Annar sveinn hefur farið hjá...

Sæl veriði krútthaugarnir ykkar. Mér er svo kalt að mig langði mest til þess að skríða upp í rúm til ykkar og hlýja mér. Ég er svona illa haldinn af því ég fór í rauða gallann minn hálfblautan út í frostið í morgun- og það sem meira er, ég gleymdi að fara í lopanærbuxurnar innan undir. Grýla mamma var nefnilega sein með stórþvottinn í ár. Hún þvær alla gallana okkar einu sinni á ári og er venjulega búin að því áður en við förum til byggða. En þetta árið ruglaðist allt kerfið af því að Varta stóra systir hennar kom í heimsókn alla leið frá Ameríku þar sem hún er búin að búa síðustu 300 árin. Varta kom með allskonar dótarí í köflóttu ferðatöskunni sinni, margt af því hafði Grýla aldrei séð, eins og flaskan með rauða matarlitnum en sagan af honum er nú alveg til næsta bæjar, ójá. Það er sagan af því af hverju jólakötturinn kemst alls ekkert til mannabyggða þetta árið

Í fyrradag var komið að hinni árlegu baðferð okkar bræðra. Það finnst okkur ekki skemmtilegt enda orgaði Stúfur og grenjaði allan tímann. Baðið er fyrir utan hellinn okkar, hlaðin steinalaug með heitu og góðu vatni. Meðan Leppalúði og Bjólfur kröllkarlinn hennar Vörtu hjálpuðu okkur með sápuna sem kom einnig upp úr köflóttu töskunni, voru Grýla og Varta að undirbúa stórþvottinn. Þær settu alla gallana okkar ofan í risastóran bala, helltu fyri þau vatni ásamt heilli flösku af rauða litnum, en liturinn á göllunum okkar var heldur farinn að láta á sjá eftir áralanga notkun. Vatnið varð blóðrautt. Þær hrærðu í herlegheitunum með risastórri sleif, hring eftir hring. Þegar þær voru búnar að hræra dágóða stund áttuðu þær sig á því að eitthvað undarlegt var í balanum. Þær hættu að hræra en þvotturinn hætti samt ekki að snúast. Svo komu loftbólur upp á yfirborðið og upp úr balanum þaut jólakötturinn en hann hafði lagt sig í fatahrúgunni sem í balann fór

Eða jólakötturinn. Já líklega hefur þetta verið hann en við áttum erfitt með að þekkja hann þegar hann kom blóðrauður þjótandi út úr hellinum. Hann mjálmaði ámátlega og blés meiri sápukúlur. Aumingja greyið, en svona gerast óhöppin, hann fær í það minnsta ekki að fara til mannabyggða svona útlítandi!

Jæja börnin góð, ég laumaði örlitlu gotti í skó. Það eru nú meiri vöðlurnar sem að unglingurinn hefur sett þarna í gluggakistuna. Bið að heilsa ömmu Jónu ef þið sjáið hana eitthvað fljótlega. Ég fann ekki blað til þess að skrifa á þannig að ég sendi bréfið bara í tövlupósti, en ég er nýbúinn að vera á tölvunámskeiði hjá honum Skrápi.

Bless, bless- aðal gaurinn á svæðinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband