Þriggja barna mæður kaupa sér varla krossara!!!

Sonur minn er tilfinnanlega að komast á þann aldur að útlit og framkoma foreldra er almennt til trafala. Ég man vel eftir þessu sjálf. Hef einmitt líklega verið ellefu ára þegar ég þóttist alls ekki kannast við mömmu á almannafæri. Ekki nóg með að mér þætti hún algerlega hræðileg til fara þá fannst mér hún líka eldgömu!

Sjálfri leiðist mér að fara alveg eftir stígnum í klæðaburði eða hárgreiðslu, já og ýmsu öðru. Ekki yrði ég hissa þó að sonur minn eyddi aleigunni til þess að kaupa handa mér áttavita, svo leiðist honum hvað ég villist oft af leið. Þó svo ég eigi ekki drakt, skyrtur eða svartar buxur með broti í fataskápnum og detti hreint ekki í hug að vera eins um hárið í áraraðir tel ég mig þó afar normal manneskju og falla þægilega inn í fjöldann. Aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að gera frumbuðinum óleik m eð "villtu líferni" þar sem hann hefur aldrei þekkt annað...

Í sumar fékk ég nóg af síða hárinu sem ég var búin að berjast við að safna í þrjú ár. Settist í stólinn og kom út með hanakamb. Umræddum syni lá við yfirliði þegar ég kom til baka. Hann stundi og sagði; "Æi, mamma. Þú ert þriggja barna móðir skilurðu!" Úff já, alveg rétt- það er líklega betra að fara að haga sér!

Auminginn litli var ekki nema rétt búinn að jafna sig á ósæmilegu rokkaraútliti móður háaldraðrar móður sinnar þegar næsti skellur kom- og það á sjálfan afmælisdaginn. Afi og amma splæstu í skíðum handa kappanum í tilefni áranna ellefu. Þar sem á áætlun er að virkja skíðaáhuga fjölskyldunnar hafði ég íhugað að fjárfesta í bretti í stað skíða handa sjálfri mér. Ég viðraði hugmyndina yfir afmæliskökunni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa; "Mamma! Í guðanna bænum, þú ert alltaf að reyna að vera einhver gaur!" Obbosí- dragtin er kannski bara málið...

Mig langar einnig sjúklega mikið í krossara! Satt best að segja hristi prinsinn höfuðið yfir þeirri hugmynd en lét sig þó hafa það að fara með mér þegar ég fékk að prufukeyra slíkan grip. Prufukeyra- eða ekki. Guggnaði þegar á hólminn var komið. Náði ekki niður með mína strumpa-leggi. Endaði sem farþegi- en losnaði þó ekki við delluna, það var bara gaman...

Til þess að hindra það að barnið reyni ekki eftir fremsta megni að verða sér út um ættleiðingapappíra á veraldarvefnum í leit að settlegri móður við hæfi hef ég tekið þá viturlegu ákvörðun að draga það fram á vormánuði að greina frá fyrirhuguðu skotvopnanámskeiði mínu í haust. Slíkt telur hann ábyggilega ekki við hæfi þriggja barna móður!!

New Image1 Rosa brött, með hjálm og allar græjur...

New Image4...já já, allar græjur!

 

New Image5 Endaði bara sem farþegi!

New Image2 Bríet var brattari! Bara flott- flottari- flottust!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

OMG - bíddu bara þangað til Bríet byrjar með athugasemdirnar! Mínar hrista haus og rúlla augum fyrir uppátækjum mínum. Ég hef líka voða gaman af að stuða þær svona hæfilega eins og þegar ég lýsi því þegar við pabbi þeirra ætlum að kaupa okkur mótorhjól og þeysa um Ameríku.

En samt hafa þær gaman af klikkelsis ganginum og stynja "Ó mamma þú ert svo spes"

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 15.2.2008 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband