Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Komin í hjúkkugallann...

Grunaði ekki Gvend. Búðarmelurinn að breytast í sýklabæli. Hitapúkinn leysti fröken magapínu af, en unglingurinn liggur nú með lúgin og sjóðheit bein í bæli sínu. Ekki nema vika síðan hann var með svo mikla ælu að í eitt skiptið náði ég ekki að skutla mér eftir fötunni, aðeins kattasandskassanum!

Þrumuguðinn hóstar eins og hann fái 5000 kall fyrir hvern almennilegan hósta. Alveg greit! Í takt við allt saman...

Almar Blær: "Manstu þegar það var alltaf verið að tuða- og búa mann undir heimsendi? Það var bara undirbúningur fyrir þetta allt. Landendi!"

Já, menn eru þenkjandi þó aðeins 12 ára séu! Ætlaði að leysa ykkur út með snjómyndum frá því í gær en Canon er með stæla og vill ekki deila myndum. Hún er kannski líka með byrjandi flensu!


Snúum bökum saman

Alcoa Fjarðaál hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2008. Við tókum á móti verðlaununum í Rúgbrauðsgerðinni. Um 28% allra starfsmanna okkar eru konur, 34% í framleiðslustörfum og 27% í framkvæmdastjórn. Þetta er besti árangur sem náðst hefur innan Alcoa samsteypunnar og sennilega er um heimsmet í áliðnaði að ræða...

 Fjarðaálshópurinn

Ég hef setið sem formaður/kvinna jafnréttisráðs fyrirtækisins frá upphafi. Það var voða gaman hjá okkur á föstudaginn var...


Viðskiptahugmynd2

Staður: Alcoa- Suðurlandsbraut

Stund: Nú rétt í þessu

Ég gekk um gólf hér fyrir hálftíma vegna óstjórnlegrar sykurlöngunar. Fimm mínútum síðar kemur annar félagi inn, vopnaður vínarbrauðslegju. Þeinks god, þeinks god- morgninum bjargað...

Morgunkaffisamræður í eldhúskrók:

Starfsmaður1: "Krissa, hvaða búð er verið að opna hérna niðri, í plássinu sem Edda útgáfa var?"

Ég: "Sýnist það vera svona heilsu-eitthvað. Lífrænt ræktaðar baunir og safar, svona annað Maður lifandi fyrirtæki."

Starfsmaður2: "Hvernig væri að stofna Maður deyjandi fyrirtæki? Selja steiktar kótilettur, löðrandi í smjörlíki?"

...já, það er spurning. Allavega viðskiptahugmynd... 


Að ferðast aftur í tímann, það er ekkert mál!

Hugur manns er magnað fyrirbæri. Engin þörf er fyrir tímavél eða aðra tækni. Nóg er að finna lykt, heyra lag eða fara í ákveðnar aðstæður þá kallar það fram ákveðnar minningar, góðar eða slæmar. Heimsótti góðan fjölskylduvin á Borgarsjúkrahúsið í gær. Þegar ég var að hringsóla á planinu eftir stað til þess að leggja áttaði ég mig á því að ég hef aldrei komið þangað eftir andlát pabba árið 2000, en þá var ég þar daglegur gestur í heilan mánuð...

Þegar ég kom svo inn í anddyrið og upp í afgreiðsluna skipti engum togum með það að ég skutlaðist átta ár aftur í tímann. Fannst ég stödd þarna 24 ára. Upplifði hrollinn, hnútinn í maganum, kvíðann eftir framhaldinu- allt á einu sekúndubroti. Magnað...

En þrátt fyrir það var gott að hitta Jónu og Höllu, já og auðvitað kyssa Kjartan á ennið og hvísla að honum að standa sig eins og hetja, alveg eins og ég gerði alltaf við pabba. Verð að skjóta myndinni af þeim vinunum, pabba og Kjartani ásamt þeirra heittelskuðu, mömmu og Jónu aftur hér inn...

Mamma, Jóna Hall, pabbi og Kjartan á hjónaballi

 


Af fiskibollum og snjóstormi

Hvað með að byrja á skötuhjúunum...Þrumuguð í þungum þönkum...

Enn ein helgin liðin. Þær þjóta hjá blessaðar. Til allrar lukku þykir mér einstaklega gaman í vinnunni þannig að mér líkar einnig vel við mánudagsmorgna! Set hér inn helgina í myndformi...

 

Það varð nú að pósa smá...Bríet í ömmufjöruBrasibrasAmma Jóna og Blæsinn...Bríet fann fjöður...Almerkasti fundurinn...Fiskabeinagrind! Þór var agndofa...

Brunuðum á Stöddann þar sem amma Jóna var búin að landa 6 kílóum af þorski í bollugerð, dugleg kerlan! En við byrjuðum á því að fara í fjöruna. Vopnuð dósum og stækkunargleraugum, í von um að finna einhverjar skemmtilegar pöddur...

Ummm...

En það var engin beinagrind í ömmu eldhúsi! Ne, hei- þar voru bara bollur í fjöllum...

Bríet í ömmubaðiGaur

En svo var voða gott að baða sig eftir átökin...

Blá sykurepli!Þau gerðu tunguna alveg bláa!

Við klesstumst líka með Nóna og co. Hanna framkvæmdi gjörning sem sló í gegn- bauð upp á bláklædd karamelluepli!

Töffarinn minn!

Krakkarnir notuðu veðrið til þess að fara út að leika, fyrsti snjórinn er alltaf vinsæll...

 Sko bara...Þetta lofar bara góðu...Skáááál í boðinu baraObbosí, smá síróp!En lumman er bara betri eftir

...á meðan græjuðu mæðurnar lummuboð fyrir svanga maga og rjóðar kinnar!


Þjóðleg helgarplön...

Var með þjóðleg- og stór plön fyrir helgina. Ætlaði, já og ætla að pakka liðinu niður í tösku og fara til mömmu. Áformaði að taka slátur, gera fiskibollur og byrja á lopaeysunni sem mig langar svo mikið í. Af þessum þremur arfa smörtu atriðum stendur aðeins eitt eftir...

...búið er að redda fiski í bollufjall en mamma talaði mig af því að gera slátur, sagði það barasta ódýrara að kaupa það ósoðið í Bónus. Ég lét segjast. Náði svo því miður ekki að spá í uppskrift af peysunni þannig að ég get ekki byrjað á henni, það er DEM!

En, semsagt, það er fiskibollugerð, fjöruferð og almennt hang og kless á helgardagskránni. Næs. Lofa að taka myndavélina með að vanda...


Tásunudd í skammdeginu

Blautur og kaldur dagur. Hrollur í manni. Náði í krakkana og við fórum beint heim og lögðumst saman og horfðum á Bubba byggir- alltaf góður. Fengum okkur kakó og höfðum það næs. Nuddaði svo tásurnar á þeim með olíu fyrir svefninn, en það þótti þeim sérdælis huggulegt...

Tær þrumuguðsins

...Þórs tásur hafa aðeins stækkað síðan á fæðingardeildinni


Partýkofi!

Vó, það verður fjölmennt í kartöflukofanum. Frábært. Hugmynd ódýrri kvöldvöku...

  • Skemmtan: Kveðskapur, húslestur úr Línu langsokk. Kannski líka leikurinn "hvað ætlaðir þú að gera við peningana sem þú tapaðir í kreppunni?" Eða nei annars...
  • Veitingar: Kartöflur í öllum myndum, sláturkeppur, reyktur marhnútur, þang og grillaður máfur

Kristín Björg, Jenný Anna, Hlín og Eygló. Það er mæting á Reykjavíkurflugvelli klukkan 7 í fyrramálið. Ómar ætlar að skutlast með ykkur á Frúnni...

Hlakka til að sjá ykkur

 


Lögheimili: Kartöflukofinn á Stöðvarfirði

Eins og margoft hefur komið fram er ég sveitalubbi að upplagi. Ólst upp á Stöðvarfirði þar sem þögnin var svo mikil að árniðurinn truflaði höfuðborgarbúa sem fengu gistingu á ferð sinni um landið. Bílaumferð var ekki mikil og hvað þá flugumferð. Man einu sinni að sumarlagi þegar Ómar Ragnarsson flaug yfir á Frúnni og ég fékk algert fælniskast, hélt það væri að skella á stríð og langaði að loka mig inn í kartöflukofanum hans pabba!

Mér líður svolíðið eins þessa dagana. Langar að fara með krakkana og loka mig inni í kartöflukofanum í brekkunni. Taka með Lúdó og allar bækurnar eftir Astrid Lindgren. Ekki hlusta á fréttir eða hvað þá síður hitta annað fólk, þar sem kreppufrítt svæði virðist ekki vera til...

Læt þessa fylgja með...

Skvísur á góðri stund

...vinkonurnar Freyja og Bríet í sveitinni í sumar. Þær eru ekki í nokkurri einustu kreppu! 


Köttur í leikskólahólfi?

Staður: Forstofa Búðarmels

Stund: Í morgunsárið

Stemmning: Drama

Þriggja ára afmælisprins!

Þór: "Vitt ekki fara í leikgólann"

Ég: "Þú ert alveg að komast í helgarfrí ástin mín, það er kósíkvöld hjá pabba og svona"

Þór: "Vitt taka gisu með í leikgólann!"

Ég: "Nei, það gengur ekki, það má ekki vera með kisur á leikskólanum"

Þór: "Jú, geym'ann bara í hovvinu mínu"

...jú, áætlað var að Sútur sæti eins og bangsi í fatahólfinu hans Þórs í allan dag. Það má kannski athuga það!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband