Rafræn jólakveðja

Það kom þá að því að lífsmark yrði hér á síðunni. Jólasveinarnir runnu á rassinn með bréfaskrif hvað þá annað, allavega náðu þeir ekki samfellu í það eins og undanfarin ár! Svei bara. Verð einnig að játa mig sigraða í jólakortunum í ár, það varð eiginlega ekkert úr því heldur...

Það tekur bara ótrúlega á að aðlagast breyttum aðstæðum og desember, já og fyrstu jól eftir skilnað er líklega erfiðasti tíminn sem farið er í gegnum í slíku ferli. En ég vona að þeir sem áttu von á sínu hefðbundna korti fyrirgefi mér og lesi það hér að neðan í staðinn. Ég set einnig inn myndina sem ég ætlaði að hafa á kortinu. Hver veit nema þið fáið bara júlí eða ágústkort í staðinn! En allavega, gleðileg jól öllsömul og hafið það eins gott og mögulegt er...

Verð að greina frá einu í viðbót fyrir jólakveðjuna. Þór og Bríet eru bæði komin til manns, en það borðuðu bæði skötu í gærkvöldi og það bara vel! Flottust...

Jólakortið 2008

Jólakveðjan okkar úr Tungu:

Þrír litlir grísir, giltan móðir þeirra og úlfur í kattagæru

Einu sinni voru þrír litlir grísir sem bjuggu með móður sinni víðsvegar um Reyðarfjörð.  Í haust útbjó hún nestispakka handa þeim, kyssti þá á kinnina og sendi þá burt til að spila á eigin spýtur og freista gæfunnar.  Þeir lögðu allir af stað saman af stað en þegar þeir komu að vegamótunum kvöddust þeir og óskuðu hver öðrum gæfu og gengis og héldu svo hver sína leiðSá elsti settist á skólabekk í sjöunda skipti. Þar er nóg um að vera,  samræmd próf, Stóra upplestrarkeppnin og seta í nemendaráði skólans. Fótbolti, glíma og hornleikur er á dagskrá sem fyrr ásamt hefðbundnum vinastörfum. Grísinn vex líkt og baunagras og líklegt verður að teljast að á sama tíma að ári hafi hann náð sentimetrafjölda móður sinnar sem þó er töluverður!

Miðjugrísinn hélt stoltur af stað út í haustið, vopnaður glænýrri skólatösku og öllu því sem þarf til þess að takast á við stórverkefnið  1. bekk.  Grísinn hefur beðið eftir áfanganum svo árum skipti og finnur líklega lítið fyrir því að vera yngsti nemandi bekkjarins. Nú á dögunum féllu svo loksins, loksins  tvær tennur úr grísamunni við mikinn fögnuð og húrrahróp hans sjálfs!

Yngsti grísinn sat hins vegar eftir á leikskólanum með sárt ennið og skildi ekki hverslags misrétti hann var beittur, en í grunnskólann ætlaði hann líkt og hinir tveir. Segir sjálfur að þegar hann verði stór- en Bríet lítil á ný muni hann fara í skólann og þá skuli sækja hana í leikskólann! Hann jafnaði sig þó fljótt og unir hag sínum vel í Asparholti þar sem hann vefur kennurunum um fingur sér.

Úlfur sögunnar er í kattagæru, heitir Stúfur og er jólaköttur. Blæs hvorki né hvæs húsið um koll né hefur áhuga á að leggja sögupersónurnar sér til munns.  Þarf hins vegar oft að bíta á jaxlinn og brosa út í annað þegar hann er klæddur í prjónahúfur og náttföt og þröngvað í dúkkukerruna!

Eftir millilendingu í stöðluðum og gráum raðhúsalengjum búa grísirnir og giltan nú í kotinu Tungu og líkar vel. Húsið er eitt af eldri húsum bæjarins og er því í „101 Reyðarfirði“ þar sem menningin er engu lík.  Rósettur eru í loftunum, veggfóður á veggjunum, brakar í hverri fjöl og þess má til gamans geta að móðirin sefur inn í skáp og aðeins er ein innstunga að meðaltali í hverju herbergi. En af sjarma er nóg og við hlökkum til þess að fá ykkur öll í kaffi í sumar og lofumst til þess að bjóða upp á kaffi og með‘í á Línu langsokk-svölunum okkar! 

Jólakveðjur frá Krissu, Almari Blæ, Bríeti og Þór


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndisleg grísasaga, Krissa mín. Á þessum bæ voru engin jólakort skrifuð heldur. Sendi ykkur mínar bestu jólakveðjur og vona að nýja árið verði ykkur öllum gott. Kærar þakkir fyrir fallegar kveðjur til okkar í vikunni.

Rúna (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 21:21

2 identicon

Krissa mín, við sendum ykkur jólaljósið og allar okkar bestu óskir í tilefni hátíðarinnar. Njóttu þess að vera til, knúsaðu alla snúðana þína frá okkur í Sunnuhvoli, Jólakveðja/ petrea og ALLIR hinir (9)

petrea (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 22:46

3 identicon

Æðisleg kveðja líkt og þér einni er lagið að sjóða saman rýjan mín. Get síðan ekki beðið eftir kaffi á Línusvölum;-)

 Jólaknús!

Hrafnhildur

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 16:14

4 identicon

Bestu kveðjur, - eins vænar og þær verða. 

Elsa (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 09:44

5 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Gleðileg jól Grísalappalísa og grislingar!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 26.12.2008 kl. 18:24

6 identicon

Elska ykkur öll afarmikið, hlakka til að drekka með ykkur þar eða eða hér molasopa eða með tertuhlaðborði. Komi nýtt ár með gleði og góða líðan. Stórt knús.

Anna Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband