Sveittir seinnipartar- frásögnin byggir á sönnum atburðum

Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Velkomin um borð í Barndísi. Við munum fljótlega fljúga inn í ókyrrð sem mun standa yfir í fjórar klukkustundir og því hvetjum við ykkur til þess að spenna sætisólar og hafa sætisbök og borð fyrir framan ykkur í uppréttri stöðu. Hvorki eru björgunar- vesti eða bátar um borð né heldur útgönguleiðir. Reynið þó eftir fremst megni að vera jákvæð, þolinmóð, brosa og njóta flugsins. Góða ferð!  

Seinniparturinn. Yfir honum liggur ókyrrðin eins og þykk þoka. Skyggnið er slakt og flugvélin tekur djúpar dýfur þannig að farþegarnir svitna á köflum. Klukkustundirnar fjórar frá því börnin koma heim úr skóla og leikskóla og fram að háttatíma. Allir eru þreyttir og pirraðir eftir langa stranga daga og berjast um athyglina eins og hungraðir úlfar. Auk þess er upptalningin á því sem foreldrarnir þurfa að framkvæma á þessum stutta og harðsoðna tíma ævintýraleg hjá flestum fjölskyldum. Það þarf að versla í matinn, hjálpa til við heimalærdóminn, spila lúdó, setja í þvottavél, taka úr þvottavél, klæða Nínu dúkku í sparikjól, hlusta á erfingjana æfa á hljóðfæri, baða þá sem baða þarf, elda, ganga frá á heimilinu, skipta á kúkableyjum og síðast en ekki síst skutla börnunum og sækja í tómstundir. 

Ég er sjálf móðir þriggja barna, ellefu ára stráks, fimm ára stelpu og tveggja ára stráks. Eins og aldurinn gefur til kynna eru þarfirnar afar mismunandi og alls ekki er hægt að gera öllum til hæfis með einni aðgerð.  

Klukkan er fimm. Pirringurinn nálgast hættumörk. Íbúðin lítur út eins og tveir simpansar hafi slegist af hörku um bananakippu. Ég geri örvæntingarfulla leit að ofurkonubúningnum mínum í skápunum en finn hann ekki. Já, fjandinn, hann var örugglega orðin allt of þröngur. Ég ákveð að fara öruggu leiðina og elda hakk og spaghetti því það slær yfirleitt í gegn. Örverpið hangir vælandi í fótunum á mér, ilmandi af kúkalykt og virkar líkt og gólfmoppa. Týnda miðjubarnið tilkynnir mér að leikskólinn hafi boðið upp á sama rétt í hádeginu og hana langi ekki í hann aftur. Hún vill grjónagraut! Það hlaut að vera. Frumburðurinn, hvar er hann eiginlega?

 

 

Nokkurnvegin svona hljómaði fimm mínútna tóndæmi þennan gráa, hefðbundna október-seinnipart á Mánagötunni. Með hverju ætli þurfi að margfalda  þær til þess að fá út fjóra klukkutíma?

 

Frumburðurinn; Mamma má ég hringja í Magga og gá hvort hann getur leikið?

 

Ég; Nei elskan, það borgar sig ekki, það er ekki langt í mat. Væri ekki upplagt að þú æfðir svolítið á hornið?

 

Týnda miðjubarnið; Hvar er pabbi?

 

Ég; Hann skrapp í búð

 

Sjálfstæð hugsun mín; Þvottavélin er búin! Ég verð að muna að hengja upp pollagallana, það verður rigning á morgun

 

Týnda miðjubarnið; Ég þarf að kúka! Ég þarf að kúka! Viltu losa buxurnar!!

 

Örverpið; Mamma- Dó hovva Hásagói (Mamma, Þór vill horfa á Dýrin í Hálsaskógi)

 

Sjálfstæð hugsun mín; Æi já, það er foreldraviðtal á morgun

 

Frumburðurinn;  Mamma. Veistu um nótnabókina mína?

 

Týnda miðjubarnið; Búin!

 

Örverpið; Mamma! Dó Hásagói!!

 

Frumburðurinn; Mamma, það eru skilaboð til þín í skólapóstinum

 

Sjálfstæð hugsun mín; Æi, fjandinn! Blautþurrkurnar eru búnar og barnið angar eins og mykjuhaugur!

 

Týnda miðjubarnið; Má ég vatnslita? Getur þú gefið mér vatn í glas og náð í blað?

 

Örverpið; Hásagói!!!

 

Ég; Já, já, rétt strax bara

 

Frumburðurinn; Mamma, síminn!

 

Sjálfstæð hugsun mín; Ég ætla að reyna að drullast í ræktina í fyrramálið

 

Örverpið; Mamma!!

 

Týnda miðjubarnið; Mamma, vatn- svo ég geti málað

 

Örverpið; Mamma!!

 

Sjálfstæð hugsun mín; Ji minn, hann er örugglega að verða veikur, hann er svo hrikalega pirraður!

 

Frumburðurinn; Það eru tónleikar í tónlistarskólanum eftir tvær vikur

 

Týnda miðjubarnið; Æi, ég hellti niður vatnslitavatninu, buxurnar eru blautar og myndin mín líka! Hún er ónýt! (Grátur)

 

Örverpið; Mamma- mamma- mamma- mamma....

Sjálfstæð hugsun mín; Ó mæ, ó mæ, ó mæ! Anda inn, anda út! 

Auðvitað eru dagarnir misjafnir. Sumir eru eitthvað á þessa leið og þá líður mér oft eins og um falda myndavél sé að ræða. Að tökumennirnir stökkvi á hverri stundu undan sófanum og  hrópi glottandi, “ha, ha, tekin!!” Aðra daga er hópurinn ljúfur sem lambahjörð, dundar sér saman eins og vel æft tríó.  

Aukaverkanir barneigna er krónískt samviskubit. Það hellist yfir mæður líkt og rigning á vordegi og plássið sem það fær úthlutað í heilabúinu eykst með hverju barni. Seinniparturinn er vel þekkt samviskubitsefni. Að nýta ekki þann litla tíma sem fjölskyldan er saman til uppbyggilegra samverustunda. Að fara ekki út á róló dag hvern, koma svo inn og syngja nokkur erindi upp úr Vísnabókinni áður en fjölskyldan sest með bros á vör við matarborðið og snæðir lífrænt ræktaðar krásir. Staðreyndin er hins vegar sú að mæður er mannlegar og eiga líka rétt á að vera ergilegar, þreyttar og pirraðar þegar mikið gengur á. 

Ég hef þó reynt mitt besta til þess að láta heimilisstörf og annað amstur lönd og leið seinnipartinn og vera með börnunum, tileinka mér orð flugmannsins; vera jákvæð, þolinmóð, brosa og njóta flugsins. Tíminn sem þau eru lítil líður allt of fljótt og ég veit að ég á eftir að hugsa til hans með miklum söknuði þegar börnin verða orðin stærri. Fá yl í hjartað við tilhugsunina um þegar allt var á haus. Þegar litlir búkar börðumst um að komast í mömmufang og knúsast. Þegar ég var alltaf með hor- og slefbletti á öxlunum og rann til á appelsínusafapolli á stofugólfinu. Þegar þau sváfu friðsæl í hlýju bólinu eftir annasama daga. Þegar alltaf var líf og fjör og enginn einasti dagur eins.   Aðal-söguhetjurnar þrjár...og flugfreyjan með tvær þeirra    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 11.3.2008 kl. 22:55

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þessi tími líður fyrr en varir. Annars er til lausn á þessum seinnipartsvanda. Vinna minna og sleppa skóladagvistinni, minnka leikskólaplássið, og vera bara helv.. blankur í nokkur ár. Þetta er alveg að virka hjá mér.

Eins og er.....

Ylfa Mist Helgadóttir, 12.3.2008 kl. 04:26

3 identicon

Púff! svo samviskubitið verður meira eftir því sem börnum fjölgar! Ég sem hélt að það hefði náð hámarki í mínu samviskuhrjáða móðurhjarta og er þó bara með eitt........legg ekki meira á mig.

Magga (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 19:35

4 identicon

Heil og sæl húsmóðir ;) datt í hug að láta vita af mér hérna eins og á Barnalandi!! en þetta er bara hreinlega spurning um að ath hvort þessir sundtappar..... sem fást í apótekunum séu ekki snilld......... ja allavega þá var ég að spá í að brosa.... og veifa eins og í Madagaskar....... bara heilsa og veifa ;) já maður lifir í Disney þessa dagana.... og unglingaveiki!!! biddu bara eftir því usss..... þá lifnar nú við í kofanum!

kv Hadda G

Hadda G (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband