...svo kom Þvörusleikir

Heil og sæl börnin góð

Þá er síðasta skólavikan fyrir jólafrí að renna upp. Þegar mannfólkið fer í frí er mest að gera hjá okkur sveinunum. Mér líður þó ósköp vel á þessum tíma af því þetta er sá árstími sem ég er pakksaddur hvern einasta dag,  en ég læðist í eins margar þvörur og ég get um leið og ég luma einhverju skemmtilegu í skóinn hjá þægu börnunum.

Annars var þetta nú mun betra í gamla daga, þegar flestir voru með kjetsúpu, saltkjet, grjónagraut. Nú er öldin sú sannarlega önnur og fólk sullar öllu mögulegu saman og úr verða eihverjar undarlegar kássur og klessur sem ekki nokkur sveinn getur með góðu móti borðað. Hverjum datt í hug að troða bjúgu í brauð og sprauta blóði á allt saman? Eða þessi kringlótta brauðsorpa með öllu þessu dótaríi ofan á, það er eins og Grýla hafi hent úr sópnum sínum á þetta sem þið kallið pizzu. Ekki líkar okkur bræðrunum þetta fæði skal ég segja þér. En í kvöld lenti ég í því versta hingað til, mig logsvíður í tunguna og held bókstaflega að hún sé að detta úr mér! Ég var að brasa við að setja í skó á Egilsstöðum þegar ég fann þessa góðu lykt, en ég var alveg sannfærður um að gamaldags kjet og karrý væri í pottinum. Ég stóðst ekki mátið en laumaði mér inn, læddist að pottinum og fékk mér væna sleikju. En hjálpi mér allir tröllkarlar, þetta var ekki gamla karrýsósan sem mér þykir svo góð, þetta var eins og að sleikja glóandi kol. Ég veinaði og gólaði svo hátt að pabbinn koma hlaupandi niður og spurði mig hvað gengi eiginlega á. Ég gat ekki annað en sagt honum satt. Hann ætlaði fyrst að verða reiður við mig, en þegar hann sá hve illa mér leið þá gat hann ekki annað en gefið mér mjólkurglas til þess að minnka mesta sviðann. Hann sagði mér jafnframt að fjölskyldan hefði verið með Indverskt matarboð um kvöldið og á Indlandi borðuðu þeir afar sterkan mat!

Jæja, mér er ekki til setunnar boðið, en ég er orðinn dálítið seinn vegna þessa atviks. Vonandi koma jólaspilin sér vel Bríet mín en þú getur platað mömmu þína í jóla-veiðimann eftir skóla og Þór getur hrætt alla viðstadda með þessum voðalega snák sem ég gaf honum.

Bless, ykkar Þvörusleikir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Solveig Friðriksdóttir

Þú ert skemmtilegur penni. Gaman að lesa jólasveinasögurnar.

Solveig Friðriksdóttir, 15.12.2008 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband