Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Símamyndir

Haldið að ég hafi ekki loksins lært að færa myndir úr símanum mínum yfir á tölvuna, daginn sem ég hætti að nota hann! Þar var ýmislegt góss, til dæmis þessi hér- vinkonur í góðu standi á árshátíð Alcoa í apríl...

Krissa og Elísabet


Autt blað og engin gisting!

Veit ekki hvað gengur að mér, dettur bara ekkert í hug til þess að blogga um. Það sem meira er, ástandið hefur varað í marga daga, en það er ekki oft sem mér verður orðavant!

Annars er ég að fara í vinnuna eftir viku frí. Ji hvað er gott að stimpla sig aðeins út, sérstaklega þar sem ég hef átt einstaklega annríkt í vinnunni upp á síðkastið. Það verður samt gott að komast aftur og láta til sín taka, en það er auðvitað ófært að blaðakonan bregði sér af bæ í viku!

Annars vaknaði ég upp við verulega vondan draum í gær. Það eru aðeins nokkrar vikur, já líklega fjórar í mesta lagi þar til ég fer með fótboltaprinsinn á N1 mótið á Akureyri og ég er ekki farin að huga að gistingu fyrir okkur tvö! Held það sé ekki alveg í lagi með mig hreinlega. Þetta er alltaf RISAstór fótboltahelgi og öll gistipláss frátekin strax í janúar! Ég sem nenni ekki að vera í tjaldi, demit! Þannig að norðanmenn, ykkur er algerlega velkomið að benda mér á eitthvað "falið" gistihús sem mögulega væri hægt að fá inni þessar nætur, fyrstu helgina í júlí! Komma so...

Hart tekist á um boltann...Flottastir


Það er hornsteinninn að elska sjálfan sig!

Alltaf hress!Mánagata 12. Nú rétt áðan. Háttatími. Lestur yfirstaðinn, Þór á leiðinni á stefnumót við Óla lokbrá. Ég kyssti stubbinn og sagði;

Ég: Góða nótt karlinn minn. Ég elska þig

Þór: Já, é ekka mi líga!

...æi, bara sætt!


Kínverskur Ítali

KínamúrinnMig langar svo til Kína. Það er stóri draumurinn. Ég veit ekki af hverju mig langar þangað frekar en eitthvað annað. Það er bara eitthvað sem heillar mig við landið þó svo ég hafi aldrei komið þangað. Kínamúrinn er mannvirki sem ég hlakka mikið til að sjá...

ComoEins með Ítalíu. Hef líklega verið Ítali í fyrra lífi. Þegar ég verð "stór" ætla ég að eiga lítið hús við Comovatnið. Drekka rauðvín og mála. Það verður bara dásamlegt...  


Bara flottur!

Dugnaðarforkur- dálítið mikil sól svona...Færsla dagsins er einnig tileinkuð frumburðinum. Í kvöld voru skólaslitin og Almar Blær fékk umsóknirnar sínar í hendur. Þær voru einkar glæsilegar eins og hans er von og vísa. Hann hefur alla tíð verið svo jákvæður og ánægður í skólanum og ég tel að það skili honum svo mikilli velgengni. Set inn nokkrar af umsóknunum- sérstaklega fyrir Önnu Kristmundsdóttur, "gamla" leikskólakennarans sem lagði grunninn! Þess ber að geta að það er ekki sami kennarinn sem gefur umsóknir þannig að hann er allsstaðar að vekja lukku!

Lestur: "Þú tókst framsagnarpróf nú í vetur. Þú ert frábær lesari, með rétta áherslu, góðan framburð, þagnir á réttum stöðum og umfram allt sýnir þú góða leikræna tilburði. Haltu áfram á sömu braut."

Stærðfræði: "Þú hefur góðan skilning á stæðrfræðinni og góða rökhugsun. Þú ert vinnusamur og sjálfstæður í vinnubrögðum. Heimavinnuskil eru til fyrirmyndar. Einkunn 9,0.

Enska: "Þú ert framúrskarandi námsmaður í ensku, með góð tök á öllum færniþáttum tungumálanámsins. Það er mjög ánægjulegt að vinna með þér, þú ástundar námið af kappi og sýnir því áhuga."

Lífsleikni/félagsfærni: Viðfangsefni vorannar var vinátta, samvinna, traust og umburðarlyndi. Þú tekur virkan þátt í umræðum og ert duglegur í allri verkefnavinnu. Þú tekur fullt tillit til annarra og ert mjög réttsýnn. Lífsgleði þín og jákvætt viðhorf smitar út frá sér og fyllir aðra orku og bjartsýni."


Afmælisviðbót!

Heiti pistilsins er innihald efnisins. Mætti halda að húsfrúin hefði verið að halda sitt allra fyrsta barnaafmæli en ekki það nítjánda í röðinni (Almar Blær 12, Bríet 5 og Þór 2), svo mikil var misreiknunin! Jafnvel mætti halda að um generalprufu hefði verið að ræða. En hvað var málið. Jú, á gestalista voru 10 "litlir" strákar. Já, nei. Skrifum þessa aftur. Á gestalista voru 10 stórir strákar, allavega strákar með stóra maga. Maga á við flóðhesta...

Ég fór saklaus sem blóm að versla fyrir veislu í dag. Keypti í tvær stórar pizzur sem ég taldi akkúrat passlegt. Snakk og nammi að auki, fimm lítra af gosi og auk þess beið kaka í ísskápnum. Hefði talið mig fullkomlega örugga til þess að lifa af fimm vikna fuglaflesnu innilokuð á heimilinu með vistirnar!

Nei, nei. Annað kom á daginn. Þegar tvær ofnskúffur af pizzu hurfu eins og dögg fyrir sólu og gosið gufaði upp jafn harðan þá varð að grópa til róttækra aðgerða. Úlfarnir hungraðri en áður en þeir byrjuðu að borða og enn átti einn gestur eftir að bætast í hópinn! S.o.s. Pizza pöntuð og ég út í búð að kaupa meira snakk og meira gos.

Niðurstaða: 10 strákar borða a.m.k. 3 stórar pizzur, drekka átta lítra af gosi, eina köku, tvo snakkpoka og slatta af nammi. Fara svo saddir og sælir út í fótbolta á eftir. Líður líklega eins og úlfinum í Rauðhettu, með fulla maga af steinum! Ekki að ég sjái eftir magninu ofan í þá, alls ekki, þeir eru bara frábærir!

 


Afmælisprins

AfmælisstrákurEinu sinni fyrir langa langa löngu var lítill strákur. Þegar hann var lítill grét hann og grét eins og hann væri á háu tímakaupi við það. Svo stækkaði hann og hætti að gráta. Steinhætti og hefur verið sem jólaljós síðan. Litli strákurinn hafði eitt sinn óskapar áhuga á risaeðlum, Ólafi Ragnari Grímsyni og Bin Laden- ásamt fjölmörgu öðru. Nú spilar hann fótbolta daginn út og inn eins jafnaldrarnir ásamt því að vita skóstærð og fjölda hára á höfði hvers einasta leikmanns Liverpool. Í dag er hann 12 ára. Risastór, verður kannski orðinn stærri en ég að ári!

Elsku kúturinn okkar til hamingju með daginn!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband