Stúfur var sá þriðji...

Þið eruð búin að rugla mig algerlega í ríminu.

...hvar er Stúfur?

...má ég fá Stúf, þú ert búin að hafa hann svo lengi!

Ég ætla að setja hann í dúkkukerruna!...ohh, Stúfur er búin að pissa í rúmið!

Ég hélt alltaf að þið væruð að kalla á mig eftir að þið skírðuð kisuna í höfuðið á mér og ég var ýmist að hlaupa af stað eða að reyna að skammast mín fyrir óþekktina!  Mikið þótti mér nú nafngiftin annars góð hugmynd.  En að pissa í rúmið, það var ekki jafn snjallt og svoleiðis er ég löngu hættur að gera! Annars hefur hann nafni minn nú stækkað aldeilis, hann er alveg að verða eins og skógarbjörn að stærð, hann er að verða stærri en ég!

Það getur annars verið snúið að vera svona lítill eins og ég.  Bræður mínir segja að ég sé óttalegt smábarn og þess vegna hef ég ekki enn fengið að taka meiraprófið, en það þarf ég til þess að geta flogið hreindýrasleðanum. Þess vegna fer ég minna ferða ennþá á gamla snjósleðanum hans Leppalúða en varla mikið lengur!  Og í kvöld kom að því að hann gafst upp blessaður. Ég var að koma úr Hallormsstað, keyrði á harðaspani niður eina brekkuna en þegar ég ætlaði að bremsa var það ekki hægt.  Í stað þess að stöðvast renn sleðinn sífellt hraðar og hraðar þar til hann hafnaði á stórum steini.  Sleðinn fór í klessu og það skipti engum togum með það, ég flaug af í stóðum boga og pokinn minn á eftir mér. Og veistu hvar ég lenti? Nei, það er ekki von. Ég lenti á bakinu á Lagarfljótsorminum! Ég hef aldrei á minni ævi verið eins hræddur og þegar ég horfði í grænar, risastórar glirnurnar á honum.  Sjálfur var hann grænn og slímugur og virtist í slæmu skapi. Til allrar lukku vorum við nálægt landi þannig að ég henti mér í fljótið og synti til lands. En mikið er ég nú þeyttur eftir volkið og það verður gott að leggjast til hvílu undir morgun.

Ég ákvað að gefa litla lákanum eina pínulitla kartöflu í skóinn með hinu sem hann átti að fá en hún er svona eins og gula spjaldið- nú verður hann aðeins að fara að passa sig ef hann ætlar ekki alltaf að hafa kartöflumús í kvöldmatinn! Annars var nauðsynlegt fyrir Bríeti að fá nýja liti en það er eins og það hafi komist hamstur í litaboxið hennar, þeir eru bara allir að verða búnir! 

Jæja börnin góð, nú ætla ég að halda aftur af stað út í nóttina- ykkar smávinur og ormatemjari, Stúfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband