Oddskarð, nostalgía, ostabrauð og kakó!
21.3.2008 | 16:04
Fórum með stóðið í Oddskarðið á skíði í dag. Það er fátt dásamlegra en að vera uppi á topp í stafalogni, sól og blíðu. Ummm...
Dvöldum að mestu í "litlu lyftunni" þar sem Bríet og Þór voru í fylgd með fullorðnum. Þau stóðu sig ótrúlega vel og ég skelli inn myndum þegar ég nenni að taka þær af vélinni. En að sjá þessa tíu ára brettakrakka. Þau eru alveg mögnuð. Svona ætla ég að verða eftir ár, hehehehe! Ég stefni allavega á að fjárfesta í bretti og ná góðum tökum, held að það sé BARA gaman!
Eftir svig, ostabrauð og kakó hóf hljómsveitin Á móti sól upp raust sína og hélt klukkutíma tónleika við skíðaskálann. Það var bara skemmtilegt. Þór gaf að vísu skít í flutninginn og sofnaði á öxlinni á afa sín undir fyrsta lagi. Ég get nú ekki sagt að ég sé aðdáandi hljómsveitarinnar svona að staðaldri en það er alltaf gaman að horfa á bönd spila "í beinni" og hvað þá í slíkri stemmningu eins og var í fjallinu...
...ég fékk hvert nostalgíukastið á fætur öðru. Í fyrsta lagi kastaðist ég aftur til Kennó-áranna þar sem Sævar gítarleikari var með mér í Kennó og var auðvitað alltaf að troða upp þar eins og sönnum hljómsveitagaur sæmir. Fimm mínútum seinna fór ég aftur til ársins 1993- í Menntaskólann á Egilsstöðum. Af hverju? Jú- þegar hljómsveitin tók "Sólstrandagæja-syrpu", en ég var akkúrat í ME þegar Sólstrandagæjarnir voru stofnaðir og voru upp á sitt besta. Ohh, það er svo notó að taka nostalgíu annað slagið...
Skemmst er frá því að segja að allir fóru í svo mikið stuð á skíðaklossunum með lúffurnar, klappandi með Magna og félögum að ég held að hver einasti kjaftur sé á leiðinni á ball í kvöld. Félagarnir ætla að halda uppteknum hætti frá og með miðnætti í Valhöll á Eskifirði og hvöttu alla til að mæta- án skíðagleraugna. Ég fór í banastuð og er að vinna í því að ná Mörtu á ball, það gengur bara ágætlega! En spyrjum að leikslokum!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.