Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Inntökupróf í helvíti!

10 kílómertrar? Nei

Maraþon? Nei

Maraþon í 37 stiga hita? Nei

Fjallganga með 6 vikna vistir á bakinu? Nei

Að keyra blindandi aftur á bak hringferð um landið? Nei

Nákvæmlega. Held að það sé EKKERT erfiðara, ógerlegra eða viðbjóðslegra en að vera einn á barnavaktinni í eigin veikindum. Það er beinlínis ekki hægt. Nú ligg ég- gersamlega bakk í mínum árlegu marz-veikindum. Kinn- ennisholu "tannpínu" verkjum, sem fylgir krónískur svimi vegna þrýstings í höfði. Það lekur stanslaust úr augunum á mér, ég er með hita, beinverki og ljósfælni. Enda líklega á penesilíni eins og alltaf. Er þó hálf smeik við doksa þar sem hann hótar mér alltaf "aðgerð" því vandinn er krónískur- hótar mér að skola eða bora vandann út. Hljómar illa!

En það væri eitt og sér gerlegt að yfirstíga eigin veikindi ef ekki væri einstæða barnavikan samfarandi. Það segir sig sjálft að þegar maður stendur, og varla liggur undir sjálfum sér þá er eftirfarandi rútína með öllu ógerleg:

Klukkan slær fjögur- en frá þeim tíma og fram til hálf níu þarf eftirfarandi að gerast til þess að málin gangi upp:

  • Börnin sótt út um allan bæ (amma Jórunn bjargaði mér þar sem bíllinn minn er fastur í stæðinu, og nota bene, það er líkelga verkefni klukkutímans að troða stíl í rassinn á sér og fara út og moka)
  • Gefa að borða, allavega tvisvar fram að kvöldmat
  • Taka á móti vinkonum í heimsókn til dóttlunnar
  • Hugsa fyrir kvöldmat
  • Leysa deilur milli barnaskara ca einu sinni á hálftímafresti
  • Skeina þrumuguðnum reglulega
  • Setja í þvottavél
  • Taka úr þvottavél
  • Elda
  • Baða
  • Láta læra heima
  • Hátta
  • Bursta
  • Koma börnum í ból
  • Líklega 37 önnur atriði sem ég man ekki núna í ó-gleði minni!

    Ekki alveg jafn hress í dag!

Þessi listi er ærinn fyrir fullfrískan einstakling. En prófraun fyrir inngöngu í helvíti fyrir þann sem er mun nær dauða en lífi af flensu! Í ofanálag er frí í skólanum á morgun og einnig í leikskólanum á föstudaginn, fjandinn megi eiga það! Verkefni morgundagsins er að heyra í Guði almáttugum og biðja hann um að stofna stuðningsklúbb einstæðra mæðra í allskyns þrengingum! Vona svo sannarlega að það virki...

 


Viltu setja Bríeti á pásu!

Ekki er óalgengt að heyra Þór segja: "Mamma- viltu setja á pásu, ég er að fara á  klósettið" þegar hann og Bríet horfa á DVD seinnipartinn. Í kvöld var Bríet að lesa heimalesturinn fyrir mig og Þór sat hjá okkur. Hann skipuleggur mig enn inn í sínar klósettferðir þó svo hann gæti vel farið sjálfur að pissa. Ég sá útundan mér að hann var farinn að iða í stólnum og svo sagði hann:

"Mamma- viltu setja Bríeti á pásu, ég þarf að pissa!"

...pása og sælent, það væru kostir sem stundum væri gott að geta beitt á náungann!

Kúluvarparinn


Glitnir á hvolf!

Fór í bankann í dag. Glitni að ég hélt- hef greinilega dottið út úr fréttum síðustu daga. Fór til þess að ná í bauka fyrir krakkana, Latabæjarbauka sem mikil spenna var yfir að fá á heimilið. Kom heim með boltabauka því þeir tilheyra Íslandsbanka sem Glitnir er í dag! Bríet var ekki ánægð með afrakstur minn- vildi Latabæ. Ég reyndi að skýra þetta af fremsta megni...

Síðdegis í óðalsbýlinu Tungu:

Bríet: "Brósi. Veistu hvað?!"

Almar Blær: "Nei, hvað?"

Bríet: "Glitnir er farinn á hvolf og orðinn að einhverjum íslenskum banka í staðinn!"

...jú, svona er Ísland í dag!

Spekingurinn Bríet


Girls Just Want To Have Fun

...við stelpurnar ætlum að skemmta okkur ærlega annað kvöld! Er það ekki Hanna mín Seljan...


Já sæææææll! Ætlar þú að fara SVONA í vinnuna?

"Já sææææææll! Ætlar þú að fara svona í vinnuna?!??"

Þetta var það eina sem sonur minn siðgæðisvörðurinn gat sagt við mig þegar ég kom niður í morgun. Ég sem hélt að barnið væri vant eftir bráðum 13 ára samveru. Leiðist ferlega að vera eins og allir hinir, alltaf. Fór því í eldrauða kjólnum sem mamma var í á skrínardaginn minn, tónaði hátíðleikann niður með doppóttri, renndri hettupeysu. Þarna þótti honum móðir sín kær ekki feta stíginn af öryggi. Únglingurinn minn í skóginum...


Draumadrottningin!

Ohhh. Fæ þvílíka "flassbakkið" við að horfa á þetta myndband.

Hef alltaf verið Madonnufan, en aldrei sem á gullaldarárinu 1986, þá tíu ára! Þá fékk ég að kaupa mér BRAVO blað í tíu vikur í röð því að í hverju blaði kom bútur af goðinu. Höfuð, hné, fótur og hönd. Þegar allir hlutarnir voru í húsi raðaði ég þeim saman og úr varð Donnan- í fullri stærð. Í grænu netavesti og með 300 hálsfestar og túberða hár. Geðveik!


Skrifstofugúrúinn Bríet

Rétt í þessu:

Bríet: "Mamma. Ég ætla að vinna hjá Alcoa þegar ég er orðin stór"

Ég: "Já er það"

Bríet: "Á skrifstofunni. Ert þú ekki á skrifstofunni?"

Ég: "Jú- það er gaman, þá vinnum við saman!"

Bríet: "Neeeeei, þá verður þú orðin svo gömul"

...jújú...

Verðandi AlcoastarfsmaðurBara sæt...Alls ekki með sama augnlit félagarnir...


Sexý? Iiii, nei- frekar eins og Andrésína...

Ég þarfnast aðstoðar. Líður svipað og þegar maður er að reyna að muna eitthvað, nafn á lagi, manneskju eða einhverju öðru og það bara kemur ekki. Maður verður voða pirraður og hættir ekki fyrr en það er komið...

Þetta er ekki þess eðlis, snýst ekki um að ég muni ekki eitthvað- frekar að ég skilji allllllllls ekki! Sem sagt, getur einhver- bara einhver sagt mér af hverju gengjukynslóðin og einstaka stúlkur yfir tvítugu eru alltaf með stút á vörum á öllum myndatökum. Er það:

  • Sexý?
  • Flott?
  • Almennt hot?
  • Allt ofangreint?

Það bara getur ekki annað verið! Missti ég af einhverju? Hvað er þetta? Að skoða myndir á því merka samfélagi "fésbókinni" - þá virðist hreinlega bannað að láta þar inn mynd af þessum aldursflokki án þess að vera eins og önd í framan. Plís, viljið upplýsa mig, ráða gátuna svo ég geti farið að hugsa um eitthvað annað!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband