Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Í skóla á ný...

Úff. Var búin að steingleyma því hvað það er erfitt að vera í skóla. Sat ásamt fleirum á endurmenntunarnámskeiði í vinnunni í allan dag. Ég er þreyttari eftir að sitja og meðtaka upplýsingar þennan eina dag heldur en eftir heila vinnuviku!

 


Þokkalegur kokkur!

Tel mig nú bara vera ágætiskokk alveg hreint. Í heiminum ríkir ekki samhljómur og meira að segja ekki innan heimilisins...

Þór; Mamma. Hvenær ætlar þú eiginlega að gera svona töflu eins og er í leikskólanum?

Ég; Hvernig tafla er það?

Þór; Æji, svona matartafla. Þar sem kennarinn krossar við hvort börnin borða þokkalega eða vel

Ég; Ég held að það kæmi nú ekkert sérstaklega vel út fyrir þig ástin mín, þú ert nú ekkert rosalega duglegur að borða matinn þinn í kvöldmatnum, þó svo að þú borðir alltaf vel í leikskólanum

Þór; Það er bara af því að þú eldar ekki eins góðan mat og matráðskonan í leikskólanum!

...noh!


Bubbi Morthens skiptir um starfsvettvang

Kærkomið helgarfrí. Kærkomnir gormar í húsi...

Íhugum að fara í menningarferð mikla í Egilsstaði á morgun. Stórmarkaðsferð og kaffihús, en það er alveg gasalega vinsælt og smart þegar maður er 4-6 ára. Heila málið...

Þór var með síma í kvöld, Bubba byggir síma í eigin eigu. Lét hann eitthvað illa af stjórn, Bubbi sagði ekki neitt nema þegar honum hentaði- þrátt fyrir að ýtt væri á hina ýmsu takka...

Þór; Ohhh

Ég; Hvað er Bubbi byggir eitthvað óþægur við þig?

Þór; Þetta er ekki Bubbi byggir í þessum síma. Þetta er Bubbi Morthens!

 


Skondnar umræður...

Fyrri umræða;

Staður; Kvölmatarborðið

Stund; í liðinni viku

Persónur og leikendur; Móðir, Bríet og Þór

Þór; Mamma, ert þú kærastan hans pabba?

Ég; Nei, það er Rebekka

Þór; Ó, já

Bríet; Ég er með tvo kærasta!

Ég; Noh. Hverjir eru það?

Bríet; Hlynur og Hilmir. Eða sko, ég er þeirra- en þeir eru ekki mínir...

...já, þetta er ekki einfaldur málaflokkur, það vita allir!

 

Seinni umræða;

Staður; Í bílnum

Stund; Í gær

Persónur og leikendur; þeir sömu og í þeirri fyrri

Persónur og leikendur eru í leik þess efnis að ungviðið segir fyrsta staf á orði og hinir tveir eiga að giska á hvaða orð er. Úldin skata bar á borð...

Ég; Ummm, mannstu Bríet á Þorláksmessu í fyrra, þá smakkaðir þú skötu. Ég ELLLLSKA skötu!

Bríet; Já, skötuna sem þú veiddir í Breiðdalsánni í fyrra sumar. Eða, nei- þú festir bara krókinn í botninum!

...jújú. Ég er enginn veiðimaður. Ósagt skal látið hvort að úldin skata syndir um í Breiðdalsánni en ég fór þó óneitanlega þangað í laxveiði í fyrra. Það eina sem ég áorkaði var að botnfesta þannig að Jói bróðir þurfti ítrekað að koma mér til bjargar. En ekki þarf að þræta um dásamleika skötunnar, er farin að telja niður í Þorlák...

Bríet varð að sjálfsögðu að prófaNei, alls ekki- þessi er sviðsett!Flottastur!

Skatan úldna komin á land!


Alls engin mynd af bleikum dúett...

Jólahlaðborð eftir nokkra daga. Ég er alvarlega að hugsa um að bjóða ósýnilega vini mínum með mér...

Hér hafði ég hug á því að setja inn mynd af mér og Jóhönnu Seljan, en við stigum á stokk í bleikum samfestingum síðan 1960 á dögunum og sungum dúett við mikla kátínu nærstaddra. En, eins og alltaf verið þið bara að ímynda ykkur myndirnar. Gaman að því...

 


Skapandi straujárn

"Krissa mín, þú ert ekki alveg eins og fólk er flest," sagði vinkona mín við mig í dag- þegar ég sagði henni að ég fengi alltaf heimsins bestu hugmyndir þegar ég er að strauja. Það er eitthvað svo róandi...

Ef ég ætti að telja húsverk upp í sæti eftir "skemmtileika", þá myndu öll þvottamál klárlega tróna á toppnum! Setja í vél, taka úr vél, hengja á snúru og brjóta saman, það er góð skemmtanSmile. Ég næ svo einhverju mögnuðu sambandi við straujárnið, hugurinn fer á flakk. Fékk um helgina hugmynd að bók í hausinn við iðjuna. Þannig að, ef ég vinn barnabókmenntaverðlaunin einn daginn þá þakka ég straujárninu mínu í ræðunni...

EINMITT: Óska ykkur bara til hamingju með þetta! Hér ætlaði ég að hafa mynd en NEI, hvað er að þessu dæmi? Skipti um bloggvettvang fyrir næstu færslu, það er næsta víst!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband