Kæst skata í bland við arkitektúr

Held að ég hafi um margt verið undarlegt barn. Forn í fari, enda mikið hjá ömmu Jóhönnu. Fannst kósí  að klessast hjá henni,  hlusta á morgunleikfimina á Rás 1 og borða brauð með rækjuosti.  Fara svo út í garð narta í graslauk og hjálpa ömmu að rótast í garðinum. Uppáhaldsmaturinn minn var kæst skata.

Uppáhaldsbókin mín var „Kalli og Kata flytja“. Ekki kannski af því að sagan væri svo skemmtileg heldur af því að það var svo mikill arkitektúr í henni. Gat endalaust skoðað hana, enda eru blaðsíðurnar í henni orðnar mattar og þunnar! Sagan snýst um það að húsnæðið er sprungið utan af fjölskyldunni og þau verða að finna sér annað hentugra. Þegar þau finna loks rétta húsnæðið eru sýndar myndir „fyrir og eftir“ húsgögn. Þetta fannst mér alveg makalaust smart. Spáði og spekúleraði um réttu uppröðunina, fannst verst að geta ekki haft samband við foreldra Kalla og Kötu, svona rétt til þess að veita þeim faglega ráðgjöf...

Hef allar götur síðan haft óbilandi áhuga á arkitektúr og innanhússhönnun. Skil ekki ennþá af hverju ég drullaðist ekki í hönnunarnám af einhverju tagi þar sem hausinn á mér er stútfullur af hugmyndum, hvort sem það er af innanhússhönnun, fötum, málverkum, bókahandritum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held að ég eigi það bara eftir, pakka börnum og buru í tösku og fer í listaháskóla á Ítalíu þegar ég verð orðin risastór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já við höfum alltaf verið frekar aldraðar sálir held ég, báðar tvær. Kannast við þessa lýsingu á barni.  Fannst mest kósý að klessast með aldraða liðinu, hlera heimsmálin og drekka kaffi. Fannst fátt meira smart en Dolly Parton og uppáhaldsmaturinn var/er Kjötsúpa. 

Aassk er súpan annars góð þarna á Fylgifiskunum!  Er enn að kjamsa.

Lúv!!

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband