Unglamb hokið af reynslu...

Ég og vinkona mín áttum tal saman um daginn, einu sinni sem oftar. Talið barst að börnunum okkar fjölmörgu. Samtals eigum við sex. Gátum ekki annað en brosað þar sem við höfðum nákvæmlega sömu sögu að segja...

Mér finnst ég í fyrsta lagi hafa átt "únglínginn í skóginum" í fornöld. Upplifunin er öll í þoku, enda aðeins tvö ár í fermingu, hólí mólí- og ég sjálf nýfermd! Magnað. Það man ég þó að mér þótti upplifunin öll hin stórkostlegasta. Ekki misskilja mig, það þótti mér líka með númer tvö og þrjú, en þá fór að halla undan fæti í sumu. Til að mynda skráningu og skjalfestu á hinum ýmsu atburðum- stórum sem agnarsmáum!

Fyrir það fyrsta baðaði ég mig gersamlega upp úr allri meðgöngu- fæðinga og nýburavitneskju sem hægt var að fá þarna í gamla daga. Á hverju borði lá meðgöngubók, ég held meira að segja að ég hafi gert sérstakt fæðingarplan, að sjálfsögðu farið á foreldranámskeið þar sem meðal annars var talað um  jóga-öndun og annað sem mögulega gæti nýst í átökunum. Verð nú að segja að hvorki planið né öndunin hjálpuðu mikið- eða ég hreinlega gleymdi hvoru tveggja, enda hvernig er annað hægt þegar maður íhugar frekar að kasta sér út um gluggann á þriðju hæð Landspítalans í stað þess að þurfa að klára það að koma blessuðu barninu í heiminn!

En allavega, hann kom í heiminn litli prinsinn, að sjálfsögðu fallegri en allt! Á meðgöngunni var ég sérstaklega upptekin af því að fylgjast með því í fræðunum hvað laumufarþeginn væri orðinn stór á hverjum tíma, um hve marga millimetra hann hefði stækkað síðustu vikuna og ég veit ekki hvað og hvað. En bókhaldið hófst þó fyrst um leið og ég hafði krafta til að snúa mér við eftir fæðinguna. Allt- og þá meina ég allt var skjalfest. Fyrsta gretta, fyrsta bros, fyrsta prump, fyrsta velta, fyrsta (og allar) tönn og bókstaflega fyrsta "allt". Gæti skilað doktorsritgerð á tveimur tímum með þeim upplýsingum sem eru til um frumburðinn, bara fyndið...

En! Svo fór ég að detta á ógæfuhliðina. Með öðru og þriðja barni. Þó sérstaklega með þrumuguðinn minn, örverpið. Þó svo ég ætti að bjarga lífi mínu á því þá gæti ég hvergi grafið upp nema 1% upplýsinga um hann á við það sem er til um stóra bró...

...ég hef að vísu oft íhugað að gerast leigumóðir, ja svona nánast. Meðganga, fæðing og brjóstagjöf var á tímabili mitt helsta áhugamál þar sem allt gekk eins og best verður á kosið. Ég verð gersamlega ofvirk og í banastuði fram á síðasta dag meðgöngu, skokka, þríf eldhúsinnréttinguna aðra hverja viku og er í mínu besta skapi. Á börnin svo á 0,1 (allavega þessi tvö yngri) og mjólka eins og Auðhumla í ár. Jú- læv is bjútifúl! En að ég liti í meðgöngufræðin eftir árið 1996, nei. Málið er ekki áhugaleysi á stúlku og smádreng heldur bara eitthvað, bland af gleymsku, vitneskju og kæruleysi. Þetta verður bara einhvernveginn svo eðlilegt og gengur bara...

Ég vona að kæruleysið komi ekki að sök og þvisturinn og þristurinn komist jafn vel til manns og ásinn! Það er ég viss um...

ÁsTvisturÞristur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hreinlega ekki hægt að færa þetta fyrirbæri betur í orð góða.

Skuggalega fleiri myndir til af frumburðinum hér og man ekki hvort að ég hafi gluggað í eina einustu bók á seinni mola meðgöngu..

Já og ég man sko vel eftir henni Auðhumlu..., innréttingaskrúbbi og skuggalega hröðum fæðingum bloggskrifara.  Hafði miklar áhyggjur af því að hann þrumuguð myndi fæðast í smávörudeild Ikea á sínum tíma! 

Sendi knús yfir fjöll og heiðar.  Haltu áfram að vera svona dugleg að skrifa.  Svo skrifum við meira og gefum út....ekki spörning.

Lúv og fast faðmlag!!! 

jors trúlí trúbadorínan úr borginni..... (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband