Húsbíll fyrir allan peninginn!

Þjónustuaðili: "Lýsing góðan dag"

Kúnni; "Já, góðan dag. Ég var að velta fyrir mér bílaláni"

Þjónustuaðili; "Já, þá ertu á réttum stað. Hvers konar bifreið er það sem þú ert að fjárfesta í"

Kúnni; "Það er húsbíll"

Þjónustuaðili; "Er það nýr bíll"

Knúnni; "Já, alveg splunkunýr- árgerð 2009"

Þjónustuaðili; "Hvað kostar hann"

Kúnni; "Hann kostaði 5500 krónur"

...þetta verður líklegt samtal mitt við bílalánsfyrirtækið á mánudag. Strax í bítið. Get svoleiðis guðsvarið það. Fór og fjárfesti í LEGOhúsbíl fyrir Þór áðan, en hann verður 4ra ára á þriðjudaginn og er með hverskyns húsbíla á heilanum. Bíllinn sá er þó afar smávaxinn, fyrir sjóndapra er heillavænlegra að styðjast við smásjá. En rúmar 5000 krónur kostaði gripurinn. Fari það í norður og niðurfallið...

Þrumuguðinn hefur semsagt afar mikið dálæti á húsbílum. Spyr mig reglulega að því hvenær í ÓSKÖPUNUM við ætlum að fá okkur einn slíkan. Ég svara því alltaf til að það sé ekki efst á forgangslistanum. Þór skilur mig ekki. Hann vill búa í húsbílnum, keyra í húsbílnum og helst starfa þar þegar að því kemur. Það var svo um daginn, líklega einn af þeim dögum sem hafði rignt linnulaust í þrjár vikur að hann segir;

"Nú væri gott að eiga húsbíl. Þá þyrftum við ekkert að fara út þegar við færum í búðina í þessari endalausu rigningu"

...skarpur þrumuguðinn!

Plinzinn minn


Fræknar frænkur

Ohóh!......skepnan hún Silja!

...jahér! Ákvað rétt aðeins að athuga hvort myndakerfið væri komið í lag og datt svosem ekki í hug að svo væri. En viti menn!

Set inn myndir um helgina. Við Silja bróðurdóttlan mín erum báðar miklar áhugakonur um ljósmyndun og tökum gjarnan syrpur hér og þar. Þarna var augljóslega kominn galsi í okkur eftir ágætis æfingu...


Brókalalli...

Slappleiki og kvef ágerist með degi hverjum. Hjálpaði líklega lítið til í morgun þegar ég læsti mig úti á brókinni og smá-bol! Af hverju var húsmóðirin í Tungu nánast ber út á tröppum?

Jú. Hún á morðóða köttinn Stúf sem vafalaust fer að rata í sögubækur Arnaldar Indriðasonar. Kom inn með fugl í morgun helvískur. Ég var nýkomin úr morgunsturtunni þegar hann kom hróðugur inn með fórnarlambið. Ég stök af stað og lokaði hann í forstofu. Náði í plastpoka til þess að veiða fuglinn í...

...allt samkvæmt plani. Ég náði fuglinum, opnaði út og lokaði á eftir mér því ekki ætlaði ég að láta köttinn fara út aftur óskammaðan! Ónei! Opnaði aftur. Eða nei. Það var harðlæst. Ég stóð úti á efnislitlum nærbuxum. Jibbí...

...bankaði. Unglingur enn sofandi og yngri kynslóðin heyrði ekki í mér þar sem þau voru að horfa á eitthvað afar skemmtilegt. BANK*BANK!!! Loks opnaði Bríet fyrir mér og mér var borgið. Mér var ekki skemmt, en vegfarendur hafa vafalaust haft af þessu einhverja ánægju...


Sængað með Batman!

Leið þegar ég kom til vinnu í morgun eins og ég hefði verið á margra daga Tequiladjammi. Eins og ég væri þunn. Þó svo "litlu" börnin mín séu að verða 4ra og 7 ára létu þau í nótt sem hvítvoðungar væru. Brösuðu og brösuðu og brösuðu og brösuðu. Sem aldrei fyrr. Bras í hverju horni. Eru ekki vön að vakna en það er algerlega borðliggjandi, ef að annað byrjar bætir hitt um betur!

Ég var búin að prófa allar mögulegar samsetningar í jöfnunni; Ég, Bríet, Þór, mitt rúm, Bríetar rúm. Ég byrjaði ein í mínu rúmi. Fljótlega kom Þór þangað, svo Bríet. Þá flúði ég af hólmi og fór í Bríetarrúm. Þar fann Þór mig skömmu síðar. Svona gekk rullan, fram og til baka. Allir sváfu hjá öllum, jah- nema ég, sem svaf ekki!

Úfff. Klukkan var fimm. Rúmskipan; Bríet í sínu og við Þór í mínu. Brasið virtist á undanhaldi og ég var aaaaalveg að sofna...

Þór; Hrekkur upp með andfælum og pikkar í mig  "Batman er hérna!"

Ég; "Jahá, er það?"

Þór; Sest upp, rúmlega hálfsofandi, brosir og segir; "Neih, mig var bara að dreyma"

...jahso! Það hefði nú ekki verið amalegt að hafa Batman á milli okkar!


Áfram stelpur!

Fjúfff! Fótbolti er ekki fyrir viðkvæma, í það minnsta leikurinn í dag sem var blóðugur í orðsins fyllstu merkingu. Er nánast eins þreytt eftir leikinn í stofusófanum hér heima eins og eftir 90 mínútna leik sem hægri bakvörður með Súlunni forðum daga. Þetta eru frábærar stelpur og það gengur bara betur á fimmtudaginn við norka liðið. Áfram Ísland!


Nýburi-leikskólakrakki-pabbi. Nokkurnvegin á þann hátt gengur aldursröðin...

Þór fer í loftköstum framhjá og kallar; "Komdu með mér að pissa..."

Á klósettinu:

Móðir; "Hvenær ætlar þú að prófa að pissa standandi?"

Þór; "Þegar ég verð pabbi. Það pissar enginn leikskólakrakki standandi"

...ónei. Það er þó satt. Ohh, hvað lífið er stundum einfalt! Annars virðist ég hafa náð mér í hálfgerða lumbru einhversstaðar. Er öll undarleg. Slöpp, með hausverk, vísi að hálsbólgu og þungan haus. Ætli það sé komið að því að smíða svínastíu í garðinum við Tungu?


Áttundi bekkingur, annar bekkingur, leikskólanemi, morðóður köttur og vinnandi móðir

Bjútí, bjútí, bjútífúl dägur. Var kominn tími til. Innilokunarkennd mín hefur farið ört vaxandi síðustu vikur, þegar ekki hefur sést í bláan himin svo dögum skipti. Tókum daginn snemma og þrumuguðinn lagði inn beiðni fyrir pönnukökum í morgunmat, sem og hann fékk. Þannig að fyrir klukkan tíu í morgun lagði pönnuköku&kaffiangan út umTunguglugga...

Framundan er verslunarferðin ógurlega, því nú er skólinn að hefjast á ný. Alltaf langar mig að setjast á skólabekk í haustbyrjun þegar ég fjárfesti í staðalbúnaði fyrir börnin mín. Innan veggja heimilis eru þá eftirfarandi nemar;

  • Áttundi bekkingur og verðandi fermingardrengur! Herre gud! Ég bara skil þetta ekki. Finnst sem hlaupið hafi verið yfir þónokkur ár. Finnst sem það hafi verið í gær sem ég fylgdi honum í Ártúnsskóla á morgnana, ósköp aumum. Í þeim skóla eru nemendur aðeins út 7unda bekk og fara þá í Árbæjarskóla. Mér fannst sem móðir fyrsta bekkings þá að verðandi Árbæjarskólanemar væru frekar af risaeðlukyni en mannsbörn!
  • Annar bekkingur. Með tannleysi á við gamalmenni. Báðar framtennurnar í efri góm yfirgáfu samkvæmið á sama tíma í sumar. Þær nýju eru þó á hraðri niðurleið þannig að við þurfum ekki að óttast það að hún geti ekki borðið skólamatinn. Á þeim bænum er afar mikill spenningur og virðist meira lekker en að vera að fara í annan bekk. Ekkert!
  • Í þriðja og síðast lagi er um borð leikskólanemi, sem hefur nú sitt næstsíðasta ár á Lyngholti. Honum til ómældrar ógleði, þessa dagana. Skilur lítt í óréttlæti heimsins að hafa þurft að fara út í harkið meðan skólabörnin dorma enn. En nú dettur þetta allt í rétta rútínu á mánudaginn og ég geng með von í brjósti þess efnis að þrumuguðinn sjái ljósið á ný varðandi leikskólann.

Stanslaust stuð. Þess utan telur Tungukot einn morðóðan kött og stanslaust vinnandi móður. Þykir þeim báðum sinn starfi afar skemmtilegur...

p.s. enn virðist ekki hægt að setja inn myndir á þessa blessuðu síðu. Boríng! 


Er Þorlákur væntanlegur?

Vantar líklega einhver vítamín. Ætli það sé ekki sólarleysið. Einkennin eru þó ekki slappleiki, á yfirleitt ekki við hægagang að etja. Nei, undarlegheitin lýsa sér í botnlausri löngum í kæsta skötu...

Almenn ánægja

Elsk'etta lag. Það vekur einnig mikla almenna lukku á heimilinu hjá mér yngri meðlimum...


Allir velkomnir í afmæli þrumuguðsins þar sem bornar verða fram ógeðslega vondar kökur!

Þegar menn eru verðandi fjögurra ára þegnar samfélagsins snýst mest allt um tilvonandi afmælisveislu. Þrumuguðinn fagnar sínu fjórða aldursári þann 1. september og langt er síðan hann var orðinn afar upptekinn af herlegheitunum!

Eftirfarandi samtal átti sér stað við kvöldmatarborðið í Tungukoti í gærkvöldi;

Þór; "Mamma. Ég vil bara að þú bakir vondar kökur fyrir afmælið mitt"

Ég; "Vondar kökur! Af hverju?"

Þór; "Svona Spiderman og Batmankökur. Allar svona ógeðslega vondar og ljótar!"

...jahso!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband