"Þú ert nú að verða svolítið þybbin, en það er bara huggulegt"

Eins og kom fram í gær er ég alveg að verða snar á þessu vetrarríki. Fari það í norður og niðurfallið. Núna! Held ég hafi aldrei séð vorið í þvílíkum ljóma. Úff! Ætla í tilefni verðandi vorkomu að smella inn fyrstu greininni eftir mig sem kom fyrir almenningssjónir. Hana skrifaði ég fyrir fimm árum og birtist hún sem "Síðasta orðið" í Nýju lífi. Fyrir fimm árum var Almar Blær sjö ára, Bríet hálfs árs og Þór aðeins hugmynd!

__________________________

Eitt einlægasta en jafnframt vafasamasta hrós sem ég hef fengið um dagana var þegar sjö ára sonur minn var þriggja ára. Hann horfði á mig aðdáunaraugum og sagði: "Mamma, hvenær missi ég hvítu barnatennurnar mínar og fæ svona gular og flottar fullorðinstennur eins og þú?" Mér hálf brá því að ég hef alltaf verið talin með nokkurð hvítar tennur og svaraði hálf hvumsa. "Þegar þú ferð í skóla elskan." Þessi sami sonur minn er annars dugleur að hrósa mömmu sinni og sagði um daginn- um leið og hann faðmaði mig. "Mamma, þú ert nú að verða svolítið þybbin- en það er bara huggulegt." Þetta myndi engum öðrum detta í hug að segja, enda gæti það talist særandi. En það er annars notalegt til þess að hugsa að til séu manneskjur sem hugsa ekki einungis um aukakílóin og hvað þurfi að bursta tennurnar lengi upp úr matarsóda til þess að fá þær hvítglærar að lit. Hugsanir af þessu tagi er hins vegar búið að stimpla óþyrmilega inn í kollinn á konum á þrítugsaldri eins og mér. Þess til sönnunar er ég farin að telja mér trú um að sex mánaða gömul dóttir mín sé ekki næg afsökun fyrir því að ég skuli ekki vera þvengmjó og í toppformi!

Fegurðasamkeppnir hafa verið vinsælt sjónvarpsefni upp á síðkastið eins og einatt á vorin. Það er nánast sama á hvaða stöð er stillt, alls staðar spóka sig sig glæsilegar, langleggjaðar og sólbrúnar stúlkur á sviði. Þrátt fyrir að ég sé alls ekki talsmaður keppna af þessu tagi þá sat ég fyrir skömmu sem fastast yfir dýrðinni. Á fyrri keppnina horfði ég frá upphafi til enda og spændi í mig páskaeggið mitt í leiðinni- þar sem mitt persónulega átak átti alls ekki að hefjast fyrr en eftir páska! Á þá seinni horfði ég með öðru auganu þar sem dóttir mín ákvað að við skyldum mun frekar ganga um gólf en sitja aðgerðalausar yfir sjónvarpinu! Hún er strangur einkaþjálfari og sér alfarið um að þjálfa upphaldleggsvöðva mína!

Nokkrum kvöldum síðar var á dagskránni þáttur sem kallaður var "á bak við tjöldin" þar sem farið var baksviðs á meðan fegurðarsamkeppninni stóð. Spyrillinn spjallaði við keppendur á milli þess sem þeir skiptu um dress og límdu brjóstin á rétta staði með teppalímbandi! "Og hvað þarf maður svo að æfa lengi til þess að ná svona glæsilegum árangri eins og þið hafið náð?" varð spyrlinum að orði. "Við erum búnar að vera geðveikt duglegar að æfa í þrjá mánuði", svaraði ein að bragði, lagaði á sér hárið og þaut á svið...

Keppnir af þessu tagi eru ekki beinlínis upplífgandi fyrir nýbakaðar mæður eins og mig! Með lafandi maga, hárlos í sögulegu hámarki, ælu og slef á öxlunum og ganga í gjafabrjóstahaldara alla daga. Það var ekki laust við að ég upplifði mig "örlítið lummó" þar sem ég sat í sófanum en hresstist þó til allra muna við að heyra þetta um þriggja mánaða árangurinn hjá stúlkunum. Ja- það væri þá aldrei að ég yrði bara komin í þursuform fyrir sumarið og muni þar af leiðandi ekki að líta út eins og grásleppa í sundlaugunum. Mér var ekki til setunnar boðið lengur! Dreif mig af stað, kannaði líkamsræktarmarkaðinn og endaði á því að fjárfesta í korti í World Class í spönginni...

Ekki stóð á mér í þetta skiptið! Mætti galvösk í fyrsta tímann. Var búin að panta mér tíma hjá leiðbeinanda sem lofaðist til þess að búa til prógramm, nákvæmlega sniðið af mínum þörfum. Ekki var ég fyrr búin að stilla fyrsta tækið þegar föngulegur flokkur ungra kvenna skokkaði inn á svæðið. Þarna voru þátttakendur í Fegurðarsamkeppni Íslands mættir í öllu sínu veldi. Mér var allri lokið. Hafi samanburðurinn ógnað mér þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið gerði hann það ekki síður undir þessum kringumstæðum. Þarna stóð ég í fimm ára gömlum íþróttaskóm, þvældum bol merktum Baðhúsinu (sem nota bene bar vott um fyrri reynslu) og hreint ekki með hring í naflananum eða "sixpakk"! Í stað þess að bugast sneri ég upp á mig og hugsaði: "Iss svona verð ég semsamt eftir þrjá mánuði, sannaði til."

Nú er ég að verða búin að stunda ræktina af kappi í mánuð en sé svo sem ekki umtalsverðar breytingar. Enn er að vísu ekki liðinn sá tími sem uppgefin var til þess að ná hámarksárangri. En sumarið er komið og ég efast stórlega um að ég fari að reima á mig Nike skóna mína fögru og drífa mig í ræktina seinnipart dags þegar hægt er að sitja úti á palli og drekka kaffi latte og lakka á sér táneglurnar. Æi, já- á ég ekki bara að taka á þessu öllu saman í haust? Er ekki meira virði að eyða tímanum í að veltast úti á flöt í skordýraleit með syninum eða kynna fyrstu sóleyjarnar fyrir dóttlunni en að hlaupa á bretti þar til maður verður ringlaður!

Svei mér þá! Ég ætla bara að vera kærulaus og hætta að hugsa um aukakílóin og gömlu gallabuxurnar inn í skáp sem pössuðu einu sinni svo vel. Ég las hvort sem er í blaði nýlega að skyldudress sumarsins væru mínípils. Það vill líka svo vel til að það kemur sumar eftir þetta sumar og þá getur bara meira en verið að ég verði búin að vera í ræktinni allan veturinn!

Þangað til verð ég bara svolítið þybbin. Það er svo huggulegt!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Hahahahahahaha! Þetta var skemmtileg lesning! Það er huggulegt að vera þybbinn.... finnst mér. Og ég ætla að láta mér finnast það þar til eitthvað breytist verulega ;)

Ylfa Mist Helgadóttir, 15.4.2008 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband