Færsluflokkur: Bloggar

Á Lagi-stöðinni...

Nú rétt í þessu...

Bríet og Þór hafa tekið undir sig alla neðri hæðina, báðar stofurnar, forstofuna, borðstofu og gang. Það er mömmó í gangi...

Bríet er mamman og hefur fullt í fangi með að huga að litla barninu sem ýmist er verið að drusla inn eða út úr vagninum. Ekki ólíkt henni sjálfri sem svaf aldrei nema tíu mínútur í einu...

Þór er pabbinn en hann hefur aftur á móti ekki nokkurn tíma til þess að sinna afkvæmi sínu, en gengur um allt stórum skrefum- með sólgleraugu, vinnuhanska og verkfæratösku. Gleymir sér aðeins um stund og kallar á mig;

Þór; "Mamma!"

Ég; "Já"

Þór; "Viltu hjálpa mér aðeins. Ég get ekki lokað þessari hurð en ég þarf að gera það af því að minns var að koma heim úr vinnunni"

Ég; "Já, ekkert mál. Hvar vinnur þinns?"

Þór; "Á Lagi-stöðinni. Þar er allt að gera. Svo er minns bakari líka"

...já, já, já, já- það er best að halda sig í eldhúsinu, en það er eini staðurinn sem er nokkuð seif þessa stundina!

_____________________

Annars er ég á leið í jarðaför, að kveðja hana Fríðu mína. Þar er gengin dásamleg kona og sú langmesta dama sem ég hef nokkurntíman kynnst. Hvíl í friði...

 


Bríet veit hvað hún spilar!

Fór á tónleika í tónskólanum áðan, þar sem Bríetin mín spilaði Glettinn máni á gítar, bara snilld. Kvenskörungurinn minn hafði auglóslega náð alveg ágætis samningüm við gítarkennarann sinn í síðasta tíma því opnunarorð hans voru þessi;

"Jæja, komið þið sæl- okkur er ekkert að vanbúnaði og skulum bara byrja. Bríet hefur beðið um að vera fyrst í dag og afþakkaði með öllu að ég spilaði með henni, en hún ætlar að spila alein..."

Bríet veit hvað hún syngur- já og spilarWink

Annars...

...bíð ég óspennt eftir svínaflensunni sem virðist vera algerlega á næstu metrum, en fólk er farið að falla allt í kring!

...bíð ég afar spennt eftir jólaskemmtuninni í vinnunni sem verður 14. nóvember!

 


Gengið á Guðsvegum

Samstarfsmaður minn sagði við mig um daginn; „Og hvenær fer ég svo að merkja breytingar á þér Krissa mín?“ – og vísaði þá til þess að ég er búin að verma kirkjubekkinn tvo sunnudaga í röð. Já, nú göngum við Almar Blær á Guðsvegum í allan vetur, förum með trúarjátinguna og raulum Jesú bróðir besti í sunnudagaskólanum. Sem tilvonandi  móðir fermingarbarns fylgi ég honum að sjálfsögðu eftir í þessu feril...

Þó svo ég gangi aðeins með mína barnatrú í brjósti, sem snýst að mestu um að trúa á hið góða, hvað sem það nú er- finnst mér ótrúlega gott að koma í krikju. Ég er ekki frá því að ég komi örlítið betri manneskja þaðan út en ég fór þar inn. Finnst það ekki snúast um Guðsorð, heldur bara andrúmsloftið þar almennt, þar er einhver friður og ró sem er ekki þarna úti. Einhver           x-faktor sem er vandfundinn í daglegu lífi...

Lokaði augunum í messunni um síðustu helgi og var þá á augabragði orðin sex ára, liggjandi á kórloftinu í litlu, gömlu kirkjunni á Stöðvarfirði- með skakkt tagl og í smekkbuxum. Mamma og pabbi sungu í krikjukórnum og amma Jóhanna og afi Oddur unnu að krikjunni, í húsvörslu og meðhjálpun. Ég teiknaði hús á meðan kórinn æfði sig, en hönnun hefur verið mitt áhugamál frá blautu barnsbeini. Kirkjudvöl mín í barnæsku varð líklega til þess að ég er eins mikill sálmanörd í dag og raun ber vitni, en mér finnst fátt eins fallegt og fallegir sálmar sungnir af góðum kór...

