Færsluflokkur: Bloggar

Vor, já takk!

Get ekki sagt að ég hafi verið himinlifandi við kuldabolann sem tók á móti mér á Egilsstaðaflugvelli snemma í morgun eftir vorveðurdvöl í Reykjavík. Íhugaði alvarlega að gefa skít í þetta og fara aftur með vélinni til baka! Hefði nánast þurft þess, þar sem ég kom austur með lykilinn af bílaleigubílnum, ekki í fyrsta skipti og ekki það síðasta. Flugfreyjan var þó afar almennileg og lofaði að koma honum á áfangastað....

En, fermingarföt ungherra eru í það minnsta í höfn og það er vel. Þess í stað finnst hvorki áritaða sálmabókin né servíetturnar í Blómavali! Arg. En, enn eru nokkrir dagar til stefnu og þau lofuðu öllu fögru...

Amen

 

 


Aaaaaalveg að verða kall!

Þarf nauðsynlega að vera á sirka billjón snúningum dag hvern til þess að dæmið gangi upp með sómasamlegum hætti. Fór loksins með Þór í fjögurra ára skoðun í dag fyrir vinnu, en það hefur marg frestast. Svo sem lán í óláni, þar sem við bara tókum fimm ára sprautuna með í pakkanum!

Barnið var viktað, hæðamælt, sjón- og hæfniprófað almenn. Almáttugur minn, ég er þess nánast viss um að hann getur keppt í Útsvari eftir, eða þá að minnsta kostið í Gettu betur, slíkar og þvílíkar voru spurningarnar og kúnstirnar sem hann þurfti að kljást við. En minn maður, glansaði í gegn og átti meðal annars eina af sínum gullslegnu setningum...

Hjúkrunarkona: Heitir þú bara Þór?

Þór: Nei, ég heiti Þór Sigurjónsson

Hjúkrunarkona: Áttu systkini Þór?

Þór: Já, eina systur. Hún heitir Bríet og er sjö ára. Svo annan bróður sem heitir Almar- hann er alveg að verða kall!

...jah-so! Gjemli, gjemli, enda að fara að fermast eftir nokkra daga!


Þorraþrællinn hann Þór

Þrumuguðinn minn sér mér og öðrum heimilismeðlimum algerlega fyrir þorralögum þessa dagana. Syngur og syngur og syngur. Hvert versið á fætur öðru. Hástöfum...

Annars skellti frökenin sér að sjálfsögðu á þorrablót Reyðfirðinga um helgina. Dansaði frá mér allt vit, frammistaða mín á dansgólfinu jafnaðist líklega á við einn tíma í ræktinni hjá Kristínu- sem eru BARA killer!


Bleikar tvíbökur

Í dag rigndi eldi og brennisteini. Allavega rigndi mikið. ROSAmikið. Bríet fór af því tilefni í pollagalla í skólann. Móðir og Þórs-barn sóttu hana síðdegis. Fengu Hafdísi vinkonu í kaupbæti, sem okkur finnst alltaf voðalega notalegt. Þær stöllur gegnu á móti okkur eins og gaurarnir í Dressman auglýsingunum, í skærbleikri "sjetteríngu", alveg eins pollagöllum...

Þór: Koma þær- tvíbökurnar. Neih, ég meina- tvíburasysturnar!


Alveg dragúldin...

Móðir greiddi dóttur. Nei. Byrjum aftur. Móðir gerði heiðarlega tilraun til þess að greiða í gegnum tröllslega úfið hár dóttur:

Bríet: "Ái! Áááái mamma"

Móðir; "Við verðum að greiða í gegnum þennan flóka. Þú ert alveg eins og Argentæta"

Bríet: "Áááááiiii!!!"

...Þór hefur haldið sig til hlés, staðið hjá og horft á...

Þór: "Bríet. Þá verður þú bara að vera úldin um hárið"

...úfin, úldin. Kemur kannski út á það sama?


Stærðin skiptir ekki máli! Eða hvað?

Allir kúldrast á náttfötunum hér í Tungu rétt í þessu. Eins og svo oft nú um jólin. Ég ákvað þó að klæða mig í fyrra fallinu, svona ef einhverjir afmælisgestir velta inn úr dyrunum hjá mér í dag...

Bríet og Þór eru að horfa á barnaefnið í stofunni. Þar er myndband milli teiknimynda. Með gaurunum úr Botnleðju, þar sem þeir syngja frumsamið barnalag. Heita Heiðar og Halli að ég held...

Þór ærist úr hlátri. Stekkur að sjónvarpinu og bendir....

Þór; "Hann er með skegg, þessi- samt er hann ekki kall!"

Bríet; "Víst er hann kall Þór."

Þór; "Nei, ég er ekki að meina þessi," (segir hann og bendir á Heiðar) "Ég er að meina ÞESSI," segir hann og bendir á Halla. "Hann er EKKI kall Bríet!"

Bríet; "Þór. Hann er víst kall. Hann er bara smá lágvaxinn!"

 


Ef ég nenni...

Nenni ekki að færa þetta blogg mitt. Nenni þó því síður að hafa það hér þar sem ég get aldrei sett inn myndir. Lofa að gera það eftir áramót. Síst nenni ég þó að bíða eftir SKÖTUNNI sem ég mun gúffa í mig á morgun - minn uppáhalds matur!¨

 


Dáldið mikið uppáhalds...


Söknuður

Þaut úr vinnunni til þess að sækja börnin mín. Var of sein þar sem ég sat fund allt til 16:00. Fargans. Þoli ekki að vera á síðustu stundu...

Byrjaði pikköppið í skólaselinu þar sem Bríet beið mín. Hún átti stefnumót við Hafdísi vinkonu sína og bað mig vinsamlegast vel að lifa og að skutla sér heim til hennar takk...

Næsi viðkomustaður var leikskólinn Lyngholt. Þar var Þór. Lísa Lotta, leikskólakennari og mamma Sebastíans, vinar Þórs tjáði mér að hann væri mikið búinn að biðja um að fá að heimsækja Sebastían eftir leikskóla. Það rímaði við beiðnir Þórs sama efnis heimafyrir. Þannig að, ég fór með öllu barnlaus heim úr "sækinu" - í það minnsta um stund...

Var nýlega komin heim úr búðinni þegar Lotta kom með Þór, sem missti kjarkinn með öllu þegar á hólminn var komið...

Mamma; "Þú ert nú meiri karlinn. Búið að langa svo mikið að leika við Sebastían."

Þór; "Já, ég vildi alltaf leika við hann. Svo þegar ég settist á stólinn, þá fór ég að hugsa um þig og saknaði þín svo mikið, og vildi bara fara til þín. Ég elska þig bara svo mikið."

...krúttað!

Pínulítill þrumuguð og mamma með sítt hár!

...í gamla daga!


Já, ég trúi á jólasveininn!

Hafi ég einhverntíman, af einhverjum þá undarlegum orsökum misst trúna á jólasveininn, þá hefur hún nú komið aftur með öllu!

Langaði svo rosalega á Frostrósatónleika í kvöld. Átti ekki miða. "Allir" að fara og ég í afar súru skapi og vorkenndi mér heil ósköp. Dem, dem, dem! Búin að fara á þessa tónleika mörg ár í röð, fyrst alltaf í Laugardalshöllinni þegar ég bjó í Reykjavík og svo hér fyrir austan. En nei. Í stað þess að fara og hlusta á fagra tóna klukkan 21:00 mátti ég sitja heima- eða þá frekar skúra og baka þar sem hér verður mikið sjö ára partý á laugardaginn...

Klukkan korter í átta, klukkutíma fyrir tónleika hringir síminn minn. Í honum var jólasveinninn, get svoleiðis Guð-svarið það! Sagðist hafa heyrt að mig langaði SVO að fara og hann vildi fús láta mig hafa annan miðann sinn! Meira fékk ég ekki að vita...

Himinlifandi þakkaði ég fyrir mig og fór af stað. Tónleikarnir voru hreint út sagt MAGNAÐIR. Hera Björk er algerlega einstök söngkona, að öllum hinum ólöstuðum- sem einnig voru alveg frábær. Bensín fyrir sálina, það er á hreinu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband