Gengið á Guðsvegum
15.10.2009 | 18:48
Samstarfsmaður minn sagði við mig um daginn; Og hvenær fer ég svo að merkja breytingar á þér Krissa mín? og vísaði þá til þess að ég er búin að verma kirkjubekkinn tvo sunnudaga í röð. Já, nú göngum við Almar Blær á Guðsvegum í allan vetur, förum með trúarjátinguna og raulum Jesú bróðir besti í sunnudagaskólanum. Sem tilvonandi móðir fermingarbarns fylgi ég honum að sjálfsögðu eftir í þessu feril...
Þó svo ég gangi aðeins með mína barnatrú í brjósti, sem snýst að mestu um að trúa á hið góða, hvað sem það nú er- finnst mér ótrúlega gott að koma í krikju. Ég er ekki frá því að ég komi örlítið betri manneskja þaðan út en ég fór þar inn. Finnst það ekki snúast um Guðsorð, heldur bara andrúmsloftið þar almennt, þar er einhver friður og ró sem er ekki þarna úti. Einhver x-faktor sem er vandfundinn í daglegu lífi...
Lokaði augunum í messunni um síðustu helgi og var þá á augabragði orðin sex ára, liggjandi á kórloftinu í litlu, gömlu kirkjunni á Stöðvarfirði- með skakkt tagl og í smekkbuxum. Mamma og pabbi sungu í krikjukórnum og amma Jóhanna og afi Oddur unnu að krikjunni, í húsvörslu og meðhjálpun. Ég teiknaði hús á meðan kórinn æfði sig, en hönnun hefur verið mitt áhugamál frá blautu barnsbeini. Kirkjudvöl mín í barnæsku varð líklega til þess að ég er eins mikill sálmanörd í dag og raun ber vitni, en mér finnst fátt eins fallegt og fallegir sálmar sungnir af góðum kór...
En í vor, nánar tiltekið 1. apríl - fer líklega um mig gæsahúð af geðshræringu þegar frumburður minn gengur upp að altarinu á sjálfan fermingardaginn. Stór dagur, stór strákur. Þó þykir mér kannski það merkilegasta í þessu öllu saman að mér finnst ég nýfermd, nánast um síðustu helgi. Tíminn líður ansi hratt...
...en, er alvarlega að spá í að skipta um bloggvang, færa mig eitthvað þar sem mögulegt er setja inn myndir samhliða færslum eða þá bara einar og sér, finnst þetta óþolandi sístem hér!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.