En í vor, nánar tiltekið 1. apríl - fer líklega um mig gæsahúð af geðshræringu þegar frumburður minn gengur upp að altarinu á sjálfan fermingardaginn. Stór dagur, stór strákur. Þó þykir mér kannski það merkilegasta í þessu öllu saman að mér finnst ég nýfermd, nánast um síðustu helgi. Tíminn líður ansi hratt...

...en, er alvarlega að spá í að skipta um bloggvang, færa mig eitthvað þar sem mögulegt er setja inn myndir samhliða færslum eða þá bara einar og sér, finnst þetta óþolandi sístem hér!


Af snaróðum sjóræningjum!

Ef þið hélduð að í Tungukoti hefðu aðeins aðsetur ein mamma, þrjú börn og einn köttur- þá er það mikill misskilningur. Á degi hverjum dúkka upp hinir ótrúlegustu hliðar-ábúendur. Ósýnilegir leynivinir, talandi hundar, extra-pabbar, extra-mömmur, minns, þinns og okkas. Á stundum koma við hinir ferlegustu sjóræningjar, sumir þeirra svo grimmir að ég þarf að sofa við ljós eftir...

Staður: Leiksviðið í innri sfofunni í Tungukoti

Stund: Sunnudagur, eftir mjaltir

Persónur og leikendur:

  • Sjóræningi 1; Þór
  • Sjóræningi 2; Sebastian Andri

Félagarnir dunda sér í stofunni. Húsmóðir er reglulega kölluð til í betri stofuna, vinsamlegast beðin um að fá sér sæti og njóta leikhússins. Á dagskránni eru ýmis verk, en þó fer aðalpúðrið í að æfa hneigingar, sem er jú stór hluti listarinnar!

...þegar áhorfandi hefur laumað sér frá heyrir hann útundan sér að hann er í þann mund að missa af dramantískustu senu dagsins;

Sjóræningi 1; "Vinur. Hvað eigum við að hafa í matinn?"

Sjóræningi 2; "Börn!"

Sjórængin 1; "Já, það er góð hugmynd sjóræningi. Grillum þau!"

...úff, úff, úff. Nei, það er ekki alltaf friðsælt í Tungu!


Af barnamergð og væntanlegri kirtlatöku

Sunnudagur. Sunnudagur, plús það að eiga verðandi fermingarbarn merkir kirkjusókn. Únglíngur þurfti að snara sér fram úr bæli sínu mun fyrr en aðra helgidaga til þess að hjálpa til við sunnudagaskólann. Ég fór með litlu grísina á eftir honum- við verðum orðið verulega vel upp alin í vor...

Fór með tvö börn í skólann en kom heim með fjögur. Stuð. Vinkonu fyrir Bríeti og vin fyrir Þór. Síðan þá hafa tvær vinkonur bæst í hópinn þannig að mér telst til að ég sé þessa stundina með sex börn, sjö ára og yngri á mínu framfæri. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta félagasamsull gengur alltaf vel en mér finnst mun auðveldara að vera með ofmannað en undirmannað í þeim efnum...

Sjálf er ég þó drulluslöpp. Má ekki fá ungbarnakvef þá er ég orðin lasin. Fer allt beina leið í kinnholurnar á mér og til hátíðabrigða umbreytist allt í streptokokka. Stökk á tækifærið um daginn og fór til háls-nef og eyrnalæknis þegar hann var staddur hér í fjórðungnum. Sagði mínar farir síðustu ára verulega ósléttar. Að ég tæki yfirleitt ca þrjá til fjóra penisilínkúra á vetri. Hann sagði að kirtataka væri málið, en það væri þó eitthvða sem ég yrði algerlega að gera upp fyrir mig hvort ég væri tilbúin í;

Læknir; "Já, samkvæmt sögunni þinni þá eru þessir kirtlar ekki að gera neitt nema að þvælast fyrir og rúlega það. Það er ekkert mál, ég get tekið þá í vetur- en ert þú tilbúin í það?"

Ég; "Tilbúin í það? Mér finnst ég svosem ekki hafa mikið val um það, ekki get ég torgað fjórum pensilínskömmtum á hverjum vetri, er það?"

Læknir; "Nei, kannski ekki, en ég vil samt vara þig við. Í fyrsta lagi er þetta ógeðslega vont. Í öðru lagi er þetta ógeðslega vont. Og í þriðja lagi er þetta ÓGEÐSLEGA vont! Það kemur fullorðnu fólki alltaf á óvart hvað þetta er mikil pína að ganga í gegnum"

...ó jesús. Svo talaði doksinn um blæðingahættu viku eftir aðgerð og að ég myndi hvorki hreyfa legg né lið í 10 daga á eftir, heldur bara vera í bómull og fullri þjónustu. Bless vinna og bless kúltúr einstæðrar móður- í tíu daga frá aðgerð þá tek ég hvorki slaginn minn í slaginn minn í vinnunni eða sinni hlutverki á við tvo fullorðna eins og ég geri hér á heimili mínu...

...en. Held ég verði að láta slag standa. Bara taka ofurhetjuna á þetta og freista þess að ég fái bót meina minna. En óskemmtilegt verður það, það veit bæði Guð og læknirinn!


Vantar einhvern gallabuxur? Ekki Bríeti í það minnsta...

Fatasöfnunarpoki Rauða krossins er kominn í hús. Bríet spurði af áhuga hverju sætti, hvað ætti að gera með þennan poka. Ég svaraði því til að ef menn væru aflögufærir um fatnað, ef eitthvað væri í skápunum sem við myndum aldrei nota þá ættum við frekar að setja fötin í pokann og skila honum til Rauða krossins og þaðan færu þau til fólks sem þyrfti á þeim að halda...

Bríet; "Já, svoleiðis. Þá skulum við gefa allar gallabuxurnar mínar. Mér finnst mjög óþægilegt að vera í gallabuxum."

...annars langar mig helst að gefa allan fataskápinn minn til Rauða krossins þessa dagana. Langar frekar að ganga um nakin en í nokkru úr honum. Það er eins fallegt að NIKITA-sendingin mín http://nikitaclothing.com/ sé rétt handan hornsins. Jibbí...

 


Smíðavinna í stað útihlaups, kemur vonandi út á það sama...

Ja- hér snjóar í fjöll! Fari það í logandi. Fannst það næg afsökun til þess að fara ekki út að hlaupa aftur í dag. Veit, ég veit- ekki góð afsökun...

...hef mér það til málsbóta að ég skúraði allt og smíðaði upp eina jólaseríu. Kósí...

 


Næ varla sixpakkinu fyrir septemberlok...

Í góðu formi? Tja, látum okkur sjá! Iii, nei! Fór út að hlaupa áðan, um leið og ég kom heim úr vinnunni. Hljóp í 20 mínútur og gerði svo 100 magaæfingar. Líður eins og ég hefði hlaupið heilt maraþon og svo farið í tugþraut á eftir!

Það er allt í lagi fyrir mig að fara að koma mér í form, því ekkert bólar á sixpakkinu sem ég auglýsti fyrir mínum tæpu 1000 lesendum í heilsublaði Álpappírsins að ég ætlaði að ná fyrir septemberlok! Ég hef enn nokkra daga til stefnu...

 


Helgarfríííííííí....

Hvað er að þessu dévítans myndasístemi hér! Arrrrgggg...

Hef aldrei hlakkað eins mikið til þess að fara í helgarfrí og núna. Leiðinda vinnuvika að baki- get ekki beðið eftir að lenda á Reykvískri grundu seinni partinn á morgun. Jesús minn...

 


Fjögurra ára þrumuguð

Ungbarnið mitt er fjögurra ára í dag. Örverpið sem jafnframt ber titilinn Þrumuguðinn í vina og fjölskylduhóp...

"Heitir hann bara Þór" spurði almenningur gjarnan í forundran yfir almennri nísku foreldranna í nafngiftum. Það þótti ræfilslegt með afbrigðum. Aftur á móti þykir mér þriggja stafa nafnið RISAstórt, alveg eins og hann sjálfur þó smár sé...

...kúturinn sá myndi leikandi stjórna heilli herdeild.  Ákveðinn, veit hvað hann vill en þykir þó fátt bera en að kúra í hlýju fangi og segir þá gjarnan eitthvað voða fallegt...

Þór; "Ég elska þig mamma, en líka Tönju- því hún er svvvvvo mikið krútt"

Elsku kúturinn okkar, innilega til hamingju með daginn þinn- hibbhibbhúrra! Mamma, Almar Blær, Bríet og að sjálfsögðu Stúfur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband