og Skyrgámur en hann er soddan væluskjóða og fer yfirleitt í vont skap ef mamma ætlast til þess að hann borði eitthvað annað en skyr og rjóma. Ég hins vegar borða alltaf það sem mamma eldar fyrir okkur og það sem meira er þá þykir mér það allt saman gott! Þið vorðuð nú einhverntíman búin að heyra talað um uppáhaldssúpuna mína, en það er jólasúpan sem er alltaf á undan bolanum sem við steikjum á jólunum. Ég bíð spenntur eftir að fá hana allt árið og ég  gef hér upp uppskriftina þannig að þið getið prófað hana um jólin:

 

15 lítrar af vatni

2 kíló af hvönn

Ein fata lúpínufræ

Brekkusniglar í skel

Marflær

15 Máfabringur

Mosi eftir smekk

Ánamaðkar (því meira því betra)

Piss úr jólakettinum

 

Þetta er svo allt saman soðið í potti yfir hlóðunum í nokkra daga og borið fram með rúgbrauði sem hann Leppalúði bakar. Þetta er alveg himnesk hollusta og bragðgæði  og ég vona að þið sjáið ykkur fært um að prófa

Vonandi nýtast vettlingarnir þér vel Bríet mín, ég frétti svo seint hvað þig langaði mest í, en kannski að hinir bræður mínir geti laumað því til þín næstu daga. Einnig vona ég að Þór sé ánægður með rauða kaggann, það er nú varla annað hægt!

Kær kveðja- Pottaskefill


...svo kom Þvörusleikir

Heil og sæl börnin góð

Þá er síðasta skólavikan fyrir jólafrí að renna upp. Þegar mannfólkið fer í frí er mest að gera hjá okkur sveinunum. Mér líður þó ósköp vel á þessum tíma af því þetta er sá árstími sem ég er pakksaddur hvern einasta dag,  en ég læðist í eins margar þvörur og ég get um leið og ég luma einhverju skemmtilegu í skóinn hjá þægu börnunum.

Annars var þetta nú mun betra í gamla daga, þegar flestir voru með kjetsúpu, saltkjet, grjónagraut. Nú er öldin sú sannarlega önnur og fólk sullar öllu mögulegu saman og úr verða eihverjar undarlegar kássur og klessur sem ekki nokkur sveinn getur með góðu móti borðað. Hverjum datt í hug að troða bjúgu í brauð og sprauta blóði á allt saman? Eða þessi kringlótta brauðsorpa með öllu þessu dótaríi ofan á, það er eins og Grýla hafi hent úr sópnum sínum á þetta sem þið kallið pizzu. Ekki líkar okkur bræðrunum þetta fæði skal ég segja þér. En í kvöld lenti ég í því versta hingað til, mig logsvíður í tunguna og held bókstaflega að hún sé að detta úr mér! Ég var að brasa við að setja í skó á Egilsstöðum þegar ég fann þessa góðu lykt, en ég var alveg sannfærður um að gamaldags kjet og karrý væri í pottinum. Ég stóðst ekki mátið en laumaði mér inn, læddist að pottinum og fékk mér væna sleikju. En hjálpi mér allir tröllkarlar, þetta var ekki gamla karrýsósan sem mér þykir svo góð, þetta var eins og að sleikja glóandi kol. Ég veinaði og gólaði svo hátt að pabbinn koma hlaupandi niður og spurði mig hvað gengi eiginlega á. Ég gat ekki annað en sagt honum satt. Hann ætlaði fyrst að verða reiður við mig, en þegar hann sá hve illa mér leið þá gat hann ekki annað en gefið mér mjólkurglas til þess að minnka mesta sviðann. Hann sagði mér jafnframt að fjölskyldan hefði verið með Indverskt matarboð um kvöldið og á Indlandi borðuðu þeir afar sterkan mat!

Jæja, mér er ekki til setunnar boðið, en ég er orðinn dálítið seinn vegna þessa atviks. Vonandi koma jólaspilin sér vel Bríet mín en þú getur platað mömmu þína í jóla-veiðimann eftir skóla og Þór getur hrætt alla viðstadda með þessum voðalega snák sem ég gaf honum.

Bless, ykkar Þvörusleikir


Stúfur var sá þriðji...

Þið eruð búin að rugla mig algerlega í ríminu.

...hvar er Stúfur?

...má ég fá Stúf, þú ert búin að hafa hann svo lengi!

Ég ætla að setja hann í dúkkukerruna!...ohh, Stúfur er búin að pissa í rúmið!

Ég hélt alltaf að þið væruð að kalla á mig eftir að þið skírðuð kisuna í höfuðið á mér og ég var ýmist að hlaupa af stað eða að reyna að skammast mín fyrir óþekktina!  Mikið þótti mér nú nafngiftin annars góð hugmynd.  En að pissa í rúmið, það var ekki jafn snjallt og svoleiðis er ég löngu hættur að gera! Annars hefur hann nafni minn nú stækkað aldeilis, hann er alveg að verða eins og skógarbjörn að stærð, hann er að verða stærri en ég!

Það getur annars verið snúið að vera svona lítill eins og ég.  Bræður mínir segja að ég sé óttalegt smábarn og þess vegna hef ég ekki enn fengið að taka meiraprófið, en það þarf ég til þess að geta flogið hreindýrasleðanum. Þess vegna fer ég minna ferða ennþá á gamla snjósleðanum hans Leppalúða en varla mikið lengur!  Og í kvöld kom að því að hann gafst upp blessaður. Ég var að koma úr Hallormsstað, keyrði á harðaspani niður eina brekkuna en þegar ég ætlaði að bremsa var það ekki hægt.  Í stað þess að stöðvast renn sleðinn sífellt hraðar og hraðar þar til hann hafnaði á stórum steini.  Sleðinn fór í klessu og það skipti engum togum með það, ég flaug af í stóðum boga og pokinn minn á eftir mér. Og veistu hvar ég lenti? Nei, það er ekki von. Ég lenti á bakinu á Lagarfljótsorminum! Ég hef aldrei á minni ævi verið eins hræddur og þegar ég horfði í grænar, risastórar glirnurnar á honum.  Sjálfur var hann grænn og slímugur og virtist í slæmu skapi. Til allrar lukku vorum við nálægt landi þannig að ég henti mér í fljótið og synti til lands. En mikið er ég nú þeyttur eftir volkið og það verður gott að leggjast til hvílu undir morgun.

Ég ákvað að gefa litla lákanum eina pínulitla kartöflu í skóinn með hinu sem hann átti að fá en hún er svona eins og gula spjaldið- nú verður hann aðeins að fara að passa sig ef hann ætlar ekki alltaf að hafa kartöflumús í kvöldmatinn! Annars var nauðsynlegt fyrir Bríeti að fá nýja liti en það er eins og það hafi komist hamstur í litaboxið hennar, þeir eru bara allir að verða búnir! 

Jæja börnin góð, nú ætla ég að halda aftur af stað út í nóttina- ykkar smávinur og ormatemjari, Stúfur.


Annar sveinn hefur farið hjá...

Sæl veriði krútthaugarnir ykkar. Mér er svo kalt að mig langði mest til þess að skríða upp í rúm til ykkar og hlýja mér. Ég er svona illa haldinn af því ég fór í rauða gallann minn hálfblautan út í frostið í morgun- og það sem meira er, ég gleymdi að fara í lopanærbuxurnar innan undir. Grýla mamma var nefnilega sein með stórþvottinn í ár. Hún þvær alla gallana okkar einu sinni á ári og er venjulega búin að því áður en við förum til byggða. En þetta árið ruglaðist allt kerfið af því að Varta stóra systir hennar kom í heimsókn alla leið frá Ameríku þar sem hún er búin að búa síðustu 300 árin. Varta kom með allskonar dótarí í köflóttu ferðatöskunni sinni, margt af því hafði Grýla aldrei séð, eins og flaskan með rauða matarlitnum en sagan af honum er nú alveg til næsta bæjar, ójá. Það er sagan af því af hverju jólakötturinn kemst alls ekkert til mannabyggða þetta árið

Í fyrradag var komið að hinni árlegu baðferð okkar bræðra. Það finnst okkur ekki skemmtilegt enda orgaði Stúfur og grenjaði allan tímann. Baðið er fyrir utan hellinn okkar, hlaðin steinalaug með heitu og góðu vatni. Meðan Leppalúði og Bjólfur kröllkarlinn hennar Vörtu hjálpuðu okkur með sápuna sem kom einnig upp úr köflóttu töskunni, voru Grýla og Varta að undirbúa stórþvottinn. Þær settu alla gallana okkar ofan í risastóran bala, helltu fyri þau vatni ásamt heilli flösku af rauða litnum, en liturinn á göllunum okkar var heldur farinn að láta á sjá eftir áralanga notkun. Vatnið varð blóðrautt. Þær hrærðu í herlegheitunum með risastórri sleif, hring eftir hring. Þegar þær voru búnar að hræra dágóða stund áttuðu þær sig á því að eitthvað undarlegt var í balanum. Þær hættu að hræra en þvotturinn hætti samt ekki að snúast. Svo komu loftbólur upp á yfirborðið og upp úr balanum þaut jólakötturinn en hann hafði lagt sig í fatahrúgunni sem í balann fór

Eða jólakötturinn. Já líklega hefur þetta verið hann en við áttum erfitt með að þekkja hann þegar hann kom blóðrauður þjótandi út úr hellinum. Hann mjálmaði ámátlega og blés meiri sápukúlur. Aumingja greyið, en svona gerast óhöppin, hann fær í það minnsta ekki að fara til mannabyggða svona útlítandi!

Jæja börnin góð, ég laumaði örlitlu gotti í skó. Það eru nú meiri vöðlurnar sem að unglingurinn hefur sett þarna í gluggakistuna. Bið að heilsa ömmu Jónu ef þið sjáið hana eitthvað fljótlega. Ég fann ekki blað til þess að skrifa á þannig að ég sendi bréfið bara í tövlupósti, en ég er nýbúinn að vera á tölvunámskeiði hjá honum Skrápi.

Bless, bless- aðal gaurinn á svæðinu


Stekkjastaur kom fyrstur...

Það er meiri vitleysan að fara svona seint að sofa. Ég var meira að segja vakandi þegar Stekkjastaur bar að garði. Ég faldi mig undir sófa og þorði ekki að láta í mér heyra. Hann skildi eftir góss í skóm (tja, eða stígvélum) og þessa orðsendingu líka:

Góðan daginn, glaðan haginn en vonandi springur ekki í ykkur maginn

Þetta segir Grýla mamma alltaf við gesti sem koma í hellinn okkar í Hádegisfjallinu. Henni þykir þetta alltaf jafn sniðugur brandari og hlær alltaf þannig að hellirinn nötrar og skelfur. Einu sinni hló hún svo mikið að það fór af stað snjófljóð í fjallinu. Þá skammaði Leppalúði pabbi hana svo mikið að hún hefur passað sig síðan.  En það sem er nú kannski hræðilegast er að brandarinn er alveg sannur, því einu sinni sprakk í alvöru á henni maginn, alveg eins og Gýpu frænku!

Nú er mamma okkar orðin gömul og grá og gerir ekki flugu mein en þegar hún var yngri var hún ekki eins góð skal ég segja ykkur. Nú borðar hún bara hundasúrusúpu, þarasteik og drekkur mosakaffi en þegar hún var ung og hress voru önnur tröll uppáhalds maturinn hennar. Alveg satt. Þegar hún var 850 ára hélt hún stórt og mikið skvísuboð. Hún bauð öllum vinkonum sínum sem mættu í flottum skóm og með bleikan varalit. Leppi pabbi er svo skotinn í henni pantaði heilan tröllkarlakór til þess að syngja fyrir hana afmælissönginn. Þegar þeir voru að klára að syngja síðustu línurnar var mamma orðin svo gráðug og svöng að hún læddist til þeirra og gleypti þá alla í einum munnbita, fimmtán tröllkalla. Það veit hvert barn að einn mallakútur getur ekki haldið inn í sér heilum karlakór og því fór sem fór. Grýla sprakk með slíkum látum að allt landið hristist og skalf, það er kallaður jarðskjálfti hjá ykkur mannfólkinu held ég. Karlakórnum varð ekki meint af, kysstu Grýlu til hamingju með daginn,  gæddu sér á krásunum og spiluðu á banjó langt fram eftir nóttu. Bóla frænka saumaði hins vegar magann á mömmu saman með skærgrænum kaðli, rosa flott

En mikið var ég nú ánægður að sjá að jólakötturinn ykkar var kominn heim aftur heillá húfi. Hann er varla eins óþekkur og okkar, en ég segi ykkur sögur af honum seinna. Prófið að gefa honum úldna kartöflu í skóinn ef hann stelst svona frá ykkur aftur, en þá verður hann rosa fúll-vill en hann heldur að hann sé prins og vill frekar fisk á sinn disk

Jæja, þá verð ég að halda áfram. Ég á eftir að þjóta til Reykjavíkur og heimsækja Elísu skvísu, Eygló litlu og Hauk Atla. Bið að heilsa svefnpurrkunni henni mömmu ykkar. Bless, kless- ykkar Stekkjastaur


Sitt hvað og lítið eitt...

Ég er skömmuð á öllum vígstöðvum fyrir lélagan fréttaflutning. Fer kannski bara að kópera fréttirnar sem ég skrifa í vinnunni minni um ISOvottun, öryggisátak, árangur á vírasteypuvélinni og bólusetningar. Það væri kannski ráð, þá væri þetta bloggsvæði mitt alltaf yfirfullt...

Nei, nei, það er svosem af nægu að taka. Ég semsagt skúbbaði mér hér inn í Tungu fyrir hálfum mánuði og hef það fínt. Það er einhver annar andi í svona gömlum húsum heldur en nýjum. Eitthvað svo faðmandi, ég get ekki sagt það öðruvísi. Almar Blær er alveg sammála mér, enda gömul sál eins og ég...

Bríetin mín ekki lengur hálf-sex, heldur al-sex. Missti svo LOKSINS, LOKSINS fyrstu tönnina í vikunni og er alsæl með árangurinn. Að vísu var lítið fútt í skarðinu sem varð eftir missinn þar sem fullorðinsframtennurnar nýju voru komnar upp á bakvið...

Miklar umræður hafa verið um Grýlu og Leppalúða hér upp á síðkastið. Hvort þau séu dauð, kannski bara orðin gömul og lasburða eða kannski enn fullu fjöri og éti kannski litla krakka í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Við höfum fallist á millistigið, þ.e. að þau séu orðin gömul og grá, slöpp séu steinhætt að borða börn, hafi snúið sér alfarið að grænmetisfæðinu! Það er miklu skárra en að jarða vesalingana, færi þá ekki allt stuðið úr þessu? Annars fáum við alltaf fréttir af því sem er að gerast í Grýluhelli þegar bræðurnir fara á stjá, því einhverra hluta vegna skrifa þeir okkur alltaf langt bréf á hverjum degi sem fær að fljóta með skógóssinu...

Ætla að skutla inn nokkrum myndum frá síðustu helgi, en þá var mikið að gera- jólaföndur, glímumót, lúðraspil og afmæli...

Bríet einbeitt í föndrinuGlímukappi að fara á völlinn!Komma so......klofbragð!SilfurmaðurinnSpilirí, nánast í fiskimaga!Góðir félagar!GamanMesti gæinn á öllu svæðinu!Frændurnir flottu!Meiri afamynd- Afi Rúnar með strákinn sinnGrísamamma


Ein, tvær, þrjár...

Ein, tvær og þrjár stelpur. Sissa (eins og Siljan mín hefur kallað mig frá þriggja ára aldri og mun líklega aldrei hætta því), Siljan- bróðurdóttlan mín og Bríet í afmælinu hennar Bríetar um helgina. Ekki í NY- bara í Tungu!

Sissa, Silja og afmælisBríetRosa stuð


Bríetin mín, ekki lengur hálf sex!

Jú, er lífs! Er bara netlaus heima og hef ekki mínútu aflögu til þess að sinna bloggstörfum í vinnunni. Ætla samt að svindla aðeins í dag, af því að það er sérstakur dagur. Bríet sagði á dögunum: "Það eru allir í bekknum orðnir sex, en ég er bara hálf sex!"

...hún er ekki lengur hálf-sex, heldur al-sex í dag. Sex ár síðan Almar Blær varð stóri bróðir, þá í fyrsta bekk eins og hún sjálf núna. Sex ár síðan hann sat með hana í fyrsta skipti í fanginu og sagði þá fleygu setningu: "Hún er með svona grísanef!"

Afmælisstelpan mínFallegust af öllumBríet

Elsku Bríetin mín, ég vildi geta samið þér almenninlegan pistil eins og ég geri yfirleitt á afmælum, ég geri það kannski í vikunni. Eigðu góðan dag í dag ljúfasta ljós, ástarkveðja frá þínum æstu aðdáendum, mömmu sín, Almari Blæ og Þór


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband