Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Af sláturkeppum og sveppum

Enn bólar ekkert á lausn myndamála hér á þessari guðsvoluðu síðu!

En nú skal fara að huga að haustverkum, en þá er ég alveg sýnd hratt. Í fyrsta falli þá er ég að prjóna mér lopapeysu! Bara skemmtilegt- en nú fer heldur að styttast í ógæfuhliðina, held að ég verði að fá einhverja hjálp til þess að "setja niður" bekkinn- sér í lagi þar sem ég þurfti að minnka ermarnar til muna frá uppskriftinni...

Búið að bjóða mér í sveppatýnslu í Hallormsstað í vikunni og ég ætla ekki að láta segja mér það tvisvar, að fara með vanri sveppatýnslumanneskju í leiðangur. Laufey er alger gúrú í þessu sem og allskonar jurtatýnslu og nú ætla ég að læra sem aldrei fyrr. Burn, bura og plastpokar fara í bíl í vikunni og bruna í héraðið, ef viðrar...

Þá eru það blessuð berin. Sá viðtal við konu í fréttunum á dögunum sem ætlaði að týna 300 kíló í ár. Veit nú ekki alveg með það en ég ætla einnig að ferja heim í lítravís. Er hér með hætt að kaupa fokdýr ber í Bónus til þess að setja út í "skyrbústið" mitt- nei, nú er það bara sjálfsþurftarbúskapurinn sem gildir!

Svo ekki sé nú talað um slátrið maður lifandi! Ég ætla að taka slátur í haust. Krakkagormarnir eru brjáluð í það þannig að mér er ekkert að vanbúnaði. Blóðsúthellingar og bringusundshandtök í balanum á haustdögum...

Á haustin gerum við okkur líka tonn af fiskibollum og kleinum. Það finnst ungviðinu einnig afar athyglsvert og skemmtilegur viðburður...

Kreppunni er hér með sagt stríð á hendur!


Aftur til vinnu

Mikið agalega leiðist mér að ég geti ekki með nokkru móti sett inn myndir á þessa síðu lengur. Í það minnsta ekki um þessar mundir, en hér bíða sumarleyfismyndirnar okkar í bunkum!

En, hvað um það. Nú er mitt fjögurra vikna sumarfrí að lokum komið en ég fer í vinnuna mína aftur á morgun. Mikið verður það nú gott. Misskiljið mig ekki, það er ljúft að vera í fríi en alltaf best að detta í rútínuna á nýjan leik...

...haustið er minn uppáhalds tími, nýtt upphaf. Kertaljósin tendruð og seríurnar mínar fara aftur upp eftir aðeins þriggja mánaða hvíld. Kósíheit og klæðin rauð. Hreint og kalt loft úti. Bjartir haustmorgnar á leið til vinnu, ummm...

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband