Blaðað í blöð...

Var að blaða í tímaritum í kvöld. Allskonar blöðum, enda mikið blaðafrík. IKEA bæklingunum, NIKITA bæklingunum mínum, hönnunarblöðum og Fyrstu skrefunum. Ég skrifaði greinar fyrir Fyrstu skrefin  en ákvað að hætta þegar ég flutti austur. Renndi yfir grein sem ég skrifaði forðum, en mér hafa samskipti ömmu og afa við barnabörn sín alltaf verið hugleikin;

Gaman saman- dýrmæt samskipti ömmu og afa við barnabörnin

Líklega kemur svipuð mynd upp í huga flestra þegar hugsað er um heiðurshjónin ömmu og afa. Amma er feitlagin og róleg eldri kona sem situr og prjónar sokka eða sýslar í eldhúsinu. Afi er hluti af bakgrunninum, dyttar að innanhúss sem utan og leggur sig gjarnan eftir hádegismatinn. Þau virðast hafa allan heimsins tíma fyrir sig og barnabörnin sín. Yngsta kynslóðin kannast þó varla við þessa lýsingu. Nútímaamman leggur stund á mastersnám í háskóla, heldur fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum, er á kafi í jóga og andlegum fræðum og gengur með sólgleraugu frá Gucci. Afi fær með naumindum frí úr vinnunni yfir blánóttina, er í forsvari fyrir golfklúbbinn, braskar þess utan með hlutabréf og lyftir þungum lóðum í ræktinni til þess að verða eins og Stjáni blái!

Nútíma samfélagið einkennist af miklum hraða og önnum og ber allt annan blæ en á árum áður. Frístundir sem ætlaðar eru með börnunum eru allt of fáar og því er freistandi fyrir aðstandendur að falla í þá gryfju að bæta börnunum upp tímaskortinn með gjöfum. Vafalítið eru krílin sæl með slíkt en sú leið veitir þó skammvinna gleði. Berjaferðin eða indiánaleikurinn með afa eru minnistæðari en peysan eða videospólan sem amma færði í bú. Auk þess er ómetanlegt að geta seinna meir rifjað upp ljúfar minningar sem tengjast ömmu og afa.

Mikilvægt er að ömmur og afar styðji foreldra og líti á samverustundir með barnabörnunum sem jákvæða upplifun fremur en skyldu eða kvöð. Fjölmargar fjölskyldur búa þó við þær aðstæður að amma og afi búa víðs fjarri, á öðru landshorni eða jafnvel í öðru landi. Undir slíkum kringumstæðum er óneitanlega erfiðara að byggja upp tengsl. Þó skiptir sá tími sem til umráða er minna máli en það hvernig hann er nýttur. Það er börnunum mikils virði að finna að amma og afi meti þau að eigin verðleikum og þyki eftirsóknarvert að verja tíma sínum með þeim. Mikilvægt er að skipuleggja samverustundirnar til þess að fá sem mest út úr þeim. Ekki er hægt að búast við því að blessuð börnin hænist að ömmu sinni og afa vegna nafnbótarinnar einnar saman. Rétt er að líta á samverustundirnar sem innlegg á bankabók. Ef lítið er lagt inn á reikninginn er ekki hægt að vænta hárra vaxta eða gildrar innistæðu. Ef samskiptunum er hins vegar sinnt af einlægni og áhuga verður útkoman án efa ævilöng kærleiksrík tengsl sem gefa öllum mikið.

Nokkrar skemmtilegar hugmyndir að samverustundum sem kosta ekki mikið:

  • Baka lummur með rósóttar svuntur. Ekki væri út vegi að skella kardimommubænum á fóninn á meðan...
  • Skoða gömul myndalbúm af foreldrunum. Börn hafa mikla unun af því að hlusta á skemmtilega sagðar sögur, hvað þá þegar um sannar prakkarsögur er að ræða...
  • Fara í fjöruferð með kókómjólk og kleinur í bakpoka. Þegar bakpokinn er orðinn léttari er tilvalið að safna í hann allskyns gullum. Fallegir steinar, skeljar, greinar, ígulker og krabbar eru tilvalinn efniviður í skemmtilegan óróa sem ferðalangarnir geta föndrað saman í næstu samverustund...
  • Spila ólsen ólsen, veiðimann og þjóf. Hver veit nema gamalt lúdó leynist innst í stofuskápnum...
  • Ísbíltúr. Fátt jafnast á við að sitja foreldralaus í afabíl með skjannahvítan rjómaís og syngja "Áfram, áfram, áfram bílstjóri..."

Fyrstu skrefin 3.tbl- Maí 2006 (Höfundur; Kristborg Bóel)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta símtalsvirði? Uppákoma eystra?

Elsa (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 23:28

2 Smámynd: Kristborg Bóel Steindórsdóttir

Myndi nú alveg telja það símtalsvirði já- enda allt of langt síðan ég hef heyrt í kerlu! Hlakka til...

Kristborg Bóel Steindórsdóttir, 11.7.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband