Alla sína ævi

Staður: Litla gatan okkar

Stund: Fyrir nokkru

Persónur og leikendur: Ég sjálf- heimsins fráskildasta kona og í þessu atriði pönnukökubakari fyrir öll börn hverfisins, Þór, Bríet og þrjá vinkonur hennar.

Sögusvið: Sunnudagur í Tungukoti. Ausandi rigning. Bríet með Þór í eftirdragi lék sér af hjartans list við þrjár bekkjasystur sínar. Um miðjan dag þótti mér nóg komið af hamagangi innanhúss og mútaði liðinu út að hjóla gegn því að ég gerðist Lína langsokkur og bakaði stafla að pönnukökum. Díll...

...aumingja vesalings Bríet getur orðið ansi þreytt á því að vera með Þrumuguðinn í rassinum alla daga. Hann hjólar eins og vindurinn á tvíhjóli með hjálparadekkjum en það er oft þrautin þyngri að koma sér af stað. Bríet þarf því að fara af sínu hjóli og ýta honum af stað en það getur verið þreytandi til lengdar. Skiljanlega!

Ahhh. Mátti heyra saumnál detta, kannski ekki í heystakk- en allavega á eldhúsgólfið þegar herliðið var farið út. Púff. Þá var það pönnukökubaksturinn, nú mátti láta hendur standa fram úr ermum. Þegar ég er rétt byrjuð að baka heyri ég; "Mamma. Maaaammmmmmmmmmaaa!" Ég eins og sönn hverfismóðir, rak nefið út um eldhúsgluggann og gólaði; "Hvað er að?"

Bríet; "Þú verður að koma, Þór er fastur."

Ég; "Ýtt'onum bar'essgan" (Nennti engan vegin út í vatnsveðrið auk þess sem takturinn í pönnubakstrinum var þá í stakri hættu)

Bríet; "Ég get það ekkert, hann er FASTUR"

Ég; "Hvað er þetta!" (En mat stöðuna þannig að ég yrði að fara út og athuga málið)

Fór út. Í kringum fasta fórnarlambið stóðu Bríet og vinkonurnar þrjár. Ráðalausar...

Bríet; "Sko. Hann er fastur. Buxurnar hans eru flæktar í pedalanum!"

Já, það var nefnilega það. Snjóbuxurnar tættar og flæktar utan um padalann og Þrumuguðinn pikkfastur á hjólinu. Ég bisaði. Og brasaði. Ekkert gekk. Hann var fastur. Fórnarlambið tók að ókyrrast. Augu áhorfendana stækkuðu þegar húsmóðirin sjálf virtist ekkert geta gert í þessu háalvarlega máli. Bríet ráðskona hvessti augun, setti hendur á mjaðmir og sagði;

Bríet; "Uhumm. Á hann semsagt að sitja hérna alla sína ævi?"

Já- hvað á maður að halda þegar maður er bara sex ára og allir hafa reynt sitt. Án árangurs? Bríet sá bróður sinn líklega upplifa alla sína helstu atburði líf síns, sitjandi á hjólinu út á miðri götu. Afmæli, ferming, útskrift úr háskóla, feðrahlutverkið og hvað sem er, pikkfastur á eigin hjóli í allt of litlum snjóbuxum. Þrautin leystist þegar Bríet sótti skæri og barnið klippt af hjólinu. Þór mun því ganga frjáls, alla sína ævi...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur nú komið fyrir á bestu bæjum að "hjóla sig fastan" og það er barasta ekkert grín! Snilldin ein að lesa bloggið þitt - en hvernig endaði pönnsubaksturinn?

Ellen (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 13:20

2 identicon

Þessi saga er bara mergjuð ;-)

Lov!

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 20:55

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

pönnukökur.....mmmm....

Ylfa Mist Helgadóttir, 6.5.2009 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband