Tungan mín...
21.11.2008 | 13:18
Það er nú aldeilis hvað sunnlendingarnir mínir hafa heppnina með sér í dag. Haldið ekki að mér hafi áskotnast mynd af Tungu- frá vini mínum Hreini Magnússyni ljósmyndara...
Þetta er setrið, við verðum á hæðinni og með risið. Eins og staðan er núna eftir hádegi á föstudegi er íbúðin mín hin full af dóti, ég er ekki búin að pakka niður í einn einasta kassa en Tunga er galtóm. Á sama tíma á morgun ætla ég að vera búin að koma öllu dótinu mínu þangað og koma mér fyrir seinnipartinn! Og hana nú...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Lömunarveiki?
19.11.2008 | 18:39
Vá hvað ég er glötuð í fréttaflutningi! Alveg! Nóg er um að vera, það vantar ekki. Markaðurinn gekk vel, stemmningin var mjög skemmtileg og salan bara fín. Reyndar var töluvert um "innanhússviðskipti" en frökenin kom heim með kjól, tvö pils, vesti, skó og stígvél! Ussuss...
Við erum að flytja! Aðeins innanbæjar þó. Gamall draumur minn er að rætast því alltaf þegar ég kom hingað í sumarfrí spurði ég tengdaforeldra mína þessarar spurningar: "Er Tunga til sölu?" Tunga er gamalt og sjarmerandi bárujárnshús með sál. Ég verð á hæðinni og í risinu með gormana mína þrjá, dámsemd bara. Ætla að koma mér þangað inn um helgina þannig að Bríet heldur upp á 6 ára afmælið sitt í töluvert eldra húsi! Það magnaðasta er að þetta er fjórða húsið sem ég flyt í á Reyðarfirði á þessum tæpu tveimur árum og öll- já öll eru þau númer 12b! Ekkert grín...
En læt fylgja með mynd af okkur síðan á fjölskyldudegi sem teymið mitt stóð fyrir um daginn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Allt til sölu, kostar eina tölu...
12.11.2008 | 17:58
Mig hefur alltaf langað til þess að halda alvöru flóamarkað. Það er eitthvað við það, einhver stemmning! Er búin að hugsa um þetta lengi og þegar hugsunin var farin að ásækja mig verulega í haust ákvað ég að framkvæma hugmyndina. Hóaði í nokkrar flottar stelpur og bar hugmyndina undir þær...
Hugmyndin gekk lengra og varð loks hluti af menningardagskrá Fjarðabyggðar, Myrkrum dögum sem ná hápunkti nú um helgina. Stúlknahópurinn Flærnar ætla að njóta þess að vera til á föstudagskvöldið og langar að bjóða ykkur að gera slíkt hið sama. Einnig hvet ég ykkur til þess að framkvæma draumana ykkar, stóra sem agnarsmáa eins og þennan...
Flærnar selja af sér hverja spjör...
Segjum kreppunni stríð á hendur!!
Alvöru flóamarkaður verður haldinn á Dögum myrkurs, föstudagskvöldið 14. Nóvember á Fjarðahóteli Reyðarfirði milli klukkan 18:00-22:00
Ekki láta þetta fram hjá þér fara! Ótrúleg verð, en einungis verða fimm verð í gangi, 500kr, 1000kr, 2000kr, 2500kr og 3000kr
Þægileg kaffihúsastemmning verður á staðnum.
AÐEINS VERÐUR TEKIÐ VIÐ PENINGUM, EKKI GREIÐSLUKORTUM
Hlökkum til að sjá ykkur
Flærnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Skvísukvöldið ógurlega...
11.11.2008 | 21:53
Var frábært, enda félagsskapurinn með eindæmum skemmtilegur. Skemmst er frá því að segja að ég vann ekki lagakeppnina eins og ég ætlaði mér, en landaði í staðinn góðum titli- "mannþekkjari kvöldsins" og er frekar ánægð með það, þekki þessar stelpur greinilega út og inn- en ég paraði saman lag og eigandi 7 sinnum af 16 lögum!
Hér erum við, hljótum að vera fríðasta teymið innan Alcoa samsteypunnar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tíu, níu, átta, sjö...
7.11.2008 | 19:22
Enn vikan enn búin. Þetta er með ólíkindum. Það er alltaf föstudagur. Er ekki með krakkana um helgina, þau koma til baka á þriðjudaginn. Hálf undarleg líðan þegar ég skila þeim- finnst ég þurfa tíma til þess að ná mér niður á það plan...
Skvísuhittingurinn ógurlegi er svo á morgun. Spenningurinn hefur verið að magnast innan veggja "620" eins og skrifstofubyggingin okkar kallast. Kjólapælingar koma á móti algerri þögn um lagaval! Enginn má segja, allir verða að þegja!
Hér verða vonandi myndir eftir helgi- þó svo að fuglaljósmyndarinn okkar hafi forfallast...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á eftir bolta kemur barn?
6.11.2008 | 00:15
Staður: Aftursætið á lögguFordinum
Stund: Á leiðinni heim í dag
Persónur og leikendur: Þór og Bríet
Þór: Rakemma er með risadóran maga! (Rakel Emma er þriggja ára)
Bríet: Nú, er hún kannski með barn í maganum?
Þór: (viðbjóðslega hneikslaður) Neih! Fótbolta!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hjálp óskast!
3.11.2008 | 22:52
Þá er ég ekki að tala um út úr kreppunni, læt mér ekki detta í hug að nokkur geti það- frekar en sjálfum sér. Nei, nei- við erum að tala um allt aðra og skemmtilegri uppákomu...
Við stelpurnar í vinnunni ætlum að hafa það viðbjóðslega gaman á laugardagskvöldið. Alveg. Blásið verður til skvísupartýs aldarinnar hér í bæ og nefnist viðburðurinn Óskalagakvöld Guðnýjar Bjargar! Fer það þannig fram að hver og ein okkar á að koma með þrjú lög, brennd á disk og láta plötusnúð kvöldsins hafa. Skvísurnar ógurlegu gefa hverju lagi stig meðan þær sötra eina umferð af "Móhító" og aðra af Cosmó! Þegar allt verður reiknað saman af stigaverði, sem jafnframt er plötusnúður, verður kona kvöldsins krýnd ásamt því sem furðu/skemmti-legasta lagið verður valið...
Ég er í veseni. Er geld fyrir lagavalinu, en það meikar ekki sens! Nefnið þrjú sigurstrangleg lög því markmiðið er að rústa þessari keppni! Ef ekki ykkar hjálp, þá að handan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hákarl var það heillin...
2.11.2008 | 22:32
Fjölskyldudagur í vinnunni í gær. Var með þónokkrar efasemdir um aðstæður, enda allir hálf lumbraðir eftir veikindin, auk þess sem rokið var í afar miklu stuði! Endaði með því að troða gullmolunum í spjör á spjör ofan og hélt af stað...
Dagurinn var í alla staði vel heppnaður. Við fórum í fjárhúsin, gamla Randulfssjóhúsið á Eskifirði, sprelluðum í íþróttahúsinu, fórum í sund og að lokum var grillað ofan í mannskapinn í Randulfssjóhúsi. Mesta athygli vakti klósettaðstaðan sem sjómennirnir notuðust við hér í denn, en það var hleri ofan í opið hafið! Þetta þurfti að sýna aftur og aftur þó svo enginn hafi fengist til þess að hafa almennilega sýnikennslu...
Við elstu mæðgin héldum uppi heiðri fjölskyldunnar í hákarlinum í sjóhúsinu, en Bríet og Þór létu sig þó hafa það að smakka- við lítinn fögnuð bragðlauka þeirra! Sýnist á öllu að ég þurfi að bíða eitt ár enn með að hefja almennilega skötuþjálfun...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komin í hjúkkugallann...
29.10.2008 | 23:06
Grunaði ekki Gvend. Búðarmelurinn að breytast í sýklabæli. Hitapúkinn leysti fröken magapínu af, en unglingurinn liggur nú með lúgin og sjóðheit bein í bæli sínu. Ekki nema vika síðan hann var með svo mikla ælu að í eitt skiptið náði ég ekki að skutla mér eftir fötunni, aðeins kattasandskassanum!
Þrumuguðinn hóstar eins og hann fái 5000 kall fyrir hvern almennilegan hósta. Alveg greit! Í takt við allt saman...
Almar Blær: "Manstu þegar það var alltaf verið að tuða- og búa mann undir heimsendi? Það var bara undirbúningur fyrir þetta allt. Landendi!"
Já, menn eru þenkjandi þó aðeins 12 ára séu! Ætlaði að leysa ykkur út með snjómyndum frá því í gær en Canon er með stæla og vill ekki deila myndum. Hún er kannski líka með byrjandi flensu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Snúum bökum saman
28.10.2008 | 07:39
Alcoa Fjarðaál hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2008. Við tókum á móti verðlaununum í Rúgbrauðsgerðinni. Um 28% allra starfsmanna okkar eru konur, 34% í framleiðslustörfum og 27% í framkvæmdastjórn. Þetta er besti árangur sem náðst hefur innan Alcoa samsteypunnar og sennilega er um heimsmet í áliðnaði að ræða...
Ég hef setið sem formaður/kvinna jafnréttisráðs fyrirtækisins frá upphafi. Það var voða gaman hjá okkur á föstudaginn var...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)