Stekkjastaur kom fyrstur...
12.12.2008 | 00:03
Það er meiri vitleysan að fara svona seint að sofa. Ég var meira að segja vakandi þegar Stekkjastaur bar að garði. Ég faldi mig undir sófa og þorði ekki að láta í mér heyra. Hann skildi eftir góss í skóm (tja, eða stígvélum) og þessa orðsendingu líka:
Góðan daginn, glaðan haginn en vonandi springur ekki í ykkur maginn
Þetta segir Grýla mamma alltaf við gesti sem koma í hellinn okkar í Hádegisfjallinu. Henni þykir þetta alltaf jafn sniðugur brandari og hlær alltaf þannig að hellirinn nötrar og skelfur. Einu sinni hló hún svo mikið að það fór af stað snjófljóð í fjallinu. Þá skammaði Leppalúði pabbi hana svo mikið að hún hefur passað sig síðan. En það sem er nú kannski hræðilegast er að brandarinn er alveg sannur, því einu sinni sprakk í alvöru á henni maginn, alveg eins og Gýpu frænku!
Nú er mamma okkar orðin gömul og grá og gerir ekki flugu mein en þegar hún var yngri var hún ekki eins góð skal ég segja ykkur. Nú borðar hún bara hundasúrusúpu, þarasteik og drekkur mosakaffi en þegar hún var ung og hress voru önnur tröll uppáhalds maturinn hennar. Alveg satt. Þegar hún var 850 ára hélt hún stórt og mikið skvísuboð. Hún bauð öllum vinkonum sínum sem mættu í flottum skóm og með bleikan varalit. Leppi pabbi er svo skotinn í henni pantaði heilan tröllkarlakór til þess að syngja fyrir hana afmælissönginn. Þegar þeir voru að klára að syngja síðustu línurnar var mamma orðin svo gráðug og svöng að hún læddist til þeirra og gleypti þá alla í einum munnbita, fimmtán tröllkalla. Það veit hvert barn að einn mallakútur getur ekki haldið inn í sér heilum karlakór og því fór sem fór. Grýla sprakk með slíkum látum að allt landið hristist og skalf, það er kallaður jarðskjálfti hjá ykkur mannfólkinu held ég. Karlakórnum varð ekki meint af, kysstu Grýlu til hamingju með daginn, gæddu sér á krásunum og spiluðu á banjó langt fram eftir nóttu. Bóla frænka saumaði hins vegar magann á mömmu saman með skærgrænum kaðli, rosa flott
En mikið var ég nú ánægður að sjá að jólakötturinn ykkar var kominn heim aftur heillá húfi. Hann er varla eins óþekkur og okkar, en ég segi ykkur sögur af honum seinna. Prófið að gefa honum úldna kartöflu í skóinn ef hann stelst svona frá ykkur aftur, en þá verður hann rosa fúll-vill en hann heldur að hann sé prins og vill frekar fisk á sinn disk
Jæja, þá verð ég að halda áfram. Ég á eftir að þjóta til Reykjavíkur og heimsækja Elísu skvísu, Eygló litlu og Hauk Atla. Bið að heilsa svefnpurrkunni henni mömmu ykkar. Bless, kless- ykkar Stekkjastaur
Athugasemdir
Þú ert snilldarpenni. Fer ekki ofan af því. Við ættum að fá þig til að semja jóladagatalið hjá okkur í leikskólanum fáum stundum ritstíflu :)
Lísa Lotta (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 12:13
Sem hvaða dagatöl sem er, hvenær sem er- ekki málið!
Kristborg Bóel Steindórsdóttir, 12.12.2008 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.