Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Hugsanleg yfirtaka á Sollu grænu

Ekki getur annað verið en að Solla græna sé BEST-SELLER allra matvælaframleiðenda um þessar mundir. Í það minnsta hef ég lagt allt mitt að mörkum síðustu vikur. Frá og með áramótum, þegar ég fór að vera gersamlega barnlaus aðra hverja viku hef ég nánast ekki borðað annað í kvöldmat en Sollu-buff, Sollu-baunarétti og Sollu-grænmetisrúllur. Er nú farið að örla á leiða og dauðlangar mig að fara að æfa mig í grænmetiseldun sjálf. Þrátt fyrir að hafa unun að eldamennsku og brasa mikið í eldhúsinu alla jafna hef ég aldrei lagt í þennan akur - en hyggst nú breyta því á næstunni...

Annars er lítill tilraunatími kringum kvöldmatinn þar sem ég fer svo gersamlegum hamförum í ræktinni. Hef ég gegnum tíðina verið eins og hinn dæmigerði landi, tekið mig á í janúar og febrúar, en lagt skóla á hilluna frá mars og fram yfir áramótin næstu. En, neinei. Nú kveður við allt annan og mun betri tón. Er kerlan búin að vera nær óslitið í spandexbuxunum í heilt ár! Já, takk kærlega pent! Á fjörur Reyðfirskra kvenna rak hún Kristín Gestdóttir, snilldar þolfimikennari - sem pískar stóran hóp kvenna áfram, mánuð eftir mánuð. Það er frábært að komast yfir byrjunarörðugleikana og í gott stand- en ég held ég hafi ekki verið í svo góðu líkamlegu formi síðan ég varð austurlandsmeistari í spretti á níunda áratugnum...

En já. Grænmetiseldun. Þið megið endilega benda mér á góðar bækur, netsíður eða hvað sem er sem gæti komið mér á sporið. Bóel í danska landinu, ég treysti á þig í þeim efnum¨:)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband