Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Unglamb hokið af reynslu...

Ég og vinkona mín áttum tal saman um daginn, einu sinni sem oftar. Talið barst að börnunum okkar fjölmörgu. Samtals eigum við sex. Gátum ekki annað en brosað þar sem við höfðum nákvæmlega sömu sögu að segja...

Mér finnst ég í fyrsta lagi hafa átt "únglínginn í skóginum" í fornöld. Upplifunin er öll í þoku, enda aðeins tvö ár í fermingu, hólí mólí- og ég sjálf nýfermd! Magnað. Það man ég þó að mér þótti upplifunin öll hin stórkostlegasta. Ekki misskilja mig, það þótti mér líka með númer tvö og þrjú, en þá fór að halla undan fæti í sumu. Til að mynda skráningu og skjalfestu á hinum ýmsu atburðum- stórum sem agnarsmáum!

Fyrir það fyrsta baðaði ég mig gersamlega upp úr allri meðgöngu- fæðinga og nýburavitneskju sem hægt var að fá þarna í gamla daga. Á hverju borði lá meðgöngubók, ég held meira að segja að ég hafi gert sérstakt fæðingarplan, að sjálfsögðu farið á foreldranámskeið þar sem meðal annars var talað um  jóga-öndun og annað sem mögulega gæti nýst í átökunum. Verð nú að segja að hvorki planið né öndunin hjálpuðu mikið- eða ég hreinlega gleymdi hvoru tveggja, enda hvernig er annað hægt þegar maður íhugar frekar að kasta sér út um gluggann á þriðju hæð Landspítalans í stað þess að þurfa að klára það að koma blessuðu barninu í heiminn!

En allavega, hann kom í heiminn litli prinsinn, að sjálfsögðu fallegri en allt! Á meðgöngunni var ég sérstaklega upptekin af því að fylgjast með því í fræðunum hvað laumufarþeginn væri orðinn stór á hverjum tíma, um hve marga millimetra hann hefði stækkað síðustu vikuna og ég veit ekki hvað og hvað. En bókhaldið hófst þó fyrst um leið og ég hafði krafta til að snúa mér við eftir fæðinguna. Allt- og þá meina ég allt var skjalfest. Fyrsta gretta, fyrsta bros, fyrsta prump, fyrsta velta, fyrsta (og allar) tönn og bókstaflega fyrsta "allt". Gæti skilað doktorsritgerð á tveimur tímum með þeim upplýsingum sem eru til um frumburðinn, bara fyndið...

En! Svo fór ég að detta á ógæfuhliðina. Með öðru og þriðja barni. Þó sérstaklega með þrumuguðinn minn, örverpið. Þó svo ég ætti að bjarga lífi mínu á því þá gæti ég hvergi grafið upp nema 1% upplýsinga um hann á við það sem er til um stóra bró...

...ég hef að vísu oft íhugað að gerast leigumóðir, ja svona nánast. Meðganga, fæðing og brjóstagjöf var á tímabili mitt helsta áhugamál þar sem allt gekk eins og best verður á kosið. Ég verð gersamlega ofvirk og í banastuði fram á síðasta dag meðgöngu, skokka, þríf eldhúsinnréttinguna aðra hverja viku og er í mínu besta skapi. Á börnin svo á 0,1 (allavega þessi tvö yngri) og mjólka eins og Auðhumla í ár. Jú- læv is bjútifúl! En að ég liti í meðgöngufræðin eftir árið 1996, nei. Málið er ekki áhugaleysi á stúlku og smádreng heldur bara eitthvað, bland af gleymsku, vitneskju og kæruleysi. Þetta verður bara einhvernveginn svo eðlilegt og gengur bara...

Ég vona að kæruleysið komi ekki að sök og þvisturinn og þristurinn komist jafn vel til manns og ásinn! Það er ég viss um...

ÁsTvisturÞristur

 


Árshátíð um árshátíð...

Það er gersamlega magnað hvað ég klúðra mér endalaust í "hliðarverkefni" í vinnunni! Held að árið 2007 hafi ekki nokkur hátíð farið fram hér innan veggja án þess að ég hafi tekið af mér slatta vinnunnar. Kannski helgast það af því að vinna í þessum "mannauðsgeira" en í námi mínu í náms-og starfsráðgjöfinni forðum var mikið talað um að slíkir einstaklingar soguðu að sér það sem aðrir "hafa ekki tíma til". Ég hef svo sannarlega ekki meiri tíma en aðrir hér innanhúss- bilíf mí, en þetta er bara svo gaman...

Nú fer ég fyrir árshátíðanefndinni og að skipulegga slíka hátíð í rúmlega 400 manna fyrirtæki er dágóður slatti. Þar sem um vaktavinnustað er að ræða verður allt keyrt tvisvar í gegn, tvær helgar í röð og alveg er búist við um 300 manns í hvort skipti! Að sjálfsögðu er ég ekki ein í rokkinu, heldur skipaði ég með mér heila hersveit. Nefndin hefur þurft að bregða sér í allra kvikinda líki til þess að redda málunum. Setja sig í bissness-stellingar til þess að tæla til okkar frambærilega hljómsveit, klæða okkur í álföt og gerast fyrirsætur fyrir auglýsinga-myndatöku og nú í þessum töluðu orðum ætlum við Martan mín að gerast textahöfundar fyrir upphafsatriði nefndarinnar! Jebb, jebb! Verð að láta álpappírsmyndina af nefndinni að fljóta með...Nefndin rokkaða!


Sveittir seinnipartar- frásögnin byggir á sönnum atburðum

Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Velkomin um borð í Barndísi. Við munum fljótlega fljúga inn í ókyrrð sem mun standa yfir í fjórar klukkustundir og því hvetjum við ykkur til þess að spenna sætisólar og hafa sætisbök og borð fyrir framan ykkur í uppréttri stöðu. Hvorki eru björgunar- vesti eða bátar um borð né heldur útgönguleiðir. Reynið þó eftir fremst megni að vera jákvæð, þolinmóð, brosa og njóta flugsins. Góða ferð!  

Seinniparturinn. Yfir honum liggur ókyrrðin eins og þykk þoka. Skyggnið er slakt og flugvélin tekur djúpar dýfur þannig að farþegarnir svitna á köflum. Klukkustundirnar fjórar frá því börnin koma heim úr skóla og leikskóla og fram að háttatíma. Allir eru þreyttir og pirraðir eftir langa stranga daga og berjast um athyglina eins og hungraðir úlfar. Auk þess er upptalningin á því sem foreldrarnir þurfa að framkvæma á þessum stutta og harðsoðna tíma ævintýraleg hjá flestum fjölskyldum. Það þarf að versla í matinn, hjálpa til við heimalærdóminn, spila lúdó, setja í þvottavél, taka úr þvottavél, klæða Nínu dúkku í sparikjól, hlusta á erfingjana æfa á hljóðfæri, baða þá sem baða þarf, elda, ganga frá á heimilinu, skipta á kúkableyjum og síðast en ekki síst skutla börnunum og sækja í tómstundir. 

Ég er sjálf móðir þriggja barna, ellefu ára stráks, fimm ára stelpu og tveggja ára stráks. Eins og aldurinn gefur til kynna eru þarfirnar afar mismunandi og alls ekki er hægt að gera öllum til hæfis með einni aðgerð.  

Klukkan er fimm. Pirringurinn nálgast hættumörk. Íbúðin lítur út eins og tveir simpansar hafi slegist af hörku um bananakippu. Ég geri örvæntingarfulla leit að ofurkonubúningnum mínum í skápunum en finn hann ekki. Já, fjandinn, hann var örugglega orðin allt of þröngur. Ég ákveð að fara öruggu leiðina og elda hakk og spaghetti því það slær yfirleitt í gegn. Örverpið hangir vælandi í fótunum á mér, ilmandi af kúkalykt og virkar líkt og gólfmoppa. Týnda miðjubarnið tilkynnir mér að leikskólinn hafi boðið upp á sama rétt í hádeginu og hana langi ekki í hann aftur. Hún vill grjónagraut! Það hlaut að vera. Frumburðurinn, hvar er hann eiginlega?

 

 

Nokkurnvegin svona hljómaði fimm mínútna tóndæmi þennan gráa, hefðbundna október-seinnipart á Mánagötunni. Með hverju ætli þurfi að margfalda  þær til þess að fá út fjóra klukkutíma?

 

Frumburðurinn; Mamma má ég hringja í Magga og gá hvort hann getur leikið?

 

Ég; Nei elskan, það borgar sig ekki, það er ekki langt í mat. Væri ekki upplagt að þú æfðir svolítið á hornið?

 

Týnda miðjubarnið; Hvar er pabbi?

 

Ég; Hann skrapp í búð

 

Sjálfstæð hugsun mín; Þvottavélin er búin! Ég verð að muna að hengja upp pollagallana, það verður rigning á morgun

 

Týnda miðjubarnið; Ég þarf að kúka! Ég þarf að kúka! Viltu losa buxurnar!!

 

Örverpið; Mamma- Dó hovva Hásagói (Mamma, Þór vill horfa á Dýrin í Hálsaskógi)

 

Sjálfstæð hugsun mín; Æi já, það er foreldraviðtal á morgun

 

Frumburðurinn;  Mamma. Veistu um nótnabókina mína?

 

Týnda miðjubarnið; Búin!

 

Örverpið; Mamma! Dó Hásagói!!

 

Frumburðurinn; Mamma, það eru skilaboð til þín í skólapóstinum

 

Sjálfstæð hugsun mín; Æi, fjandinn! Blautþurrkurnar eru búnar og barnið angar eins og mykjuhaugur!

 

Týnda miðjubarnið; Má ég vatnslita? Getur þú gefið mér vatn í glas og náð í blað?

 

Örverpið; Hásagói!!!

 

Ég; Já, já, rétt strax bara

 

Frumburðurinn; Mamma, síminn!

 

Sjálfstæð hugsun mín; Ég ætla að reyna að drullast í ræktina í fyrramálið

 

Örverpið; Mamma!!

 

Týnda miðjubarnið; Mamma, vatn- svo ég geti málað

 

Örverpið; Mamma!!

 

Sjálfstæð hugsun mín; Ji minn, hann er örugglega að verða veikur, hann er svo hrikalega pirraður!

 

Frumburðurinn; Það eru tónleikar í tónlistarskólanum eftir tvær vikur

 

Týnda miðjubarnið; Æi, ég hellti niður vatnslitavatninu, buxurnar eru blautar og myndin mín líka! Hún er ónýt! (Grátur)

 

Örverpið; Mamma- mamma- mamma- mamma....

Sjálfstæð hugsun mín; Ó mæ, ó mæ, ó mæ! Anda inn, anda út! 

Auðvitað eru dagarnir misjafnir. Sumir eru eitthvað á þessa leið og þá líður mér oft eins og um falda myndavél sé að ræða. Að tökumennirnir stökkvi á hverri stundu undan sófanum og  hrópi glottandi, “ha, ha, tekin!!” Aðra daga er hópurinn ljúfur sem lambahjörð, dundar sér saman eins og vel æft tríó.  

Aukaverkanir barneigna er krónískt samviskubit. Það hellist yfir mæður líkt og rigning á vordegi og plássið sem það fær úthlutað í heilabúinu eykst með hverju barni. Seinniparturinn er vel þekkt samviskubitsefni. Að nýta ekki þann litla tíma sem fjölskyldan er saman til uppbyggilegra samverustunda. Að fara ekki út á róló dag hvern, koma svo inn og syngja nokkur erindi upp úr Vísnabókinni áður en fjölskyldan sest með bros á vör við matarborðið og snæðir lífrænt ræktaðar krásir. Staðreyndin er hins vegar sú að mæður er mannlegar og eiga líka rétt á að vera ergilegar, þreyttar og pirraðar þegar mikið gengur á. 

Ég hef þó reynt mitt besta til þess að láta heimilisstörf og annað amstur lönd og leið seinnipartinn og vera með börnunum, tileinka mér orð flugmannsins; vera jákvæð, þolinmóð, brosa og njóta flugsins. Tíminn sem þau eru lítil líður allt of fljótt og ég veit að ég á eftir að hugsa til hans með miklum söknuði þegar börnin verða orðin stærri. Fá yl í hjartað við tilhugsunina um þegar allt var á haus. Þegar litlir búkar börðumst um að komast í mömmufang og knúsast. Þegar ég var alltaf með hor- og slefbletti á öxlunum og rann til á appelsínusafapolli á stofugólfinu. Þegar þau sváfu friðsæl í hlýju bólinu eftir annasama daga. Þegar alltaf var líf og fjör og enginn einasti dagur eins.   Aðal-söguhetjurnar þrjár...og flugfreyjan með tvær þeirra    

Kokkar gera innrás!!

Já það hlaut að koma að því- að streptókokkarnir gerðu sig heimakomna. Bríet sogaði að sér kokka einu sinni í mánuði allan fyrravetur. Endaði undir hnífnum þar sem kirtlarnir voru fjarlægðir og skurðlæknirinn sagði stoltur að þeir væru á topp fimm af ljótustu kirtlum sem hann hefði séð! Skál fyrir því!

Síðan hefur hún sloppið við kokka-innrás. Þótti Þór ófært annað en að taka við keflinu af stóru systur sinni og nældi sér í góssið. Lítur nú út eins og róni sem búin er að vera á kardimommudropafylleríi í marga mánuði, með fljótandi augu og þegar hann talar er eins og það sé epli í hálsinum á honum. Veikindin stöðva hann þó ekki í bardagalistinni. Nú gengur hann alltaf um með sverð og reynir að fá hvern sem á vegi hans verður til þess að berjast við sig...

Þór; "Ég gjóta í vinnu mín"

Ég; "Nú hvað ertu að skjóta í vinnunni þinni?"

Þór; "Fudla og fluvu" (fugla og flugur- afar spennandi bráð, sérstaklega seinni tegundin!)

Þór í Vöðlavík í sumar- alls ekki lasinn!


Humarhalar, andabringa og vanilluís með kanilsteiktum eplum!

Ummm! Borðaði á Hótel Héraði áðan með vinum úr vinnunni. Humarhala, andabringu og vanilluís með kanilsteiktum eplum. Sjæs! Ekkert slæmt við að enda vinnuvikuna þannig. Kannski bara spurning um að panta fast borð þar á hverjum föstudegi...

Forréttindi

Ég tel það forréttindi að vera í vinnu sem maður hlakkar til að fara í á hverjum morgni. Verð að vísu að viðurkenna að þó svo ég sé "á fertugsaldri" er þetta fyrsta alvöru vinnan mín. Hef stundað þá iðju hingað til að vera til skiptis í skóla og í fæðingarorlofi. Kannski bara gáfulegt- að klára það af áður en vinnukaflinn hefst...

Stúdent- Almar Blær, Kennaraháskóli Íslands/grunnskólakennari- Bríet, Háskóli Íslands/náms- og starfsráðgjafi- Þór. Já svona sirka gekk það til. Hef auðvitað droppað inn í sumarstörf og einstaka afleysingar hér og þar...

Er nú búin að vera ár hjá Alcoa Fjarðaáli. Var ráðin inn í mannauðsteymi svokallað. Þar var starfssvið mitt afar fjölbreytt og skemmtilegt, tók meðal annars ráðningarviðtöl við fólk, sá um grunnfræðslu, húsnæðismál og starfaði í ýmsum nefndum á borð við jafnréttisnefnd, árshátíðanefnd og sit í starfsmannafélaginu...

Já það er nóg að gera. Á dögunum skipti ég um vettvang innan Alcoa. Fór ekki langt, aðeins hinu megin við skápaeiningarnar. Fékk flutning yfir í teymi sem kallast upplýsinga- og samfélgasteymi. Þar er mitt aðal svið eiginlega blaðamennska. Þannig séð. Innan Alcoa Fjarðaáls er öflug upplýsingamiðlun og innri samskipti. Starfræktur er innri vefur sem kallast Fréttavefur Fjarðaáls. Hann virkar líkt og mbl.is þar sem við skellum inn nýju efni um leið og það gerist. Ég tek einnig alltaf eitt stórt viðtalvið einhvern starfsmann einu sinni í viku. Við flutninginn hélt ég öllum mínum nefndarstörfum og er nú í óða önn við að skipuleggja árshátíð fyrirtækisins ásamt fleirum, en það er í mörg horn að líta í 400 manna fyrirtæki...

En það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri til þess að vinna við áhugamálið sitt sem í mínu tilfelli eru skriftir. Stundum sit ég við borðið mitt, horfi út á fjörðinn og hugsa hve magnað það er að fái borgað fyrir þetta!


Á ég ekki börnin mín?

"Ji, þú átt bara ekkert í þessum börnum, bara ekki neitt", sagði kona við mig á dögunum. Ekki í fyrsta skipti sem setningin sú fer í loftið. Kannski var þetta allt saman draumur. Kannski á ég ekki þessi börn eftir allt saman. Set inn eina mynd af þeim og aðra af mér þegar ég var fjögurra ára. Kannski má finna einvern svip þá- eða ekki!

HópurinnFjögurra ára skvísa


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband