Áttundi bekkingur, annar bekkingur, leikskólanemi, morðóður köttur og vinnandi móðir
22.8.2009 | 10:17
Bjútí, bjútí, bjútífúl dägur. Var kominn tími til. Innilokunarkennd mín hefur farið ört vaxandi síðustu vikur, þegar ekki hefur sést í bláan himin svo dögum skipti. Tókum daginn snemma og þrumuguðinn lagði inn beiðni fyrir pönnukökum í morgunmat, sem og hann fékk. Þannig að fyrir klukkan tíu í morgun lagði pönnuköku&kaffiangan út umTunguglugga...
Framundan er verslunarferðin ógurlega, því nú er skólinn að hefjast á ný. Alltaf langar mig að setjast á skólabekk í haustbyrjun þegar ég fjárfesti í staðalbúnaði fyrir börnin mín. Innan veggja heimilis eru þá eftirfarandi nemar;
- Áttundi bekkingur og verðandi fermingardrengur! Herre gud! Ég bara skil þetta ekki. Finnst sem hlaupið hafi verið yfir þónokkur ár. Finnst sem það hafi verið í gær sem ég fylgdi honum í Ártúnsskóla á morgnana, ósköp aumum. Í þeim skóla eru nemendur aðeins út 7unda bekk og fara þá í Árbæjarskóla. Mér fannst sem móðir fyrsta bekkings þá að verðandi Árbæjarskólanemar væru frekar af risaeðlukyni en mannsbörn!
- Annar bekkingur. Með tannleysi á við gamalmenni. Báðar framtennurnar í efri góm yfirgáfu samkvæmið á sama tíma í sumar. Þær nýju eru þó á hraðri niðurleið þannig að við þurfum ekki að óttast það að hún geti ekki borðið skólamatinn. Á þeim bænum er afar mikill spenningur og virðist meira lekker en að vera að fara í annan bekk. Ekkert!
- Í þriðja og síðast lagi er um borð leikskólanemi, sem hefur nú sitt næstsíðasta ár á Lyngholti. Honum til ómældrar ógleði, þessa dagana. Skilur lítt í óréttlæti heimsins að hafa þurft að fara út í harkið meðan skólabörnin dorma enn. En nú dettur þetta allt í rétta rútínu á mánudaginn og ég geng með von í brjósti þess efnis að þrumuguðinn sjái ljósið á ný varðandi leikskólann.
Stanslaust stuð. Þess utan telur Tungukot einn morðóðan kött og stanslaust vinnandi móður. Þykir þeim báðum sinn starfi afar skemmtilegur...
p.s. enn virðist ekki hægt að setja inn myndir á þessa blessuðu síðu. Boríng!
Athugasemdir
Sæl frænka
já, tíminn líður alltof hratt, alveg ótrúlegt að frumburðurinn sé að fara að fermast. Þú átt orðið ungling ;) maður var nú ekkert smá stór eftir fermingu, komin í fullorðinna manna tölu.
Ég fór á ættarmót helgina eftir verslunarmannahelgi og dvaldi á Löndum. Kíkti við á Reyðarfirði og Tungan þín var lokuð og læst ferðalöngum af norðurlandinu. Þú verður kannski heima næst þegar ég á leið framhjá.
Það er nú svolítið skondið að segja frá því að ég var stödd á Hornafirði laugardaginn sem þú varst á rúntinum um landið með börnin þín, ég fór meira að segja í sund þennan dag (annað hvort á undan eða eftir ykkur). það hefði nú verið gaman að taka pottaspjall ;)
Við hittumst vonandi fljótlega, hafið það gott í Tungunni ykkar huggulegu ;)
kveðja Erla
Erla Dögg (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.